Bjarni Sverrir Kristjánsson fæddist á Arnarnúpi í Dýrafirði 16. mars 1928. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 5. mars 2023.

Foreldrar hans voru Guðbjörg Kristjana Guðjónsdóttir, f. 20.8. 1897, d. 31.12. 1989 og Kristján Guðmundsson, f. 27.12. 1889, d. 20.12. 1973, ábúendur þar. Systkini Bjarna voru: Guðmundur Jón, f. 1920, d. 1988, tvíburabróðir Guðmundar Jóns, drengur, f. 1920, lést í fæðingu, Guðmunda, f. 1921, d. 1959, Guðjón Örn, f. 1922, d. 2021, Sigríður Guðný, f. 1925, d. 2016, Elías Gunnar, f. 1926, d. 2021, Ingvar Stefán, f. 1931, d. 1979, og Þorgeir Björgvin, f. 1937. Uppeldisbróðir Bjarna var Markús Stefánsson, f. 1928, d. 2010, en þeir voru systkinasynir.

Bjarni kvæntist 25. febrúar 1961 Esther Ruth Isaksen, f. 27.1. 1940, frá Reykjavík.

Börn Bjarna og Estherar eru: 1) Rúnar Már, f. 1963, kvæntur Kristínu Rósnýju Guðlaugsdóttir. Börn þeirra eru: Íris Hrönn, Bjarni Freyr, Hildur Jónína og Kristján Örn. 2) Hanna Þórhildur, f. 1966, maki Sæmundur Rúnar Ragnarsson. Fyrir átti Hanna börnin: Margréti Ruth, Grétar Már og Rakel Ýr. 3) Anna María, f. 1968, kvænt Aðalsteini Aðalsteinssyni. Börn þeirra eru Arnór Daði, Esther Ruth og Embla Dögg. Fyrir átti Aðalsteinn dótturina Kristínu. Langafabörnin eru orðin tuttugu talsins.

Bjarni ólst upp á Arnarnúpi í Dýrafirði með fjölskyldu sinni og byrjaði snemma að hjálpa til við öll verk á bænum eins og þau voru á þeim tíma. Skólagangan var takmörkuð en hann gekk í farskóla í Keldudal í fjóra vetur þar sem kennt var tvær vikur í senn og síðan var tveggja vikna frí. Hann var heima til tvítugs en þá fór hann að fara til Þingeyrar á vertíðar en yfir sumarmánuðina sinnti hann bústörfum á Arnarnúpi. Einn vetur var hann á nýsköpunartogaranum Goðanesi sem var gerður út frá Norðfirði og með honum sigldi hann nokkrar ferðir til Hull og Grimsby.

Bjarni flutti suður til Reykjavíkur 1954 og vann fyrst um sinn hjá Eimskip og í annarri verkamannavinnu. Haustið 1955 hóf hann störf sem verkamaður hjá Skeljungi en komst fljótt að sem bílstjóri en það mótaði starfsferilinn hans enda starfaði hann sem bílstjóri eftir það. Hann var olíubílstjóri hjá Skeljungi í 15 ár, lengst af hér í Reykjavík og nágrenni en síðustu þrjú árin keyrði hann mikið út á land. Eftir að hann hætti hjá Skeljungi hóf hann leigubílaakstur hjá Bæjarleiðum sem hann sinnti í 31 ár eða þar til hann lét af störfum árið 2002, þá 74 ára.

Vorið 1959 kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Esther Ruth Isaksen. Þau gengu í hjónaband 1961 og hófu búskap að Tunguvegi 7 í Reykjavík.

Bjarni verður jarðsunginn frá Guðríðarkirkju í dag, 17. mars 2023, klukkan 15.

Elsku pabbi, nú er komið að skrítnum tímamótum, nú ert þú farinn í sumarlandið og eftir sitjum við hér með söknuð en ljúfar minningar um góðan mann, yndislegan föður og traustan vin.

Margar minningar skjóta nú upp kollinum þegar ég hugsa til baka og ein af þeim er þegar þú komst með stigasleðann á olíubílnum inn á Tunguveginn og ég fékk að vera lengur úti en vanalega til að prófa þetta undratæki og mikið þótti mér nú til þess koma að eiga þennan flotta sleða. Margar ferðir fór ég með þér á Shell-bílnum og þá var kaffibrúsinn með svörtu sykruðu kaffi með í för, þótti mér þetta mjög spennandi drykkur. Alloft var afi Kristján með okkur og eru þetta fyrir mér mjög ljúfar minningar um góðar stundir með mínum mestu fyrirmyndum í lífinu. Góðmennskan við menn og málleysingja var ykkur tveimur ávallt mikils virði.

Öll ferðalögin á Opelnum, drekkhlöðnum af fólki og farangri, fleiri ferðalög á ýmsum bílum fylgdu svo í kjölfarið, farið var ansi víða um landið og oftast í samfloti með Braga og Dísu og fleira góðu fólki. Veiðiferðirnar voru nokkuð margar og farið var víða til að renna fyrir fisk en þó með misjöfnum árangri, en aldrei fórum við fisklausir heim þegar við vorum að veiða með Stefáni frænda í ánni sem rann fram hjá sumarbústaðnum hans, í versta falli voru lögð net ef ekki vildi betur. Fjölskylduferðirnar sem við fórum saman í veiðihúsin við Heiðarvatn, ferðalög vestur í Dýrafjörðinn að heimsækja æskuslóðirnar þínar og hlusta á margar skemmtilegar sögur úr sveitinni þinni. Allar samverustundirnar með stórfjölskyldunni, skemmtilegar og ljúfar minningar sem munu lifa í hjarta okkar um ókomna tíð.

Öll hjálpin sem við Kristín fengum þegar við vorum að byggja okkar fyrsta hús í Lágmóanum var algjörlega ómetanleg. Þú varst kominn snemma alla sunnudaga til að hjálpa okkur þó svo að þú hefðir verið að vinna á leigubílnum um nóttina, alltaf varstu mættur með góða skapið og með viljann að vopni til að hjálpa okkur og til að drífa húsbygginguna áfram og með þrautseigju og góðu verkviti var húsið keyrt upp á mettíma og þar áttir þú ansi mörg handtökin. Við erum og verðum þér ævinlega þakklát fyrir alla þá ómetanlegu hjálp sem þú hefur veitt okkur í gegnum tíðina elsku pabbi.

Mörg voru þó bernskubrekin hjá mér sem unglingur og ungur maður, mörg hver lítt gáfuleg, en alltaf mættir þú mér með góðmennsku og hafðir fulla trú á þessum óstýriláta unga manni. Góðmennska þín og réttsýni á lífið við allt og alla hefur verið mín fyrirmynd í gegnum mitt líf.

Elsku pabbi, það verður skrítið að geta ekki hitt þig eða bara hringt í þig til að spjalla um allt og ekkert eða segja þér fréttir af hrossabúskapnum, hverjir væru komnir í hús og hverjir væru ennþá úti og hvort ekki væri örugglega hey og vatn hjá þeim. Þannig varst þú alltaf að hugsa um málleysingja og hvort ekki væri í lagi með allt þitt fólk.

Nú ert þú kominn í sumarlandið til þíns fólks sem þar er. Hafðu þökk fyrir allt elsku pabbi. Ég vil trúa því að við hittumst síðar.

Þinn sonur,

Rúnar Már Bjarnason.

Mig langar til að minnast Bjarna tengdaföður míns sem fallinn er nú frá.

Þegar ég hugsa til Bjarna koma upp ótal minningar með honum og Esther tengdamömmu. Við Bjarni vorum góðir vinir og ég sakna hans mikið. Ég naut þess að vera í hans félagsskap og við sköpuðum okkur margar dýrmætar minningar. Samverustundirnar voru margar og fjölbreyttar.

Þegar ég læt hugann reika um Bjarna koma upp falleg orð eins og gæska, hjálpsemi, dugnaður, heilindi, nákvæmni og auðmýkt. Hann talaði aldrei illa um neinn og var æðruleysið uppmálað. Var ávallt með allt á hreinu og fylgdist vel með þjóðmálum og því fór fátt fram hjá honum. Hann hafði mikið dálæti á íþróttum þó svo honum gæfist ekki tækifæri til að iðka þær sjálfur á yngri árum. Skaginn var hans lið í fótboltanum og svo Víkingur seinna meir. Eins fylgdist hann með af miklum áhuga íþróttaiðkun minni og barnanna og spurði ávallt hvernig leikar hefðu endað.

Ég er þér óendanlega þakklátur fyrir þá gæsku sem þú hefur alltaf sýnt mér frá okkar fyrstu kynnum og verið mér traustur sem klettur. Sömuleiðis fyrir það að vera góður við börnin mín fjögur og afastelpuna mína. Þú fylgdist vel með þeim og faðmurinn þinn var alltaf opinn og kærleikurinn til staðar.

Hjálpsemi var þér í blóð borin og í ófá skiptin varstu mættur til að hjálpa til enda var þér svo umhugað um okkur að annað kom ekki til greina af þinni hálfu. Verkvit þitt var með eindæmum mikið sem kom sér iðulega vel.

Þú ert mér mikil fyrirmynd. Þú sýndir alltaf mikinn dugnað í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur og gafst aldrei upp. Allt skyldi vera vel gert og aldrei öðruvísi.

Þú varst minnugur með eindæmum og það var einstaklega gaman að heyra sögurnar þínar úr Keldudal þar sem þú varst borinn og barnfæddur. Hvernig lífið gekk fyrir sig þar og hversu hörð lífsbaráttan var en frásagnir þínar að vestan voru þrátt fyrir það fullar af auðmýkt - þarna voru ræturnar.

Í ferðalagi sem fjölskyldan úr Maríubaugnum fór í til Dýrafjarðar, nánar tiltekið Keldudals, var sá háttur hafður á að ég hringdi reglulega í Bjarna á leiðinni og sagði honum hvar við værum stödd og hvað bæri fyrir sjónir. Í eitt af þessum skiptum hringdi ég í hann úr Önundarfirði (þaðan sem ég er ættaður) og var ég að dásama fegurðina þar. Þá svaraði tengdapabbi um hæl „bíddu bara þangað til þú kemur niður Gemlufallsheiðina og sérð Dýrafjörðinn“. Stoltið í röddinni hans leyndi sér ekki og ég skynjaði það vel í gegnum símtalið.

Eitt af mínum stærstu gæfusporum í lífinu var að eignast þig sem tengdapabba því betri maður er vandfundinn. Ég mun alltaf geyma í hjarta mínu alla þína góðvild og góðu mannkosti og mun ætíð vera þér þakklátur.

Guð geymi þig minn góði tengdapabbi og ég þykist vita að þú sért kominn í faðm forfeðra þinna og eflaust farinn að láta gott af þér leiða þar sem þú ert staddur núna.

Eftir stöndum við í hlýjum og fallegum minningum frá þér og með þér sem ylja okkur um ókomna tíð.

Aðalsteinn Aðalsteinsson.

Ó, elsku hjartans afi minn, einstakur maður með hjarta úr gulli, elskaðir af öllu hjarta og brostir svo fallega.

Það sem ég á eftir að sakna þess að fá djús úr skipaglasinu og grænan frostpinna og heyra þig segja sögur, þú hafðir upplifað svo margt í lífinu.

Afi minn var alltaf svo skýr í kollinum og mundi allt og dáðist ég að því hversu mikið hann hafði afrekað í lífinu. Enda ekki margir eftir í nútímanum sem hafa upplifað það að búa í torfbæ í sveit.

Takk fyrir allar minningarnar og takk fyrir að elska mig eins og ég er og vera stoltur af mér, takk fyrir að kyssa mig alltaf tvisvar á kinnina en ekki einu sinni.

Þú ert nú kominn á betri stað og við munum minnast þín um ókomna tíð.

Elska þig, afi minn, að eilífu og alltaf.

Rakel Ýr Sigurðardóttir.

Það er erfitt að byrja að skrifa niður orðin þar sem ég finn svo til í hjartanu og tárin streyma þegar ég leyfi hugsununum mínum að koma, þar sem ekkert verður eins og áður. Tómarúm, söknuður og sorg. Með þessu er allt eitthvað svo endanlegt. Það er þungt að hugsa til þess að stundirnar okkar saman verði ekki fleiri.

Við áttum þær svo margar og góðar. Hvert ár með þér gaf mér hamingju og gleði. Hver stund var mér svo dýrmæt og verður alltaf geymd í hjartastað. Þú varst mér svo miklu meira en bara afi. Ég veit að þú verður samt alltaf hjá mér.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða, svo einlægur og hlýr. Trygglyndi þitt var traust og tengt því sanna og góða. Þú hafðir allt, allt sem fyrirmynd getur af sér gefið, þannig að ég óska þess heitast að sonur minn, nafni þinn, verði alveg eins og þú. Þú varst svo klár, duglegur, heiðarlegur og minnugur. Þú gast lagað allt og gert allt svo miklu betra.

Minni þitt var aðdáunarvert. Í seinni tíð sátum við heilu og hálfu tímana saman þar sem þú sagðir mér sögur úr sveitinni, frá fólkinu sem þér þótti svo vænt um og lífsbaráttunni sem þurfti á þessum tíma til að komast af.

Ég finn fyrir svo miklu þakklæti fyrir að hafa haft þig mér við hlið í öll þessi ár. Þú hafðir alltaf mikla trú á mér og sannfærðir mig um að ég gæti allt sem ég ætlaði mér. Það skipti mig miklu máli að þú værir stoltur af mér, það þurfti nú oft ekki mikið til en ég fann hvað ég var þér mikilsverð og hvað þú unnir mér heitt, það var svo gott að vera elskuð eins og þú sýndir mér alltaf!

Þú vissir hversu mikilvægur þú varst okkur svo þú barðist eins og þú gast fyrir okkur, alveg fram á síðasta dag. Því uppgjöf var eitthvað sem ekki var til í orðabókinni þinni. Þú gerðir eins vel og þú gast og sýndir okkur hvað vestfirska blóðið þitt var sterkt. Þú þurftir alltaf lítið en gafst mikið, menn eins og þú, elsku afi, eru afar vandfundnir.

Á sama tíma og sorgin kemur finn ég um leið fyrir svo miklu þakklæti að þú hafir fengið svefninn góða. Að þú finnir ekki lengur til. Að þú þurfir ekki að berjast lengur. Að þú getir nú notið með öllu fólkinu þínu sem þér þótti svo vænt um. Við munum hugsa um ömmu á meðan fyrir þig þangað til þið sameinist aftur. Megi guð sálu þína nú geyma og græða mín djúpu sár. Þó þú sért kominn yfir í aðra heima mun minning þín lifa um ókomin ár. Þig verndi og gæti allir englar góðir.

Þitt bros og blíðlyndi lifir

og bjarma á sporin slær,

það vermir kvöldgöngu veginn,

þú varst okkur stjarna skær.

Þitt hús var sem helgur staður,

hvar hamingjan vonir ól.

Þín ástúð til okkar streymdi

sem ylur frá bjartri sól.

Við þökkum þá ástúð alla,

sem okkur þú njóta lést,

í sorgum og sólarleysi

það sást jafnan allra best.

Þín milda og fagra minning

sem morgunbjart sólskin er.

Þá kallið til okkar kemur,

við komum á eftir þér.

(F.A.)

Í mínu hjarta allt þetta geymi, þú bestur varst í heimi.

Ástarþakkir, elsku afi, veit að við munum hittast aftur á ný.

Þín

Margrét Ruth.

Elsku besti afi, þú varst svo blíður og góður við okkur. Þú varst ávallt svo forvitinn um okkur og hafðir alltaf svo mikinn áhuga á því sem við vorum að gera. Það var svo notalegt að koma til þín og ömmu. Þið vilduð alltaf að við fengjum okkur eitthvert gotterí sem okkur þótti nú alls ekki leiðinlegt og nýttum við okkur það og fengum okkur oftast ís, kexkökur og djús í könnunni.

Að eiga vin er vandmeðfarið

að eiga vin er dýrmæt gjöf.

Vin sem hlustar, huggar, styður,

hughreystir og gefur von.

Vin sem biður bænir þínar,

brosandi þér gefur ráð.

Eflir þig í hversdagsleika

til að drýgja nýja dáð.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Takk afi fyrir allt sem þú hefur gefið og kennt okkur. Takk fyrir allar ljúfu stundirnar sem við áttum saman. Við munum sakna þín mjög mikið. En við vitum að núna ertu orðinn engill sem mun vaka yfir okkur.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl fá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín barnabarnabörn,

Ísold Emma og Rafael Bjarni.

Ein mætasta setning bandarísku skáldkonunnar Mayu Angelou hljóðar svo:

„Ég hef komist að því að fólk gleymir því sem þú sagðir, fólk gleymir því sem þú gerðir en fólk gleymir því aldrei hvernig þú lést því líða.“

Og á heimili Estherar og Bjarna, sem nú er fallinn frá, leið mér alltaf vel. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Bjarna, því þegar ég hugsa til hans þá hefur hann sýnt mér hvað það þýðir að vera manneskja sem hugar að nærumhverfi sínu. Gefur af sér. Ljær fólki tíma sinn. Ræktar garðinn sinn. Ekki til þess að hreykja sér yfir fegurð garðsins, heldur til þess að hann megi blómstra. Ég minnist hans í Giljalandinu að þrífa bílinn sinn, að hvíla sig á sófanum eftir grjónagraut eða lummur sem Esther hafði framreitt. En síðast en ekki síst þá minnist ég brossins og hlýjunnar sem mætti mér í hvert skipti sem ég kom heim til þeirra, þar sem hann lét mann finna að hér væri ég velkomin.

Elsku Esther, kæra fjölskylda, missir ykkar er mikill. Ég votta ykkur samúð mína.

Ég veit að ef hann gæti, þá myndi hann hringja í hvert ykkar í kvöld, líkt og ég veit að hann gerði svo oft í Önnu Maríu, pabba eða systkini mín. Á milli ykkar liggur lína sem slitnar aldrei. En hefur nú færst frá landi til himins.

Kristína Aðalsteinsdóttir.