Sigurður Ingibergur Björnsson
Sigurður Ingibergur Björnsson
Hörður Vilberg hordur@mbl.is Það heyrir brátt sögunni til að fólk greiði fyrir liðskiptaaðgerðir úr eigin vasa. Þá munu ferðir í aðgerðir til Svíþjóðar leggjast af þar sem það er dýrara fyrir ríkið en að semja við innlenda aðila. Framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, Sigurður Ingibergur Björnsson, fagnar því að Sjúkratryggingar Íslands hafi boðið út liðskiptaaðgerðir til einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja en greint var frá niðurstöðum útboðsins í vikunni.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Það heyrir brátt sögunni til að fólk greiði fyrir liðskiptaaðgerðir úr eigin vasa. Þá munu ferðir í aðgerðir til Svíþjóðar leggjast af þar sem það er dýrara fyrir ríkið en að semja við innlenda aðila. Framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, Sigurður Ingibergur Björnsson, fagnar því að Sjúkratryggingar Íslands hafi boðið út liðskiptaaðgerðir til einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja en greint var frá niðurstöðum útboðsins í vikunni.

Fyrirtækið hefur bætt við sig bæklunarlækni og mun geta gert 9-12 aðgerðir á dag. Sigurður segir að Klíníkin geti gert fleiri aðgerðir ef meiri fjármunir fást. „Þetta er hlutur sem Klíníkin er búin að berjast fyrir síðan 2017 þegar við byrjuðum að gera þessar aðgerðir en við höfum gert á annað þúsund liðskiptaaðgerða frá þeim tíma sem sjúklingarnir hafa þurft að greiða sjálfir.“

Klíníkin kemur samkvæmt niðurstöðu útboðs Sjúkratrygginga til með að gera 300 aðgerðir á mjöðmum og hnjám til áramóta en Cosan 400 aðgerðir. Sigurður segir Klíníkina bjóða samkeppnishæft verð. „Í báðum flokkum buðum við 1.215 þúsund fyrir hverja aðgerð, sem er sama verð og við höfum haft síðustu sjö ár, en á Landspítalanum kosta þessar aðgerðir um tvær milljónir. Hérna erum við með fullkomna legudeild og höfum sýnt fram á mjög góðan árangur.“

Mikilvæg viðbót

Sigurður lítur ekki svo á að einkareknu fyrirtækin séu komin í samkeppni við opinbera heilbrigðiskerfið.

„Það er mjög mikilvægt að það dragi ekki úr afköstum opinbera heilbrigðiskerfisins sem hefur verið að sinna þessum aðgerðum.“ Hann segist vona að aðgerðum á Landspítalanum fækki ekki. „Það má ekki gerast. Þarna voru boðnar út 700 aðgerðir en það eru um 2.000 manns að bíða. Fólk sem er kvalið og óvinnufært er ómögulegt.“

Sigurður telur að heilbrigðiskerfið þurfi að ná þeim afköstum, að gerðar verði 2.500 liðskiptaaðgerðir á ári. „Þeir sem hafa verið að sinna þessum aðgerðum til þessa verða að framkvæma jafnmargar aðgerðir og þeir hafa mest gert áður.“ Hann telur þetta aðeins fyrsta skrefið til að ná tökum á vandanum og bendir á að fólki sem helst þurfi á aðgerðunum að halda, 65 ára og eldri, muni fjölga um 30% til ársins 2030.

„Sjúklingarnir eru loksins að fá þann rétt sem þeir eiga samkvæmt lögum finnst mér. Það er skynsamlegt að drífa fólk í aðgerð um leið og það þarf á því að halda. Kostnaðurinn við að láta fólk bíða í tvö ár er svo hár fyrir þjóðfélagið, miklu meiri en aðgerðarkostnaðurinn. Þeir fjármunir sem eru settar í þetta átak nú munu skila sér hratt og örugglega aftur í ríkiskassann, því þegar fólk endurheimtir heilsuna verður það aftur virkir þátttakendur í atvinnulífinu, sem skilar sér í hærri skatttekjum fyrir ríkið. Það má því segja að þetta borgi fyrir sig sjálft, fyrir utan það koma í veg fyrir óþarfa þjáningu, fjárhagsáhyggjur og varanlegt heilsutjón þeirra sem þurfa á þessum aðgerðum að halda.“

Sigurður segir að heilbrigðisráðherra hafi með þessu tekið mikilvægt skref í þá átt að koma í veg fyrir að hér myndist tvöfalt heilbrigðiskerfi. „Nú munu einkaaðilar gera þetta fyrir ríkið og við getum gert þetta á mjög hagkvæman hátt.“

Höf.: Hörður Vilberg