[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Jóhannes Nordal fæddist í Reykjavík 11. maí 1924. Hann lést í Reykjavík 5. mars 2023.

Foreldrar Jóhannesar voru þau Ólöf Jónsdóttir Nordal húsmóðir, f. 20. desember 1896, d. 18. mars 1973, og Sigurður Nordal prófessor, f. 14. september 1886, d. 21. september 1974. Foreldrar Ólafar voru þau Sigríður Hjaltadóttir Thorberg, 1860-1950, og Jón Jensson, yfirdómari og alþingismaður, 1855-1915. Foreldrar Sigurðar voru Jósefína Björg Sigurðardóttir húsfreyja, 1865-1942, og Jóhannes Nordal íshússtjóri, 1850-1946. Systkin: Bera, f. 15. mars 1923, d. 10. október 1927, og Jón, skólastjóri og tónskáld, f. 6. mars 1926. Maki Solveig Jónsdóttir, f. 1932-2012, og eru börn þeirra Hjálmur, Ólöf og Sigurður.

Jóhannes kvæntist Dóru Guðjónsdóttur Nordal píanóleikara hinn 19. desember 1953 í Kaupmannahöfn. Foreldrar hennar voru Marta Magnúsdóttir húsmóðir, 1900-1990, og Guðjón Ó. Guðjónsson, prentari og bókaútgefandi, 1901-1992. Dóra og Jóhannes eignuðust sex börn. Þau eru: 1) Bera safnstjóri, búsett í Svíþjóð, f. 25. september 1954. Ekkja eftir Lennart Persson. Maki af fyrra hjónabandi er Sigurður Ármann Snævarr. Börn þeirra eru: Jóhannes rannsóknarlögreglumaður, f. 1982, og Ásdís Nordal lögfræðingur, f. 1984. Maki Gunnar Sigurðsson verkfræðingur. Börn þeirra, Bera, f. 2013, Gunnar Ármann, f. 2015, og Sigurður, f. 2020. 2) Sigurður markaðsfræðingur, búsettur í Kanada, f. 19. febrúar 1956. Maki Snæbjörg Jónsdóttir. Börn þeirra eru: Dóra, f. 1993, maki Eli David Toews, Anna, f. 1996, og Guðjón Ólafur, f. 1997. Maki af fyrra hjónabandi Ragnheiður Ásta Þórisdóttir. Sonur þeirra er Jóhannes, f. 1988. 3) Guðrún, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, f. 27. september 1960. Maki Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt. Dóttir þeirra er Kristín, f. 2000. Maki Óttar Magnús Karlsson. Barn þeirra Ögmundur, f. 2022. 4) Salvör, umboðsmaður barna og prófessor við Háskóla Íslands, f. 21. nóvember 1962. Maki af fyrra hjónabandi er Eggert Pálsson. Synir þeirra eru: Páll, f. 1997, og Jóhannes, f. 2002. 5) Ólöf, lögfræðingur, MBA og fv. ráðherra, f. 3. desember 1966, d. 8. febrúar 2017. Maki Tómas Már Sigurðsson forstjóri. Börn þeirra eru: Sigurður hagfræðingur, f. 1991, Jóhannes lögfræðingur, f. 1994, maki Lísbet Sigurðardóttir lögfræðingur, barn þeirra: Ólöf, f. 2021, Herdís, f. 1996, og Dóra, f. 2004. 6) Marta, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, f. 12. mars 1970. Maki Kristján Garðarsson arkitekt. Börn þeirra eru: Hjördís, f. 2007, og Sigurður, f. 2009. Sonur Kristjáns af fyrra hjónabandi er Garðar, f. 1995.

Jóhannes varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1943. Hann lauk doktorsprófi frá London School of Economics árið 1953 og eftir nokkurra ára störf hjá Landsbankanum, þar sem hann var ráðinn bankastjóri 1959, var hann skipaður seðlabankastjóri við stofnun bankans árið 1961. Hann varð formaður bankastjórnar Seðlabankans 1964 og starfaði þar uns hann hvarf úr bankanum að eigin ósk árið 1993. Hann var stjórnarformaður Landsvirkjunar við stofnun hennar 1965 og gegndi því starfi til ársins 1995 á mesta uppbyggingarskeiði hennar. Jóhannes gegndi ótal trúnaðarstörfum á starfsævinni. Hann var formaður Húsnæðismálastofnunar 1955-57, stóriðjunefndar 1961-68, Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) 1961-65 og Hagfræðingafélags Íslands 1961-63. Jóhannes sat í kjaradómi 1962-73. Hann var formaður stjórnar Iðnþróunarsjóðs frá 1970 og viðræðunefndar um orkufrekan iðnað frá 1971-78. Hann var í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs frá 1976, formaður endurskoðunarnefndar lífeyriskerfis 1976- 87, samninganefndar um stóriðju frá 1983 og var fulltrúi Íslands í sjóðsráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 1964 og var formaður í auðlindanefndar árið 2000. Auk viðamikillar þátttöku í efnahagslífi og atvinnuuppbyggingu á liðinni öld lét hann jafnframt mikið til sín taka á vettvangi vísinda, fræða og menningar. Hann var formaður hugvísindadeildar Vísindasjóðs 1958-87 og stjórnar Vísindaráðs 1987-1994. Hann var ritstjóri Fjármálatíðinda og Nýs Helgafells og var forseti Fornritafélagsins frá árinu 1969. Hann sat í bókmenntaráði Almenna bókafélagsins frá 1955. Honum var veitt heiðursdoktorsnafnbót við félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1988 og við viðskipta- og hagfræðideild árið 1989. Árið 1994 kom út bókin Málsefni, sem var safn ritgerða hans, í tilefni af sjötugsafmæli Jóhannesar. Í fyrra komu út endurminningar hans, Lifað með öldinni, sem hann skráði með aðstoð Péturs Hrafns Árnasonar.

Útför Jóhannesar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 17. mars 2023, klukkan 16.

Góðvinur genginn

Jóhannes Nordal var ekki aðeins holdgervingur Seðlabanka Íslands um áratugaskeið og þar með mestur áhrifavaldur um íslensk efnahagsmál. Hann var hvarvetna kallaður þar til sem úrlausnarefnin þóttu flóknust, viðurhlutamest eða viðkvæmust. Lengi fór hann fyrir stjórn Landsvirkjunar og viðræðunefndar um orkufrekan iðnað. Þekkingu hans, lagni og lipurð var viðbrugðið og naut hann óskoraðs traust, jafnt hinna íslensku yfirvalda sem viðsemjendanna. Afköst hans þóttu með nokkrum ólíkindum, en þó gaf allt hans fas og framganga til kynna að ekkert lægi á og hann hefði endalausan tíma til að ræða mál í þaula við alla þá sem eftir því óskuðu. Og það gerðu margir, því Jóhannesi var einkar lagið að setja flókin mál fram með skýrum og skiljanlegum hætti. Hann þurfti ekki, eins og verr gefnum mönnum hættir til, að fela sig á bak við stagl eða froðusnakk fræðisetninga. Ritstörf hans voru víðfeðm og endurspegluðu ólík áhugasvið Jóhannesar, þótt hans daglegu viðfangsefni hafi gert miklar kröfur. Bókmennta- og listaáhugi var runninn Jóhannesi í merg og bein. Hann veitti þannig Bókmenntaráði Almenna bókafélagsins lengi forystu og enn lengur var hann í forsæti Hins íslenska fornritafélags. Jóhannes Nordal kaus að hverfa úr sæti sínu í Seðlabankanum nokkru fyrr en þurfti og sat ekki auðum höndum síðar. Eftir erfiðar deilur um sjávarútveg og önnur auðlindamál varð að ráði að mynda hóp manna til að greiða úr flækjum og leita sáttagrundvallar og leitast við að draga úr þeirri stjórnlausu heift sem einkennt hafði alla umræðu of lengi. Að tillögu minni varð sátt um að óska eftir því við Jóhannes að hann legði á þetta djúp og hefði um það alla forystu. Þótti mér ekki ólíklegt að hann myndi biðjast undan því, svo lengi og þrálát hafði sundrungin verið. Eftir nokkra umhugsun ákvað hann að hella sér í verkefnið og komu margir þarfir menn að verki með honum. Á engan er þó hallað þótt fullyrt sé að varla hefði nokkur annar leitt og lokið svo vandasömu verkefni á viðunandi tíma.

Jóhannes Nordal var aðlaðandi maður og viðfelldinn, rembingslaus, fróður og skemmtilegur. Naut hann alla tíð vinsælda víða, án þess að kalla eftir þeim. Þrátt fyrir ríkulega mannkosti, eða kannski vegna þeirra, fékk hann sinn skammt af hnjóðsyrðum um dagana, en þó miklu minni en ætla mætti að yrði, vegna starfa hans um áratugaskeið. Sjálfur var hann umtalsfrómur og velviljaður og lagði ekki illt til nokkurs að fyrra bragði, svo að ég heyrði. Mér sýndi hann alla tíð allt að því föðurlega hlýju frá því að við kynntumst fyrir rúmum fjórum áratugum. Við Ástríður eigum einkar góðar minningar um ótal samverustundir með Jóhannesi og Dóru konu hans, sem var skemmtileg, skoðanaföst og sköruleg, listræn og frjó, og við hugsum með þakklæti og hlýju til hennar og hans sem við kveðjum nú, eins ágætasta Íslendings samtímans. Biðjum við þeim báðum Guðs blessunar.

Davíð Oddsson

Það er gömul saga og ný að í samskiptum tengdafólks vega væntingar og vonbrigði stundum salt á móti öllu því góða sem jafnan er hnýtt úr slíkum tryggðaböndum.

Við Jóhannes vorum engin undantekning í þeim efnum. Honum gat endrum og eins fundist nóg um glannalegar skoðanir tengdasonarins og hvatti til hófsemdar í orðum og varfærni í yfirlýsingum – við misjafnar undirtektir. Þar réð án efa umhyggja ferðinni; kalt mat á því hvað væri ungum manni farsælast fremur en tilraun til endurstillingar, því hann taldi meðal sinna bestu vina einstaklinga sem pökkuðu ekki skoðunum sínum í neinn skrautpappír og létu ýmislegt vaða ef sá gállinn var á þeim.

Fyrsti fundur okkar gaf tóninn og segir nokkuð um báða; eftir fullkominn mislestur á aðstæðum lét gesturinn móðan mása um allt milli himins og jarðar, hjó menn og málefni á báða bóga og bauð fram patentlausnir á helstu viðfangsefnum samtímans. Við þessa flugeldasýningu mátti í fyrstu greina einhvers konar vantrú í svip heimilisföðurins sem breyttist þó fljótlega í hreina undrun á þessu eintaki sem mætt var inn á gólf til hans. Svo tók við vel útfærð þögn – samskiptatól sem hann hafði mótað og slípað af fullkomnun – uns hann sagði sallarólegur: viltu annars ekki fara upp og ræða þetta við hana Dóru?

Þegar á hólminn var komið fundum við Jóhannes þó fljótlega okkar jafnvægispunkt, á bylgjulengd sem hentaði báðum í hálfan fjórða áratug. Hann hafði einlægan áhuga á því sem maður var að glíma við dagsdaglega; forvitinn án afskipta. Hann var mér í senn fyrirmynd og ráðgáta sem reis stærstur frammi fyrir þeim forlögum sem fádæma viljastyrkur hans fékk engu um þokað.

Í hversdegi minnar litlu fjölskyldu gerði hann hvorki tilkall til athygli né rýmis en var þó yfir um og allt í kring – og fyrir það verð ég honum ávallt þakklátur.

Ögmundur

Skarphéðinsson.

Jóhannesar Nordal verður minnst fyrir margt. Hann var einn áhrifamesti embættismaður þjóðarinnar á síðustu öld. Í nýútkominni bók hans, Lifað með öldinni, má glöggt greina að áhrif hans, áhugi og ástríða náði langt út fyrir svið efnahags- og orkumála. Jóhannes lifði og leiddi mörg hin mestu framfaramál og kom furðu miklu í verk. En hans verður ekki minnst fyrir þá sögu hér heldur fyrir það hvernig hann var sem faðir konunnar minnar, afi barnanna okkar og tengdafaðir. Á þessum tímamótum hrannast minningarnar upp. Frá þeim tíma sem liðinn er síðan þau hjónin tóku fyrst á móti mér á heimili sínu, rúmlega tvítugum verkfræðinemanum. Jóhannes og allt hans fólk hafði mikil áhrif á mig og mína fjölskyldu. Til þess hugsa ég með þakklæti.

Ekki ætla ég að segja að hann hafi komið hlaupandi með útbreiddan faðminn þegar ég var fyrst kynntur. En eftir drjúgt spjall við borðstofuborðið var ég sendur fram í eldhús að hita te. Það þótti Ólöfu góð teikn. Við þetta borðstofuborð átti ég eftir að fá mikla skólun og drekka mikið te. Þar mætti gjarnan stórfjölskyldan um helgar eða hátíðir. Tekist var á um næstum öll mál undir sólinni. Aldrei skorti skoðanir. Og þá var eins gott að hafa sig ekki í frammi nema maður hefði kynnt sér málin og safnað góðum rökum. Ekki það að því væri tekið illa ef maður væri annaðhvort ósammála eða illa að sér. Maður fékk bara einfaldlega miklu meira út úr þessum stundum ef maður lagði eitthvað ígrundað til málanna. Það gerði hann alltaf.

Á þessum fyrstu árum okkar Ólafar var hann uppteknasti maður Íslands. En hann fann alltaf tíma fyrir sitt fólk. Eitt vorið var Ólöf illa haldin af því hvað henni þótti lögfræðin leiðinleg. Við vorum á rölti um bæinn að ræða þetta þegar ég uppgötvaði að hún var búin að teyma mig fyrir framan Seðlabankann og ætlaði upp að hitta pabba. Þegar hún ákvað eitthvað var betra að hjálpa því að gerast en að streitast á móti. Hún var lík honum með það. Þegar inn var komið lét hann Ágústu, ritara sinn, ryðja dagskrána og sat með okkur drjúgan dagpart til að fara yfir málin. Spjallinu lauk án beinnar niðurstöðu en Ólöf stóð upp vitandi að hann myndi styðja hennar ákvörðun sama hver hún yrði. Þannig var það alltaf. Alla tíð bar hann fyrst og fremst hag sinna fyrir brjósti og var einkar stoltur af sínum ættboga. Sem hann mátti vera.

Eftir að hann hætti að vinna ferðuðumst við talsvert með þeim hjónum um landið. Þegar leið að sumri völdum við okkur landshluta, leigðum bústað, fórum í dagtúra og sóttum gjarnan einhverja héraðshöfðingja heim. Þetta voru skemmtilegar ferðir þar sem Jóhannes naut náttúrunnar og varði tíma með krökkunum. Það gerði hann svo sannarlega líka í veiðinni. Jóhannes og Dóra veiddu af ástríðu. Hann var einhver besti fluguveiðimaður sem ég hef séð. Strax á fyrsta sumri var ég dreginn upp í Svarthöfða og látinn fylgjast með. Ekki byrjaði það gæfulega en eftir þrotlausar ferðir þangað, norður í Aðaldal og víðar tókst að smita mig af dellunni og aðra fjölskyldumeðlimi. Í veiðinni var eins og um flest, auðvelt að leita til hans um góð ráð, – án þess að hann væri að ota þeim að manni óumbeðið.

Ólöf líktist föður sínum um margt. Þau voru náin. Bæði gengu í gegnum erfiða sjúkdóma og tóku því af sömu ró og sama æðruleysi. Þegar Ólöf veiktist vörðu þau dýrmætum tíma saman. Sátu saman og lásu, upphátt eða í hljóði, og ræddu það sem kom upp í hugann. Tókust á við veikindin eins og hvert annað verkefni. Í þeirra nálgun fólst einhver heimspeki sem smitaði út frá sér og hjálpaði þeirra nánustu. Einmitt hvernig hann tókst á við sín veikindi, og allt annað sem beið hans eftir að hinni formlegu starfsævi lauk, var einkar lærdómsríkt. Það var greinilegt að hann upplifði lífið sem mörg skeið og hann gæti lært eitthvað nýtt á hverju einasta skeiði og við hverja raun. Hann var forvitinn, stöðugt lesandi og las um allt. Við minnumst hans með þakklæti. Umkringdan bókum og blöðum. Grúskandi í ljóðum, lesandi um málefni líðandi stundar hvaðan að úr heiminum, hamrandi á tölvuna eitthvað gamalt eða nýtt. Sífellt að reyna á hugann. Ég vona að mér auðnist að taka það mér til fyrirmyndar.

Tómas Már Sigurðsson.

Samverustundir með afa einkenndust ávallt af ást, hlýju og einlægum áhuga hans á að fylgjast með afkomendum sínum vaxa og dafna. Þó alltaf væri hægt að ræða þjóðmálin vildi hann öllu frekar heyra frá okkar lífi, verkefnum og áskorunum, og ekki síst hvað við værum að lesa.

Sérstakan áhuga hafði afi á veiðiferðum okkar systkinanna og allt fram á síðasta sumar var hægt að hringja í hann þegar illa áraði og leita góðra ráða sem þó oft og tíðum reyndust erfiðari í framkvæmd. Besta ráðið í hvassviðri var að lengja bara í línunni, sem er ekki eins auðvelt og það hljómar.

Allar okkar minningar um afa eru frá því að hann settist í helgan stein en hann var langt í frá hættur að láta málefni líðandi stundar sig varða. Til síðasta dags þöktu staflar af dagblöðum, tímaritum og bókum skrifborð hans við hverja heimsókn og skipti ekki máli hvort umræðuefnin voru snjallsímar, verðbólga eða íþróttir; hann hafði alltaf vel ígrundaða, upplýsta og fræðandi sýn á viðfangsefnið sem gaman var að ræða. Þessi eilífðarforvitni og vinnusemi var okkur mikil fyrirmynd.

Afi talaði aldrei um sjálfan sig að fyrra bragði og því hefur verið okkur systkinunum afar dýrmætt að lesa gömul ritverk hans og nú nýútgefnar endurminningar. Í þeim skín í gegn einstök ástríða hans fyrir velsæld þjóðarinnar sem smitaðist til okkar í gegnum mömmu, sem deildi sömu gildum og hann.

Þótt söknuðurinn verði mikill gleðjumst við yfir þeirri löngu og viðburðaríku ævi sem hann lifði og að gott fólk taki nú við honum opnum örmum.

Dóra, Herdís, Jóhannes og Sigurður Tómasarbörn.

Í fáeinum línum langar mig til þess að minnast Jóhannesar föðurbróður míns sem nú er genginn eftir langa og merkilega ævi. Augljóslega er það bíræfni að ætla sér að fjalla um slíkan mann í fáum orðum enda spannar nýútkomin bók um lífskeið hans vel á áttunda hundrað blaðsíðna. Var þar þó einungis stiklað á stóru.

Aðrir eru betur fallnir til þess að fjalla um ævi og feril frænda míns svo ég ætla að halda mig við persónu hans og lyndisfar. Enda voru þeir meðfæddu eiginleikar, ásamt góðum gáfum, að líkindum meginástæðan fyrir einstökum trúnaði og virðingu sem hann naut.

Ég held ég hafi það frá móður minni, orðið sem ég tengi alltaf við frænda. Jóhannes hafði „pondus“. Persónuleiki hans einkenndist bæði af vigt og áru sem fól í sér traust og óumdeilda forystu. Það var þungi í Jóhannesi en um leið mildi og jafnvel glettni.

Sú staðreynd hve víða Jóhannes markaði spor í samtíð sinni ber einnig vott um ástríðu og forvitni, eiginleika sem eru hvatar árangurs og áhrifa. Eins og gjarnan á við um ástríðumenn var hann fastur fyrir og vildi að hlutirnir gengju eftir sínu höfði. Sannfæring hans um hvað væri fyrir bestu réði för.

Innan við tvö ár eru á milli Jóhannesar og Jóns föður míns. Systur sína, Beru, sem var ári eldri en Jóhannes misstu þeir þegar hún var á fimmta ári. Báðir glímdu þeir bræður við veikindi á yngri árum og vafalaust hafa þeir ungir ekki ímyndað sér að þeir kæmu til með að eiga hvor annan að nánast í heila öld. Á milli þeirra var taug sem þeir tveir einir þekkja.

Óafvitandi leitar maður í frændgarðinn þegar kemur að fyrirmyndum í lífinu. Ýmislegt í fari Jóhannesar frænda hef ég efalaust reynt að tileinka mér án þess að átta mig á því sjálfur. Virðing samferðamanna er eftirsóknarverð en meiru skiptir þó sá kærleikur sem frændi minn ávann sér hjá sínu fólki. Afkomendum Jóhannesar og fjölskyldum þeirra votta ég samúð mína á þessari stundu.

Sigurður Nordal.

Í hinu einstæða ritverki Lifað með öldinni er ítarlega rakin ævisaga valdsmanns í hagstjórninni, ráðgjafa ríkisstjórna og foringja í orkumálum og stóriðju.

Á kveðjustundu ber þjóðinni þó líka að þakka brautryðjanda nýrra fræða. Jóhannes varð fyrstur Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í félagsfræði, grein sem þá var flestum framandi. Rannsakaði félagslegan hreyfanleika, hvernig nútíminn breytti aldagömlu samfélagi. Ungur fékk ég ritgerðina að láni frá háskólasafni London School of Economics og kynntist í lestrarsal lærdómsseturs í Manchester óvæntri hlið á hinum þjóðfræga bankastjóra.

Nokkru síðar réðu virtir prófessorar í stjórnmálafræði frá Bandaríkjunum og Evrópu, Robert Dahl og Stein Rokkan í fararbroddi, þennan unga Íslending við Háskólann í Manchester í liðssveitina sem hóf að rannsaka í fyrsta sinn lýðræðið í smærri ríkjum Evrópu. Þótti samt vissara að hafa reyndari mann honum til ráðgjafar. Höfðu upp á doktornum frá LSE til að veita fræðilegt aðhald. Seðlabankastjórinn tók því fagnandi að komast aftur á vettvang hinna nýju fræða. Því sat ég í nokkur misseri með Jóhannes og Sigurði Líndal á rökstólum, ræddum framkvæmd fyrstu íslensku rannsóknarinnar í stjórnmálafræði.

Svo liðu fáein ár. Við Þorbjörn, báðir vel innan við þrítugt, vorum ráðnir til að kenna við nýja braut þjóðfélagsfræða í Háskóla Íslands. Fljótlega vantaði sárlega prófdómara til að fara yfir lokaritgerðir stúdenta. Jóhannes samþykkti ljúfmannlega beiðnina og var um árabil prófdómari í félagsfræði. Gaf sér tíma frá önnum í hagstjórninni og átakalotum við ríkisstjórn til að meta ritgerðir róttækra stúdenta.

Áratugum síðar, á fundum í stjórn Landsvirkjunar og á samráðsvettvangi fjármálaráðherra og Seðlabanka, varð mér oft hugsað til brautryðjandans í þjóðfélagsfræðum, hvernig hinn mikli valdsmaður lýðveldisins bjó áfram að hugarfari doktorsnemans frá LSE; ávallt reiðubúinn að halda á nýjar lendur þekkingar og fræða.

Ólafur Ragnar Grímsson.

Jóhannes Nordal var áhrifamesti embættismaður Íslands á síðari hluta tuttugustu aldar. Hann var skipaður seðlabankastjóri við stofnun bankans árið 1961, þá aðeins 37 ára gamall. Meira en nokkur annar mótaði hann Seðlabanka Íslands sem stofnun. Stjórn bankans var þó aðeins eitt fjölmargra viðfangsefna hans. Eftir hann liggja margir óbrotgjarnir minnisvarðar í íslensku samfélagi – hvort sem litið til hagrænna málefna eða menningar – líkt og kemur vel fram í ævisögu hans „Lifað með öldinni“ sem góðu heilli kom út fyrir síðustu jól. Áhrif hans stöfuðu þó ekki nema að hluta frá stöðu hans sem seðlabankastjóri heldur mun frekar frá persónu hans og mikilli þekkingu á efnahags- og þjóðmálum. „Vitsmunir“, „hófsemi“ og „góðvild“ eru orð sem samferðarmenn hans hafa valið til að lýsa honum í mín eyru. „Lagni“, „lipurð“ og „traust“ eru einnig orð sem ég hef heyrt. Þessir góðu eiginleikar gerðu Jóhannes að helsta ráðgjafa allra ríkisstjórna í vel á fjórða áratug – sama hvaða flokkar voru við völd. Hann var ávallt rödd skynseminnar – sem því miður var ekki alltaf hlustað á.

Í sjálfu sér eru viðfangsefni Seðlabankans í meginatriðum þau sömu nú og áður, sömu stefin í þjóðfélagsumræðunni hvort sem hagkerfið hitnar eða kólnar, og deilt er um kaup og kjör. Allir seðlabankastjórar hljóta að þurfa að nýta sem best þau spil sem þeir hafa á hendi hverju sinni. Skýr skilaboð í ævisögu Jóhannesar eru hve bagalegur skorturinn á sjálfstæði var fyrir Seðlabankann í bankastjóratíð hans. Engum blöðum er um það að fletta að margt hefði betur farið í íslensku efnahagslífi ef Jóhannes hefði stýrt sjálfstæðum seðlabanka með fullt vald til þess að beita stýritækjum hans. Sjálfur sagði hann í grein í Fjármálatíðindum 1990: „Verulegt sjálfstæði seðlabanka í stjórn peningamála er varla raunhæfur kostur, nema þau efnahagslegu markmið, sem honum ber að keppa að, séu skýrt skilgreind í lögum og njóti almenns stuðnings í viðkomandi samfélagi.“ Um þetta verður tæpast deilt. Það er enda svo að seðlabankar geta aldrei starfað í samfélagslegu tómarúmi.

Fyrir mig hefur Jóhannes verið bæði fyrirmynd og viðmið í starfi mínu í Seðlabankanum þótt aldarfjórðungur sé á milli embættistíða okkar. Kynni mín af honum, sérstaklega eftir að ég varð seðlabankastjóri, gefa mér tilefni til þess að taka heils hugar undir hið mikla álit sem Jóhannes naut meðal samferðamanna sinna. Ég er þakklátur fyrir þær stundir sem ég náði að eiga með honum. Ég hef einnig fengið að kynnast hinni samhentu fjölskyldu Jóhannesar – dætrum hans og tengdasonum. Hann var farsæll í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur.

Fyrir hönd Seðlabanka Íslands þakka ég Jóhannesi Nordal þann grunn sem hann lagði að árangursríku starfi bankans og fyrir þá styrku og farsælu forystu sem hann veitti bankanum í yfir þrjátíu ár. Ég þakka einnig þá vináttu sem hann sýndi bankanum eftir að hann lét af störfum til hinsta dags.

Blessuð sé minning Jóhannesar Nordal.

Ásgeir Jónsson.

Jóhannes Nordal var merkur maður. Nýlega útkomin bók hans vitnar um áhrif hans og þátttöku á margvíslegum sviðum íslensks þjóðlífs á liðinni öld sem ekki verður frekar rakið hér. Hann var virtur af samferðamönnum hér heima en ekki síður erlendis, þar á meðal af forsvarsmönnum annarra seðlabanka auk erlendra og alþjóðlegra fjármálastofnana sem hann átti samskipti við fyrir hönd Seðlabankans og Íslands. Hvarvetna naut hann virðingar. Þegar Jóhannes sótti síðasta fund sinn í stjórnarnefnd Alþjóðagjaldeyrisjóðsins vorið 1993 samþykkti nefndin sérstakar þakkir til hans fyrir þátttöku hans og tryggð við starf nefndarinnar. Þetta var afar óvenjulegt en endurspeglaði virðingu nefndarinnar og forsvarsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Jóhannesi og eindregnum stuðningi hans við fjölþjóðlegt samstarf í áratugi.

Ég var svo lánsamur að starfa undir stjórn Jóhannesar og njóta leiðsagnar hans á aðalstarfsvettvangi hans í Seðlabanka Íslands. Eðli máls samkvæmt voru samskipti okkar fremur lítil á fyrstu árum mínum í bankanum en jukust með tímanum og hann varð á endanum næsti yfirmaður minn í allnokkur ár. Gott var að vinna undir stjórn hans. Samskiptin við hann voru ævinlega ánægjuleg og gefandi. Hann var mjög fljótur að setja sig inn í mál sem kröfðust úrlausnar hans eða afstöðu, var réttsýnn og sanngjarn auk þess að vera fróður um allt milli himins og jarðar. Reynslan af því að starfa undir handleiðslu hans var mér afar dýrmæt í störfum mínum bæði þá og síðar. Ég bjó að henni alla tíð og geri enn.

Einlæg vinátta Jóhannesar var mér einnig mikils virði. Vinahót sem hann sýndi mér og okkur hjónum eftir að ég lét af störfum í bankanum 2009 þótti okkur sérstaklega vænt um. Við Margrét minnumst hans með mikilli virðingu og þakklæti og vottum afkomendum hans og fjölskyldum þeirra einlæga samúð.

Ingimundur Friðriksson.

Fyrstu kynni mín af Jóhannesi urðu þegar ég var skipaður varamaður hans í stjórn norræna iðnþróunarsjóðsins fyrir nær fjörutíu árum. Sjálfur hafði hann komið að stofnun sjóðsins í aðdraganda aðildar Íslands að EFTA. Sú aðild var mikið gæfuspor fyrir þjóðina og forsenda þess að Íslendingar gátu síðar tekið þátt í Evrópska efnahagssvæðinu. Sjóðurinn var myndaður með vaxtalausum framlögum frá norrænu ríkjunum og skyldu þau endurgreidd innan 25 ára. Með þessari ráðstöfun var íslenskum iðnfyrirtækjum auðvelduð aðlögun að afnámi hafta og verndartolla, sem innleiddir voru á fjórða áratug aldarinnar. Öll norrænu ríkin áttu fulltrúa í stjórninni. Í hlutverki sínu sem formaður sýndi Jóhannes þá heillandi framkomu, sem hann var þekktur fyrir þegar rækta þurfti sambönd við málsmetandi erlenda samstarfsmenn. Hann eignaðist þannig á mörgum sviðum fjölda vina og kunningja, sem hægt var að leita til, þegar Ísland þurfti á að halda.

Samstarf okkar og samskipti urðu meiri þegar ég varð iðnaðarráðherra seint á níunda áratugnum og síðar fjármálaráðherra á þeim tíunda. Iðnaðarráðuneytið og Landsvirkjun, þar sem Jóhannes var stjórnarformaður, stofnuðu t.d. sameiginlega markaðsskrifstofu (MIL) til að efla leit að hentugum erlendum samstarfsaðilum í orkunýtingu með ágætum árangri. Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn unnu að umbótum á lánamálum ríkisins. Þar á meðal má nefna þær tímamótaumbætur að í stað þess að vextir ríkisskuldabréfa væru ákveðnir í ríkisstjórn að tillögu fjármálaráðherra var bréfunum fleytt á markað og vextir ákvarðaðir með þeim hætti. Margir höfðu efast um að þetta væri hægt hér á landi en annað kom í ljós. Eftir að ég varð forstjóri Landsvirkjunar í upphafi árs 1999 gat ég alltaf leitað ráða hjá Jóhannesi, sem hafði verið stjórnarformaður fyrirtækisins frá stofnun í 40 ár.

Um það leyti sem Jóhannes lét af störfum sem seðlabankastjóri árið 1993 eftir 32 ár bauð hann mér með sér í réttarferð norður í Vatnsdal. Ég þáði það umsvifalaust. Með í för var vinur Jóhannesar, Hallgrímur Guðjónsson frá Hvammi í Vatnsdal. Hvammur er næsti bær við Eyjólfsstaði, þar sem Sigurður faðir Jóhannesar var fæddur og upp alinn og þar hafði Jóhannes verið í sveit í tvö sumur. Aksturinn var í öruggum höndum Karls Gústafs Smiths. Þetta var skemmtileg ævintýraferð, sem ekki verður lýst í einstökum atriðum hér. Á leiðinni norður glugguðum við í Föðurtún Páls G. Kolka, komum við í Valdarásrétt og þáðum velgjörðir hjá Jóhannesi föðurbróður mínum og Ingibjörgu konu hans á Auðunarstöðum í Víðidal. Þegar komið var í Undirfellsrétt sá ég hvernig lifnaði yfir Jóhannesi og ég skynjaði hve sterka tengingu hann hafði við dalinn fagra og fólkið sem þar bjó. Um kvöldið sátum við glæsilega veislu hjá Vigdísi og Gísla á Hofi og síðan héldum við í Blönduvirkjun, þar sem við áttum náttstað. Þessa minningu og margar aðrar um Jóhannes mun ég geyma um ókomin ár.

Ég kveð Jóhannes Nordal með virðingu og þökk fyrir samstarfið, ráðgjöfina og umfram allt vináttuna í gegnum tíðina.

Friðrik Sophusson.

Jóhannes Nordal er einn mætasti maður sem ég hef starfað fyrir. Virðing mín fyrir honum jókst við hvern fund frá því ég falaðist fyrst eftir vinnu í Seðlabankanum sumarið 1977 þar til ég hitti hann í síðasta sinn í útgáfuhófi hans á liðnu hausti. Af fáum hef ég lært eins mikið og Jóhannesi. Hann var kröfuharður en réttsýnn húsbóndi, hlýr í viðmóti og umtalsfrómur, mikilvirkur hvar sem hann kom að verki. Eftir að ég hætti í bankanum 1983 og fór inn á vettvang stjórnmála var gott að geta stöku sinnum leitað ráða hjá Jóhannesi um ýmis mál. Síðast áttum við mikilvægt samtal í október 2008 þegar forystumenn þjóðarinnar börðust fyrir efnahagslegu lífi hennar og sjálfstæði. Þá drukkum við saman te á Laugarásveginum eitt sunnudagssíðdegi fyrir milligöngu Ólafar dóttur hans. Gekk ég brattari af þeim fundi en til hans.

Kynni okkar Jóhannesar urðu fyrst náin þegar hann bað mig að vera ritari í svonefndri olíuviðskiptanefnd á árunum 1979 – '80. Henni var falið að kanna hvort möguleikar væru á hagstæðari olíuinnkaupum fyrir þjóðina en þá tíðkuðust í viðskiptum við Sovétríkin. Stjórnmálaflokkarnir tilnefndu þungavigtarmenn í nefndina en Svavar Gestsson viðskiptaráðherra leitaði til Jóhannesar um að taka að sér formennsku. Það var viturleg ráðstöfun því Jóhannes hafði þannig sambönd í hinum alþjóðlega banka- og viðskiptaheimi að unnt var að fá fundi með nánast hverjum sem var í nálægum löndum til að ræða þessi mál. Sótti ég alla þá fundi ýmist með nefndinni allri eða Jóhannesi einum og var það mér sem ungum manni afar lærdómsríkt. Hann var hvarvetna á heimavelli og gat rætt af þekkingu um nánast hvað sem var við hvern sem var. Í krafti vitsmuna sinna hafa slíkir menn stundum verið kallaðir „renaissance“-menn eftir forkólfum endurreisnarhreyfingar miðalda. Ég hafði þó oft áður veitt þessum hæfileikum Jóhannesar athygli er ég var viðstaddur samtöl hans við áhrifamenn og kollega í hinum alþjóðlega heimi banka og viðskipta. Ekki fór fram hjá neinum hve vel hann var að sér um menningu og listir og hvernig hann ávaxtaði þann ríkulega arf er hann hlaut í foreldrahúsum.

Eins og endurminningarbók Jóhannesar ber með sér hafði hann ótrúlega yfirsýn yfir íslenskt samfélag og þróun efnahagsmála á 20. öld. Þar var hann sjálfur virkur þátttakandi í meira en hálfa öld. Bókin er í senn stórfróðleg hagsaga og saga hans sjálfs í þeim margvíslegu verkefnum sem á hann hlóðust. Ég varð vitni að því oftar en einu sinni hve laginn hann var í samskiptum við aðra, ekki síður þá sem voru honum ósammála um stór og mikilvæg mál. Það er eftirtektarvert að oft urðu helstu gagnrýnendur hans góðir kunningjar, jafnvel vinir, þegar þeir settust síðar í valdastóla og ábyrgð þeirra jókst. Þá breyttist tortryggni í traust.

Þegar Jóhannes Nordal er kvaddur eftir langa og farsæla ævi sér Ísland á bak einum sinna bestu sona. Það voru forréttindi að kynnast Jóhannesi persónulega og í starfi. Ég er þakklátur fyrir þau kynni. Við Inga Jóna sendum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Geir H. Haarde

Þau orð falla gjarnan um bókina Veröld sem var eftir Stefan Zweig að hún sé líklega besta endurminningabók 20. aldarinnar. Zweig birtir lesendum sínum ljóslifandi lýsingar á einstaklingum sem nú eru hlutgengir í mannkynssöguna og lýsir horfnum tíðaranda á snilldarlegan hátt.

Þó að of snemmt sé að fullyrða nokkuð um það sem merkilegast kann að þykja, þegar fram líða stundir, í bók Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, sem hann birti 98 ára að aldri síðastliðið haust, er víst að hún verður talin með merkustu og traustustu endurminningabókum Íslendings um 20. öldina. Verður ekki framvegis skrifað um íslensk stjórnmál, efnahagsmál og stórstígar framfarir í atvinnumálum á öldinni án þess að litið sé til bókar Jóhannesar.

Tuttugu ára aldursmunur var á okkur Jóhannesi en leiðir okkar lágu þó víða saman. Eins og hann lýsir á einlægan og sannan hátt var hann trúnaðarmaður föður míns við bróðurmissi hans og viðkvæmar ákvarðanir sem þá þurfti að taka að vel ígrunduðu máli. Ólst ég upp við virðingu fyrir Jóhannesi.

Síðar átti ég oft eftir að kynnast því að þeir sem ábyrgð báru á stjórn landsins og úrlausn vandasamra málefna á fjölbreyttum sviðum fóru í smiðju til Jóhannesar áður en mikilvæg ákvörðun var tekin.

Ástæðan var augljós. Jóhannes lét málefnið ráða. Hann bjó sig vel undir allt sem að honum og ábyrgð hans laut. Ætti hann ekki svar þegar um var spurt, lá það fyrir rökstutt á næsta fundi.

Jóhannes kom heim með doktorspróf frá London School of Economics árið 1953 og hóf næsta ár störf í hagfræðideild Landsbankans með „fastmótaða sannfæringu fyrir því að frjáls markaðsbúskapur ásamt öflugum almannatryggingum og opnun hagkerfisins fyrir erlendri samkeppni væri farsælasta leið Íslendinga til frambúðar“, eins og hann segir í bók sinni.

Hann vann að framgangi málefna þjóðarinnar í þessum anda í 40 ár. Áhrifa skoðana hans gætti í sívaxandi mæli. Embættisferli hans sem seðlabankastjóra lauk árið 1993 og hafði hann þá gegnt embættinu frá 1961. Hann var stjórnarformaður Landsvirkjunar frá 1965 til 1995. Kom það í hans hlut að móta bankann og orkufyrirtækið frá fyrsta degi. Í báðum tilvikum býr lengi að fyrstu gerð.

Á viðreisnartíma sjöunda áratugarins átti Jóhannes aðild að lykilákvörðunum um íslenskt efnahags- og atvinnulíf og umbyltingu þjóðlífsins í heild þegar það var opnað fyrir erlendri samkeppni með aðild að EFTA. Með góðum rökum, málafylgju og lagni var skref fyrir skref gengið til þess frjálsræðis sem nú er talið sjálfsagt og fest var í sessi með EES-samningnum.

Við ritun bókar sinnar hlýtur Jóhannes oft að hafa glaðst yfir árangrinum af sannfæringu hans um gildi þess að opna íslenska þjóðarbúið fyrir erlendri samkeppni. Þá varði hann kröftum sínum ekki síður til að styrkja menningarlega innviði samfélagsins. Opið samfélag krefst sterkra menningarstoða.

Jóhannes er í mínum huga einn glæsilegasti fulltrúi veraldar sem var.

Blessuð sé minning Jóhannesar Nordal.

Björn Bjarnason.

Á löngum og gifturíkum starfsferli var Jóhannes Nordal mikill atkvæðamaður á mörgum sviðum íslensks samfélags. Þar ber auðvitað fyrst að nefna forystu hans fyrir Seðlabanka Íslands í meira en aldarþriðjung og mótandi áhrif á hagstjórn á Íslandi allan þann tíma og lengur þó. Auk forystu í banka- og efnahagsmálum voru Jóhannesi falin mörg önnur vandasöm verkefni, m.a. stjórnarformennska í Landsvirkjun.

Ritsmíðar Jóhannesar eru jafnfjölbreytilegar og víðfeðmar og störf hans og áhugamál, en auðvitað eru dagleg viðfangsefni hans þar fyrirferðarmest. Hann var stofnandi Fjármálatíðinda – sem Landsbankinn gaf upphaflega út, en Seðlabankinn síðar – og ritstjóri þeirra í fjóra áratugi. Enginn einn höfundur lagði því merka riti til meira efni en Jóhannes. Þar fjallaði Jóhannes um efnahagsvanda líðandi stundar með ljósum og skiljanlegum orðum. Greinar hans voru oft eins og gluggi til umheimsins – til þess sem var á döfinni í alþjóðaefnahagsmálum hverju sinn. Þessi sýn út á við var afar mikilvæg og oft skýrari en verður í síbylju síðari ára.

Þegar ég kom heim að loknu námi í Stokkhólmi 1964 réðst ég til starfa hjá Efnahagsstofnun. Fljótlega var ég kvaddur fyrir stjórn hennar til þess að gera grein fyrir verkefnum sem mér voru falin. Jóhannes sat þá í stjórninni fyrir hönd Seðlabankans. Það var mér sem ungum manni mikil reynsla –lærdómsrík og ánægjuleg – að kynnast á þessum vettvangi nokkrum helstu hagfræðingum landsins sem reyndust menn hógværir, einlægir og tillögugóðir. Þetta átti ekki síst við um Jóhannes og síðar kynntist ég enn betur rökvísi, vandvirkni og vinnusemi hans. Jóhannes var slyngur samningamaður. Hann var þægilegur í viðmóti, maður kurteis, umtalsfrómur, fróður og viðræðugóður. Lagni hans, lipurð og þekkingu á samningsefni hverju sinni var við brugðið. Hann ávann sér ávallt fyllsta traust bæði umbjóðenda sinna og viðsemjenda. Jóhannesi var einkar lagið að setja jafnvel hin flóknustu mál fram á einfaldan og skiljanlegan hátt því að hann var maður orðvís. Hann var mikilvirkur án þess að fara sér óðslega. Ritsmíðar hans – oftast unnar við hlið mikilla embættisanna – eru miklar bæði að vöxtum og gæðum. Hann var maður sem gott var að eiga að þegar að kreppti, því hann hafði rósemi hugans þegar úr vöndu var að ráða.

Jóhannes setti svip á íslenskt samfélag á öldinni sem leið. Hann bjó yfir þeim eðliskostum sem best mega prýða hvern forystumann: vitsmunum, hófsemi og góðvild. Það var mikils virði fyrir Íslendinga að eiga hann sem táknmynd Seðlabanka Íslands í samskiptum á alþjóðavettvangi í meira en þrjá áratugi því hann naut hvarvetna virðingar.

Eftir að Jóhannes hvarf úr Seðlabankanum sat hann ekki auðum höndum. Meðal annars átti hann um síðustu aldamót stóran hlut að tilraun til sáttagerðar í deilum um sjávarútveg og náttúruauðlindir og gjald fyrir afnot af þeim.

Hann hafði forgöngu um menningarlega bókaútgáfu, ekki síst sem forseti Hins íslenzka fornritafélags í hálfa öld. Það var honum líkt að ljúka á sínu síðasta æviári ritun sjálfsævisögu sinnar sem er mikil bók að allri gerð.

Framlag hans til íslensks samfélags verður seint fullþakkað.

Ég var svo lánsamur að vera náinn samverkamaður Jóhannesar um áratugaskeið og vil að leiðarlokum þakka honum góð kynni og vináttu.

Við Laufey vottum fjölskyldu Jóhannesar innilega samúð.

Jón Sigurðsson.

Kynni mín af Jóhannesi Nordal voru ekki mikil, en ætíð ánægjuleg. Þegar ég stundaði nám á Pembroke-garði í Oxford árin 1981–1985, var ég þar R.G. Collingwood-verðlaunahafi, snæddi þrisvar í viku við háborðið með kennurunum og mátti taka með mér gest. Ég bauð Jóhannesi einu sinni þangað, þegar hann átti leið um, og áttum við skemmtilegar samræður. Við vorum báðir aðdáendur breskrar stjórnmálahefðar. Vorið 1986 bað tímaritið Mannlíf mig að skrifa svipmynd af Jóhannesi í tilefni sextugsafmælis hans, en vildi síðan ekki birta hana, því að ritstjóranum þótti hún of vinsamleg honum, og var hún prentuð í Morgunblaðinu 11. maí. Jóhannes var þá eins og oft áður umdeildur, enda ekki fyrir neðan öfundina.

Ég lagði það til nýkominn frá námi, að Íslendingar hættu að nota krónuna og tækju upp Bandaríkjadal. Jóhannes gerði gilda athugasemd: Væru Íslendingar reiðubúnir að gangast undir þann aga, sem fælist í því að taka upp erlendan gjaldmiðil, þá ættu þeir að vera reiðubúnir að gangast undir slíkan aga án þess að þurfa að taka upp erlendan gjaldmiðil. Verður Jóhannesi seint kennt um það, þótt hann væri lengi seðlabankastjóri, að við Íslendingar höfum iðulega notað krónuna til að losna úr þeirri klípu, sem eyðsla umfram efni hefur komið okkur í.

Þegar ég gerði um aldamótin nokkra samtalsþætti undir heitinu „Maður er nefndur“, var einn hinn fróðlegasti við Jóhannes, en hann var tekinn upp, skömmu áður en hann missti röddina vegna sjúkdóms í talfærum. Viðmælandi minn sagði þar meðal annars frá föður sínum, Sigurði Nordal prófessor, og heimspekingunum Bertrand Russell og Karli R. Popper, sem höfðu haft mikil áhrif á hann, á meðan hann stundaði háskólanám í Bretlandi. Kom þar berlega í ljós, hversu vel Jóhannes fylgdist með og dómar hans um menn og málefni voru ígrundaðir. Þátturinn var á dagskrá 20. febrúar 2001.

Eftir að ég hafði gefið út ævisögu Halldórs Laxness í þremur bindum árin 2003–2005 og sætt fyrir ámæli ýmissa, sem töldu mig vera að ryðjast inn á svið öðrum ætlað, skrifaði Jóhannes mér upp úr þurru langt bréf og hældi mér óspart fyrir bókina, en gagnrýndi að sama skapi aðra, sem skrifað höfðu um skáldið. Mér þótti vænt um stuðninginn og bauð honum til kvöldverðar heima hjá mér ásamt vinum mínum Davíð Oddssyni, Jónasi H. Haralz og Þór Whitehead, og urðu þar fjörugar umræður um bókmenntir og sögu Íslendinga, og dró enginn af sér. Var Jóhannes þó mildastur í dómum. Þegar háskólamaður einn, sem einnig hafði haft nokkur afskipti af stjórnmálum, barst í tal, sagði hann aðeins: „Já, hann hefur aldrei skrifað djúpan texta.“

Jóhannes var umfram allt frjálslyndur, þjóðrækinn umbótasinni, sáttfús (jafnvel ef til vill stundum sáttfús um of) og góðgjarn. Um hann má hafa minningarorð, sem faðir hans Sigurður hafði sett saman um fyrsta háskólarektorinn:

Falla hinar öldnu eikur, —

ófullt skarð til tveggja handa, —

rótafastar, fagurkrýndar,

friðarmerki skógarlanda.

Úfnar af þjósti og úlfaþyti

eftir birkirenglur standa.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Nánast allir landsmenn sem komnir eru til vits og ára vita deili á Jóhannesi Nordal, svo mjög sem ævi hans og störf tengdust íslensku þjóðlífi um áratugaskeið. Þekktust er vitaskuld aðkoma hans að efnahagsmálum og framkvæmdum á sviði orkumála, en áhugi hans beindist einnig í ríkum mæli að íslenskri bókmenningu og menningarmálum almennt.

Ég kynntist Jóhannesi ekki persónulega fyrr en hann var kominn vel yfir miðjan aldur, og segja má að þau kynni hafi tengst báðum þeim þáttum sem hér voru nefndir, þ.e. verklegum framkvæmdum og hinum bóklega menningararfi.

Jóhannes gekk til liðs við byggingarnefnd Þjóðarbókhlöðu árið 1986. Undirbúningur þeirrar byggingar hófst um 1970 og fyrsta skóflustunga var tekin 1978. Vegna vanfjármögnunar drógust framkvæmdir mjög á langinn, og verður sú saga ekki rakin hér. Ríkisstjórnin sem við tók 1991 einsetti sér að ljúka við bygginguna á kjörtímabilinu, en menntamálaráðherra var þá Ólafur G. Einarsson. Þetta gekk eftir, og 1. desember 1994 hóf hin nýja stofnun, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, starfsemi sína í húsinu. Jóhannes hafði þá verið skipaður formaður stjórnar stofnunarinnar, og því hlutverki gegndi hann fram eftir ári 2002.

Mér féll samstarfið við Jóhannes afar vel frá fyrsta degi til hins síðasta, svo reyndur og ráðhollur sem hann var og háttvís í öllum samskiptum. Á árunum eftir að samstarfi okkar lauk hittumst við öðru hverju á mannamótum, en síðan dró úr því eins og gengur. Svo gerist hið óvænta síðastliðið haust, að út kemur eftir hann hnausþykk bók, Lifað með öldinni, mikilvægur aldarspegill, þægilegur texti aflestrar og með öllu tilgerðarlaus. Ég er þakklátur fyrir þau endurnýjuðu kynni er fólust í þessari bók, sem og samvinnuna fyrr á árum. Veri hinn aldraði höfðingi Jóhannes Nordal kært kvaddur.

Einar Sigurðsson,
fv. landsbókavörður.

Jóhannes Nordal gegndi stóru hlutverki í hagstjórn á seinni hluta síðustu aldar. Eftir að ég hóf störf í Seðlabankanum 1980 varð mér ljóst að mikill árangur hans byggði ekki einungis á vinnusemi, rökvísi og þekkingu á viðgangsefnum, heldur ekki síður á miklum samskiptahæfileikum. Það var gefandi að eiga við hann samtöl.

Það má með sanni segja að Jóhannes hafi lifað tímana tvenna sem seðlabankastjóri. Þar ber hæst umbætur viðreisnarstjórnarinnar, einn mesta samdrátt eftirstríðsáranna þegar síldin hvarf, langvarandi glímu við óhóflega verðbólgu, umbætur í fjármálakerfinu og í lokin betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Viðvarandi há verðbólga á oftast rætur að rekja til slakrar peningastefnu. Seðlabankinn bar þó í tíð Jóhannesar ekki meginábyrgð á verðbólgunni því hann hafði ekki tæki sem dugðu og gat beitt án samþykkis ríkisstjórnar. Það átti eftir að breytast og hafði hann þar forystu til loka ferils síns. Á níunda áratugnum var komið á verðtryggingu fjárskuldbindinga og vaxtafrelsi sem batt enda á neikvæða raunvexti sem voru helsta orsök verðbólgunnar. Það ásamt raunhæfu gengi skapaði skilyrði fyrir þjóðarsáttinni 1990 sem innsiglaði umskiptin í lága verðbólgu.

Síðustu umbætur í peningamálum sem Jóhannes stóð að tengdust losun fjármagnshafta vegna væntanlegrar aðildar að EES. Þær styrktu virkni peningastefnunnar við nýjar aðstæður og fólust m.a. í uppbyggingu millibankamarkaðar fyrir gjaldeyri og lokun yfirdráttarheimildar ríkissjóðs í Seðlabankanum. Í stórum dráttum er þetta það kerfi sem framkvæmd peningastefnunnar byggist enn á. Það var spennandi og gefandi að vinna að þessum viðfangsefnum undir hans stjórn.

Það var gott að eiga Jóhannes að í seðlabankastjóratíð minni. Við höfðum hist við ýmis tækifæri eftir að hann lét af störfum en það varð minna meðan ég var í Alþjóðagreiðslubankanum í Basel. Ég minnist þó 50 ára afmælisráðstefnu Fjármálatíðinda þar sem Jóhannes var heiðraður. Einnig minnist ég þess að Jóhannes spurði mig þegar við hittumst i Seðlabankanum skömmu fyrir bankahrun hvernig hægt væri að láta eins og ekkert væri varðandi tuga prósenta viðskiptahalla og hristi höfuðið. Þetta sýndi hversu vel hann var með á nótunum. Eftir að ég kom aftur heim urðu samskipti okkar nánari. Hann var duglegur að sækja viðburði bankans. Ég sendi hann árið 2010 á minningarathöfn um fyrrverandi bankastjóra Englandsbanka. Þegar hann gekk inn stóð upp hálf kirkjan. Það var eitt af mörgu sem bar mér vitni um þá virðingu hann hafði á sínum tíma notið á alþjóðavettvangi. Á 50 ára afmælishátíð Seðlabankans var svo tilkynnt um stofnun menningarstyrks sem veittur er árlega í nafni hans. Síðast en ekki síst er að minnast ráðstefnu og kvöldverðar í tilefni af 90 ára afmæli hans. Það var tilfinningaþrungin stund og það mátti heyra saumnál detta þegar hann sagði nokkur orð í lokin.

Við Elsa vottum börnum Jóhannesar og fjölskyldum þeirra samúð okkar. Um leið minnist ég mikilfenglegs manns sem var forréttindi að eiga að samstarfsmanni og vini.

Már Guðmundsson.

Hvernig er hægt að gera Jóhannesi Nordal skil í stuttri minningargrein, einstaklingi sem gerði svo margt í hartnær heila öld? Við kynntumst fyrst fyrir fjörutíu árum þegar við tengdumst fjölskylduböndum. Allir þekktu þá Jóhannes Nordal enda reglulega í fréttatímum og þá oft boðberi válegra tíðinda. Ekki var örgrannt um að mér þætti yfirþyrmandi að standa frammi fyrir honum í fjölskylduboði, en sú tilfinning hvarf fljótt. Jóhannes heilsaði hlýlega, með þéttu handartaki og augnaráði sem var í senn glettið og hlýlegt. Einhvern veginn kom til tals að ég hefði nýlega rennt í fyrsta sinn fyrir lax og hlustaði hann, þaulvanur veiðimaður, af mikilli athygli á lýsingu mína líkt og um merkt nýnæmi í dægradvöl væri að ræða.

Fyrir rúmum áratug leitaði Salvör Nordal til mín um hvort ég væri til í að liðsinna föður sínum við að rita endurminningar. Hvort ég var! Fyrir fræðimann í íslenskri samtímasögu mætti líkja því við að þeim sem væri að rannsaka Sturlungaöld byðist samstarf með Snorra Sturlusyni. Um átta ára skeið hittumst við einu sinni til tvisvar í viku og sátum saman við skriftir. Jóhannes var háaldraður en gat rifjað upp eftir minni löngu liðna tíma, greint aðal- og aukaatriði og rakið sögu sína og samfélagsins. Jóhannes var áhugamaður um enska ævisagnahefð þar sem sannarlega tíðkast að ritin geti verið í lengri kantinum en hin skýra, línulega frásögn er engu að síður í öndvegi, stíllinn agaður og æsingalaus.

Jóhannes þurfti hins vegar ekki meðvitað að styðjast við slík fordæmi, hann var með öllu laus við sjálfsupphafningu. Lítið dæmi: Greint er í bókinni frá aðild Jóhannesar að áformum um að reisa olíuhreinsunarstöð á Íslandi. Ekkert varð úr þeim en mér fannst sagan áhugaverður vitnisburður um hagsmunaárekstra í efnahagslífinu. Jóhannes var hins vegar efins um að þetta ætti heima í bókinni og þegar ég spurði hvers vegna: „Æ, mér finnst þessi kafli virka eins og að ég vilji státa af því að hafa kynnst Onassis.“ Hann hafði þannig kynnst gríska auðkýfingnum í undirbúningnum en Jóhannes fór ekki í manngreinarálit, hvort sem um var að ræða táning að raupa um veiðiskap eða einn ríkasta mann heims.

Þótt Jóhannes væri alla tíð stálminnugur voru ýmsir „kvillar ellinnar“, eins og hann kemst að orði í bókinni, farnir að hrjá hann. Í ljósi þess, auk heimsfaraldurs og andláts nákominna, dáðist ég að einbeittum vilja til að klára verkið. Er það von mín – og trú – að bókin Lifað með öldinni beri ofangreindum mannkostum Jóhannesar vitni.

Jóhannes Nordal var hins vegar ekki bara einstakur viskubrunnur og heimild um liðna tíma, hann var líka sannur vinur. Ef ég hafði t.d. greint honum frá veikindum í fjölskyldu minni hóf hann hvern fund á að spyrjast fyrir um líðan viðkomandi, og vildi ekki hefja störf fyrr en ég hafði gefið greinargóð svör. Er það bjargföst trú mín að hann hafi ætíð verið mannlegt akkeri fyrir lífsins fley, hvort sem var innan fjölskyldu, meðal vina eða í starfi. Þetta var Jóhannes Nordal, sá vinur sem ég mun sakna sárt.

Pétur Hrafn Árnason.

Jóhannes hefur verið hluti af mínu lífi síðan ég var barn. Þau Dóra og foreldrar mínir voru vinir í orðsins bestu merkingu. Pabbi og Jóhannes voru af sama meiði og mátu hvor annan að verðleikum. Dóra og mamma, sem áttu sama afmælisdag, voru báðar næmar, listfengar og skapandi, vel menntaðir og frábærir píanistar þótt enginn fengi að njóta þess nema heimilisfólkið. Á báðum bæjum voru Marta, Ólöf og Guðrún, - og ókjör af bókum. Báðir fengu þeir Jóhannes og pabbi krabbamein í hálsinn og misstu nær röddina. Einhvern veginn voru tengslin á milli þessara fjölskyldna sérstök og okkur krökkunum, krakkaskaranum, fannst við vera skyld, næstum því systkin.

Jóhannes fylgdist vel með okkur eftir að pabbi féll frá. Hringdi af engu tilefni, kom við á gönguferðum sínum, spilaði lomber við Friðrik og Ólöfu. En lagði líka mun meira á sig þegar mikið lá við. Hann var kominn hátt á níræðisaldur þegar þau Salvör klifu snarbratta og illfæra brekku við sumarbústað fjölskyldu minnar einn sumardag, þegar ég hafði tekið að mér vandasamt verkefni og Jóhannes hefur vitað sem var, að nú væri gott að spjalla saman.

Ég þarf ekki að útlista kosti þessa einstaka manns. Þeir hljóta að vera öllum ljósir, sem ekki voru of ungir til að verða vitni að hlutverki hans í íslensku þjóðlífi. Jóhannes gerir skýra og hógværa grein fyrir því í bók sinni Lifað með öldinni, sem kom út í haust. Þvílíkt lán að hann skyldi takast það verk á hendur. Auðvitað lauk hann því, sjálfum sér líkur, og gaf okkur einstaka yfirsýn yfir uppvaxtarár íslenska lýðveldisins. Það þarf góðan penna til að skrifa þannig um hagsveiflur, undirbúning virkjana og samningaviðræður úti um allar trissur, að lesandinn hlakki alltaf til að opna bókina – og dragi hana þannig með sér í bakpokanum að hún er orðin snjáð eftir einn lestur. Það má mikið læra af þeirri bók, ekki síst um virðingu Jóhannesar fyrir sjónarmiðum annarra. Hvernig hann ítrekað leitar nýrra lausna til að leysa ágreining.

Engan hef ég þekkt fleiri kostum búinn. En í mínum huga stendur Jóhannes Nordal fyrst og fremst fyrir hlýju. Djúpa og innilega hlýju, væntumþykju og gleði.

Guðrún Pétursdóttir.

Þau hjónin, Jóhannes og Dóra og tengdaforeldrar mínir, Pétur Benediktsson og Marta Thors, voru miklir vinir og stutt var á milli heimila þeirra. Jóhannes kom oft við um helgar og oftar en ekki voru einhverjar af ungum dætrum hans með í för. Ég kynntist Jóhannesi lítillega á þeim tíma og fannst mikið til samtala þeirra Péturs koma, sem snerust ýmist um efnahagsmál, landsins gagn og nauðsynjar eða um bókmenntir, enda báðir miklir bókamenn.

Eftir að Pétur féll frá langt um aldur fram, hafði Jóhannes samband við mig og sagði að ég mætti alltaf leita til hans, ef mig vantaði ráð. Það var vel boðið ungum manni, sem átti eftir að feta sig inn í fiskútflutning landsmanna nokkrum árum síðar. Þessu boði gleymi ég aldrei, enda sett fram í mikilli alvöru.

Ég átti eftir að nýta mér það við erfiða ákvörðun miklu seinna og sú ráðgjöf reyndist mér vel.

Á löngum og farsælum ferli sem bankastjóri Seðlabankans átti Jóhannes vitanlega mikil samskipti við þá sem sáu að stórum hluta um útflutnings landsmanna og þeir fundir voru ávallt mjög faglegir og upplýsandi enda gengisskráning krónunnar á tímum fastgengisstefnunnar gríðarlega vandasamt verk.

Efst í huga mínum þegar ég lit til baka og minnist þessara funda og annarra samskipta við Jóhannes er sá heilsteypti maður sem hann var, fyndinn, hlýr og blátt áfram. Þrátt fyrir öll þau merkilegu verkefni, sem þjóðin trúði honum fyrir örlaði aldrei á hroka eða upphefð. Hann tók þessum störfum sem sjálfsögðum hlut, sem leysa þyrfti af hendi frá degi til dags og hann augljóslega naut þess að gera það með sóma.

Jóhannes var um margt einstakur maður og sendi ég fjölskyldu hans mínar hlýjustu samúðarkveðjur.

Friðrik Pálsson.

Mér er ljúft að minnast Jóhannesar Nordal sem nú hefur kvatt eftir nær 100 ára lífshlaup. Röskur áratugur skildi okkur að í aldri og bakgrunnur okkar var ólíkur jafnt um nám og búsetu. Samskipti okkar urðu hins vegar mikil og margvísleg þau hátt í fimm ár sem ég gegndi starfi iðnaðarráðherra í tveimur ríkisstjórnum frá 1978 til 1983. Áður höfðum við þekkst frá því um 1970 er hann ásamt fleirum greiddi götu mína til Bandaríkjanna til að kynnast þar náttúruverndarstarfi og þjóðgörðum. Um það leyti urðu tímamót hér eins og víðar með stofnun áhugasamtaka um náttúruvernd og styrkingu náttúruverndarráðs sem ég átti þá sæti í um skeið. Þá hófust formleg samskipti orkuyfirvalda og ráðsins, sem var mikil breyting frá áratugnum á undan þegar samið hafði verið við Alusuisse um uppbyggingu álvers í Straumsvík án teljandi mengunarvarna. Auk Búrfellsvirkjunar fyrirhugaði Landsvirkjun risastóra vatnsmiðlun í Þjórsárverum í þágu frekari virkjana í Tungná og Þjórsá. Svo vildi til að ég þekkti vel þetta svæði eftir að hafa verið þar við landmælingar sumarið 1956.

Mjög skorti á stefnu af hálfu stjórnvalda um orkumál og stóriðju upp úr 1970 og verulegur ágreiningur var um hvert halda skyldi, m.a. innan Alþýðubandalagsins. Sá ágreiningur var jafnaður eftir starf sérstakrar nefndar sem gaf úr ritið Íslensk orkustefna 1976. Án hennar hefði Alþýðubandalagið ekki verið fært um að leiða þennan málaflokk í ríkisstjórn 1978 og síðar. Fram að því náði svæði Landsvirkjunar aðeins yfir landið suðvestanvert. Því var breytt með lögum í apríl 1983 og sama heildsöluverði komið á raforku í öllum landshlutum samhliða miklu átaki í húshitun með innlendum orkugjöfum. Um þessa stefnu, sem Jóhannes var ótvírætt fylgjandi, náðist að lokum góð samstaða, einnig á Alþingi.

Síðla árs 1980 sýndu íslensk stjórnvöld fram á bókhaldssvik Alusuisse í verðlagningu á súráli til álversins í Straumsvík, svonefnda „hækkun í hafi“ sem leiddi til lækkunar á raforkuverði samkvæmt samningi. Gerð var í kjölfarið krafa um leiðréttingu og mikla hækkun á raforkuverði. Ég sagði Jóhannesi strax frá málavöxtum og í kjölfarið fóru fram viðræður stjórnvalda og talsmanna auðhringsins, sem ekki báru árangur fyrr en við blasti í gerðardómi að málið gengi Alusuisse í óhag. Þá var af ríkisstjórn sem við tók 1983 samið um tvöföldun á orkuverði Landsvirkjunar til ÍSAL sem gjörbreytti fjárhagsstöðu Landsvirkjunar og viðmiðun um verðlagningu raforku í síðari samningum um orkufrekan iðnað.

Í samstarfi okkar Jóhannesar fólst m.a. að skoða landið og aðstæður á framkvæmdaslóðum Landsvirkjunar syðra og síðar á Austurlandi. Í slíkum ferðum var hann hrókur alls fagnaðar, hlýddi á ólík viðhorf og setti sig sem best inn í aðstæður. Friðun Þjórsárvera 1981, svo langt sem hún náði, sýndi hann skilning og setti sig inn í flókinn undirbúning Blönduvirkjunar og sjónarmið náttúruverndarráðs og heimamanna.

Með nýlegri ævisögu sinni, Lifað með öldinni, hefur Jóhannes reist sér minnisvarða, sem veitir mjög góða innsýn í æviferil hans og samtíð.

Hjörleifur Guttormsson.

Mér er ljúft að minnast Jóhannesar Nordal með nokkrum orðum nú þegar hann er lagður til hinstu hvíldar og flytja kveðjur og þakklæti frá Hinu íslenska fornritafélagi. Í ævisögu sinni Lifað með öldinni (2022) segir Jóhannes að það megi segja að hann hafi alist upp með félaginu: „Það var stofnað 1928 þegar ég var fjögurra ára gamall, og öll mín uppvaxtarár voru störf fyrir Fornritafélagið meðal helstu viðfangsefna föður míns sem var fyrsti útgáfustjóri þess“ (bls. 510).

Saga Fornritafélagsins verður ekki rakin án þess að þeir feðgar komi víða við sögu. Sigurður gaf Egils sögu út fyrir 90 árum, en þar var lagður sá grundvöllur að efnistökum og fyrirkomulagi sem byggt hefur verið á allt til þessa dags. Útgáfan hefur frá upphafi uppfyllt ströngustu kröfur um fræðileg vinnubrögð en um leið verið handhæg hinum almenna lesanda.

Útgáfunni var vel tekið fyrstu árin en síðan harðnaði á dalnum, og árið 1969 var leitað til Jóhannesar og hann kjörinn forseti félagsins. Næstu ár fóru í að byggja félagið upp að nýju og smám saman tókst með skipulögðum aðgerðum að losna við skuldabaggann sem háð hafði starfsemi félagsins. Gamall skólabróðir og vinur Jóhannesar, Jónas Kristjánsson prófessor, kom í stjórnina. Þeir unnu vel saman og beittu kröftum sínum að því að efla útgáfustarfsemi félagsins. Þeir fengu til liðs við sig ungan fræðimann, Þórð Inga Guðjónsson, og varð hann brátt fastráðinn starfsmaður og ritstjóri Íslenzkra fornrita. Samstarf þeirra Jóhannesar var afar farsælt og árangursríkt. Nú hefur heildarútgáfa allra Íslendingasagna og konungasagna litið dagsins ljós, sem og biskupasagna að megninu til. Eddukvæði komu út í tveimur bindum árið 2014, Jómsvíkinga saga 2018 og nú síðast Sturlunga saga í þremur bindum árið 2021.

Við munum sakna Jóhannesar Nordal, stuðnings hans og vináttu. Hann var forseti Hins íslenska fornritafélags í nærri hálfa öld frá 1969-2018 og skilaði því frá sér öflugu og frjóu. Blessuð sé minning hans.

Halldór Blöndal, forseti Hins íslenska fornritafélags.

Fáir menn hafa haft jafn mikil og góð áhrif á lífskjör fólks og Jóhannes Nordal og þar vó þyngst glöggskyggni hans og víðtækt tengslanet ásamt miklum áhuga á að ná árangri. Sá sem þessa grein ritar er meðal þeirra mörgu sem Jóhannes hafði mikil áhrif á bæði beint og óbeint.

Rúmlega tvítugur réðst ég sem sumarstrákur til Seðlabankans. Jóhannes var þá að undirbúa virkjunar- og stóriðjusamninga og var ég svo lánsamur að fá að fást við verkefni þeim tengd. Það teygðist úr ráðningu sumarstráksins fram undir námslok og þarna lærðust vinnubrögð sem reynst hafa gagnlegri en flest annað í lífinu.

Að loknu prófi hafnaði ég þó boði um áframhaldandi vinnu hjá Seðlabanka en þáði boð Vinnuveitenda um að starfa fyrir Kjararannsóknarnefnd sem ætlað var að auðvelda gerð kjarasamninga. Vinnudeilur voru miklar og alvarlegar á þeim tíma. Jóhannes hafði samband og vildi leggja til að peningastefnan og kjarasamningar yrðu tengdir saman. Þessi aðkoma Jóhannesar leysti ekki kjaradeiluna en jók skilning samningsaðila á því hvað peningastefna væri. Hvað væri hægt að gera og hvað ekki. Þessi mál tengjast hvort sem menn vilja það eða ekki.

Ásamt fleirum stofnaði ég fyrirtæki og gerði að atvinnu minni að fást við fjármál. Fór á fund Jóhannesar og kynnti starfsemina. Eitt skemmtilegasta verkefnið kom frá Jóhannesi og varðaði bankastofnun. Líklega hefur hann verið ánægður með vinnuna því seinna kemur hann þeim skilaboðum til mín að staða sé laus í bankakerfinu og hafi ég áhuga skuli ég tala við ráðherra. Ég hafði áhuga en af einhverjum ástæðum gerði ég það ekki.

Seinna varð ég skólastjóri Verslunarskólans.

Þar var byggt nýtt skólahús en þegar búið var að negla niður alla fjármögnun ákvað skólanefnd að flýta framkvæmdum og flutningi skólans um hálft ár. Því vantaði bráðabirgðalán sem bankinn vildi ekki útvega.

Nordal tók á móti mér með þeim orðum að eiginlega mætti hann ekki tala við mig en gerði það fyrst Ágústa hefði bókað mig. Seðlabankinn lánaði ekki fé eins og ég ætti að vita. Ágústa hafði gert grein fyrir erindinu svo ég spurði beint hvernig hann gæti aðstoðað. Þá segir Nordal: Þú ákvaðst að fara í skólamálin. Þau eru líka mikilvæg. Komdu á morgun og þá færðu að vita, ekki hvað, heldur hvort eitthvað verði fyrir þig gert.

Daginn eftir kom niðurstaðan: Ég á ekki og má ekki gera neitt fyrir þig. Farðu á almenna markaðinn.

Þetta er eftirminnilegasta afgreiðsla sem ég hef fengið og Jóhannesi lík. Skýrt talað og ein ráðlegging.

Skólinn gaf út skuldabréf og setti á markað. Ég vissi að skólinn átti marga fjársterka velvildarmenn en kom þó á óvart að einn aðili keypti öll bréfin og að ég komst upp með að prútta vaxtamun niður í næstum ekki neitt. Ekki veit ég enn hver kaupandinn var.

Jóhannes Nordal varð háaldraður. Þeir sem unnu fyrir hann á hans fyrstu áratugum eru ýmist farnir eða mjög komnir til aldurs. Það væri við hæfi að rifja upp þau stórvirki sem hann vann en hér verður að nægja að þakka fyrir ánægjuleg og farsæl kynni.

Það var heiður að mega vinna fyrir Jóhannes Nordal.

Þorvarður Elíasson.

Af og til stíga fram á sjónarsviðið menn sem marka djúp spor í sögu þjóðar sinnar. Jóhannes Nordal var einn af þeim. Jóhannes var holdgervingur tuttugustu aldarinnar í íslensku samfélagi. Hann var ein af driffjöðrunum í vegferð Íslendinga til athafnafrelsis, atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar, þegar horfið var frá kotbúskap og sjálfsþurftarbúskap og grunnur lagður að nútímasamfélagi. Táknrænt er að Jóhannes andaðist skömmu eftir útgáfu endurminninga sinna, Lifað með öldinni, á 99. aldursári.

Jóhannes var áhrifavaldur í peningamálum, sem einn af þremur fyrstu seðlabankastjórum þjóðarinnar og seðlabankastjóri til áratuga. Í orkumálum var hann einnig forystumaður, enda gegndi hann lykilhlutverki við stofnun Landsvirkjunar og í samningaviðræðum sem gerðu hana mögulega. Viðræðurnar voru ekki þrautalausar, en á endanum fékkst skilyrt lánsloforð frá Alþjóðabankanum og í framhaldinu var Landsvirkjun stofnuð og samið við Alusuisse um orkusölu til fyrstu álbræðslunnar á Íslandi.

Jóhannes var skipaður fyrsti stjórnarformaður Landsvirkjunar, en lög um Landsvirkjun voru samþykkt á Alþingi hinn 11. maí 1965, á afmælisdegi Jóhannesar. Með byggingu Búrfellsstöðvar og uppbyggingu sem fylgdi varð Landsvirkjun að því hryggjarstykki raforkukerfisins sem hún er enn í dag. Óvíst er að án forsjálni og einurðar Jóhannesar og annarra sem unnu að stóriðju- og orkumálum hefði þróun raforkumála á Íslandi orðið sú sem raun ber vitni og lífskjör þjóðarinnar tekið stökk inn í nútímann eins og reyndin varð.

Jóhannes var stjórnarformaður Landsvirkjunar í 30 ár, til ársins 1995. Með honum í stjórn frá upphafi sat tengdafaðir minn heitinn, Árni Grétar Finnsson, hæstaréttarlögmaður. Milli þeirra og eiginkvenna, Dóru Guðjónsdóttur og Sigríðar Oliversdóttur heitinna, var traust og góð vinátta. Fyrir utan störf fyrir Landsvirkjun fóru þau saman í veiðiferðir og ferðuðust um landið. Á milli barnanna lágu einnig þræðir. Við Ingibjörg, eiginkona mín, minnumst góðra stunda með Ólöfu heitinni, dóttur Jóhannesar og Dóru, og eiginmanni hennar, Tómasi Má Sigurðssyni, og fleiri kærum vinum.

Ég átti fundi með Jóhannesi, á heimili hans og í húsnæði Landsvirkjunar, þar sem við ræddum um fyrirtækið og tengd mál. Fyrir þau samtöl er ég þakklátur, enda ómetanlegt að heyra viðhorf Jóhannesar og söguna sem hann hafði að segja. Ég hitti Jóhannes síðast í hófi í tilefni af útgáfu endurminninga hans. Sammæltumst við þá um að fá okkur kaffisopa saman fljótlega.

Við sem byggjum þetta harðbýla land hér í norðurhöfum stöndum í þakkarskuld við menn eins og Jóhannes, sem lögðu grunninn að velferð okkar og komandi kynslóða. Hann „lifði“ svo sannarlega með öldinni!

Um leið og ég sendi samúðarkveðjur fyrir hönd Landsvirkjunar, vottum við Ingibjörg Beru, Sigurði, Guðrúnu, Salvöru og Mörtu, og öðrum ættingjum og ástvinum Jóhannesar, innilega samúð.

Blessuð sé minning Jóhannesar Nordal.

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður
Landsvirkjunar.

Mér eru ógleymanleg kynni mín af Jóhannesi Nordal. Síðast hitti ég Jóhannes á liðnu hausti í hófi í tilefni af útgáfu endurminninga hans, Lifað með öldinni. Hún er ómetanleg heimild um breytingar á stjórn efnahagsmála sem hann átti mestan þátt í að færa í nútímahorf ásamt uppbyggingu orkukerfis Íslendinga. Handtakið var þétt með hlýju brosi, sem ég gleymi ekki.

Jóhannes hitti ég fyrst fyrir fjörutíu árum þegar ég var ráðinn til starfa í Seðlabanka Íslands. Vann ég náið með Jóhannesi síðustu starfsár hans og tel mig lánsaman að hafa kynnst slíkum afburðamanni sem hann var. Hann sýndi mér traust með því að fela mér ábyrgðarmikil verkefni. Þegar stundir gáfust voru stundum rædd menningarmál að fornu og nýju. Því var það mér ómetanlegur heiður þegar hann færði mér að gjöf eintak af doktorsritgerð föður síns, prófessors Sigurðar Nordal, Om Olaf den den helliges saga, útgefinni í Kaupmannahöfn 1914, óuppskorið prentsmiðjueintak eins og bókamenn segja, dýrgrip úr hans hendi.

Yfirburðir Jóhannesar Nordal leiddu af sér að hann naut óskoraðs trausts hvarvetna. Þekking hans og dómgreind leiddu af sér miklar umbætur fyrir íslenska þjóð, ekki síst í efnahagslegu tilliti, en einnig sér verka hans stað á menningarlegum vettvangi. Jóhannes var óskoraður forystumaður bankans. Hann hafði tvo bankastjóra sér við hlið og aðstoðarbankastjóra. Bankinn með því öndvegisfólki sem þar starfaði undir forystu Jóhannesar var gott samfélag á þessum árum sem ég naut og vil hér þakka fyrir. Ég kynntist Jóhannesi undir öðrum formerkjum þegar ég gegndi stöðu efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar 1987-88. Yfirvegun og raunsæi Jóhannesar setti þar mark á allar umræður.

Þegar yfirmannsstaða í Seðlabankanum varð laus 1991 ákvað Jóhannes að fela mér starfið. Meðal verkefna var að starfa að erlendum lánamálum ríkissjóðs sem ég þekkti vel til vegna fyrri starfa á þeim vettvangi þegar Sigurgeir Jónsson gegndi stöðunni sem aðstoðarbankastjóri. Meðal fyrstu verkefna á þessu sviði var samningur um bankalán. Jóhannes fylgdist vel með samningaviðræðum við hinn erlenda banka og lagði línur. Þegar viðsemjendur reyndust á einu stigi erfiðir sagði Jóhannes: „Nú væri kannski rétt að taka kúnstpásu.“ Þegar heppilegum samningi hafði verið landað eftir að kúnstpásan skilaði sínu þótti mér sem ég hefði lokið sveinsprófi í fræðunum undir handleiðslu Jóhannesar eftir undirbúning af hálfu Sigurgeirs.

Starfinu í Seðlabankanum fylgdu ýmis ferðalög. Minnist ég þess hve elskuleg þau voru, Jóhannes og Dóra, t.d. í ferðum um langan veg á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Hvar sem Jóhannes fór naut hann virðingar og álits. Hann átti greiðan aðgang að æðstu mönnum og nýtti hann í þágu bankans og hagsmuna þjóðarinnar.

Að leiðarlokum þakka ég Jóhannesi Nordal traust og velvild sem ég naut af hans hendi um áratugaskeið. Börnum hans, fjölskyldum þeirra og ástvinum öllum færi ég innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur Ísleifsson.

Við bjuggum hlið við hlið við Laugarásveginn allan minn uppvöxt og barnaskarinn á báðum heimilum var myndarlegur; sjö á númer 13 þar sem ég var næstyngst og sex á númer 11 þar sem Nordalsfólkið bjó. Það var sterk vinátta á milli barnanna – og við Ólöf, sem var líka næstyngst á sínu heimili, vorum óaðskiljanlegar og töluðum í raun svo mikið saman, og svo hratt, að fólk átti stundum erfitt með að skilja okkur.

Ekki voru samskipti foreldra okkar mikil - kannski skipst á brauðuppskrift, rætt um verðbólguna, eða spurt hvort mætti taka eitt eða tvö börn með í sumarbústaðinn. Og í svona krakkastóði var mikið frelsi og fjör og ekki fylgst grannt með öllu sem okkur datt í hug. Ég held að frelsi okkar sem yngri vorum í hópnum hafi mögulega verið meira en eldri systkinanna. Foreldrar okkar höfðu líka um nóg að hugsa og höfðu alið upp nokkur börn áður en kom að okkur – og líkast til orðið hversdaglegra að stússast með blessuðu börnin. En ímyndunarafl okkar var ekki minna en þeirra sem eldri voru, og uppátækin frumleg og óvenjuleg.

Þannig finnst mér barnæskan hafa verið, mikið frelsi, fáar reglur og ekki endalaus athygli sem beindist að okkur krökkunum. Mér finnst að við höfum stundum verið næstum ósýnileg og þá voru líka öðruvísi tengsl milli barna og fullorðinna en í dag. Maður yrti helst ekki á fullorðinn að fyrra bragði, talaði ekki þegar kveikt var á fréttum og veðri og lét almennt fara lítið fyrir sér.

Þess vegna sitja augnablikin í minninu þegar einhver fullorðinn veitti manni athygli. Og mér finnst Jóhannes, þessi önnum kafni bjargvættur Íslands, einmitt hafa verið einn af þeim fáu fullorðnu sem sáu mann og veittu athygli.

Þegar ég var orðin fullorðin hitti ég Jóhannes í veislum hjá Ólöfu vinkonu og hann var alltaf glaður og áhugasamur um hagi okkar Einars Fals. Mér verður stundum hugsað til þess þegar við heimsóttum hann á Hrafnistu eftir að hann hafði misst bæði dóttur sína og eiginkonu með stuttu millibili. Við rifjuðum upp eitt og annað frá Laugarásveginum en það var ekki liðið langt á spjallið þegar hann fór að velta framtíðinni fyrir sér og segja okkur frá verkefni sem hann var með í bígerð tengt fornsögunum og vantaði myndefni í sem Einar Falur gæti mögulega hjálpað til með. Hann var einhvern veginn alltaf að hugsa fram á veginn - líka þarna kominn á tíræðisaldur!

Með Jóhannesi er síðasta foreldrið fallið frá á þessum tveimur barnmörgu heimilum. Ég minnist uppvaxtarins og þessa tíma á Laugarásveginum í skjóli foreldra okkar með hlýju og væntumþykju.

Ingibjörg Jóhannsdóttir.

Það er erfitt að finna orð til að minnast Jóhannesar Nordal af þeirri virðingu og ástúð sem honum ber og sæmir, slíkt stórmenni sem hann var. Umfram það að lýsa gleði yfir því, hve hann náði háum aldri, og að honum auðnaðist að láta eftir sig ítarlega og fróðlega ævisögu. Það rit ber nafn með rentu, því að ferill hans var lengst af samofinn því sem helst varðaði heill þjóðarinnar á liðinni öld og horft gat til framfara hér á landi.

Ég kynntist Jóhannesi að marki á þeim tímamótum sem störf stóriðjunefndar undir forystu hans höfðu leitt til þess að unnt var að ganga til samninga við álframleiðandann Alusuisse og Alþjóðabankann um virkjun Þjórsár við Búrfell á grundvelli láns frá bankanum og langtíma orkusölu til álvers í eigu fyrirtækisins. Skipaði Jóhann Hafstein ráðherra viðræðunefnd undir forystu Jóhannesar til að annast það verkefni, og var mér falið að starfa sem aðstoðarmaður hennar, ekki síst við væntanlega textagerð á íslensku og ensku, sem var viðræðumálið. Til aðstoðar kom einnig valmennið Charles D. Kyle, lögmaður í New York, sem var þrautreyndur við gerð fjármálasamninga allt frá kreppuárunum eftir 1929. Kyle leit svo á að sér væri ætlað að styðja okkur við samningsgerðina fremur en stjórna henni, enda ættu samningarnir að lúta íslenskum lögum. Sú afstaða hans leiddi til samvinnu eins og best varð á kosið.

Við þessa vinnu, sem lauk um haustið 1966, öðlaðist ég ómetanlega reynslu, sem ég á Jóhannesi að þakka öðrum fremur. Er margs að minnast frá þessu og síðara samstarfi, en mér varð mjög ljóst þegar á fyrsta fundi í Zürich í desember 1964, hve afburða vel hann var fallinn til verka eins og þess að halda á málstað Íslands gagnvart Alusuisse og Alþjóðabankanum, bæði vegna eigin hæfileika og víðtækrar reynslu og þekkingar. Að auki þurfti krafta til þess verkefnis, þar sem vinnan varð samfelld og krefjandi. Má nefna í því tilliti, að þegar drög að lögum um Landsvirkjun voru á lokastigi vorið 1965 völdu fulltrúar bankans dymbilvikuna til að koma og kanna málið til hlítar. Varð skírdagur eini dagurinn sem heimamenn gátu þá um frjálst höfuð strokið.

Við kynnin af Jóhannesi varð mér einnig ljóst, að í fjölskyldu sinni átti hann ómetanlegan stuðning. Við Nanna vottum börnum þeirra Dóru innilega samúð og biðjum þeim og öðrum aðstandendum heilla og blessunar.

Hjörtur Torfason.

Hver var hinn menntaði einvaldur? - Ég hitti Jóhannes Nordal vorið 1956, þegar hann var nýkominn til starfa við Landsbanka Íslands við Austurstræti. Ég gerðist áskrifandi að Fjármálatíðindum Seðlabankans, sem hann ritstýrði. Vorið 1958 fór ég ásamt Hannesi Péturssyni skáldi í Listamannaklúbbinn í Naustinu. Eftir nokkra drykkju þar héldum við Hannes, Helgi úrsmiður Guðmundsson og Þorvaldur Ari Arason lögmaður heim til Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara í Laugarnestanga. Höfðum við með okkur tvær volgar Borgarbílastöðvar-brennivínsflöskur. Sigurjón og Birgitta frú hans reiddu fram mat, en Þorvaldur lögmaður, sem síðar lenti í öngstræti ofbeldisverks, stakk sér til sunds í ískaldan sjóinn - kafloðinn og berrassaður. Skipti það engum togum, að til lands kom þessi vörpulegi sveinn með 20 punda laxfisk, sem frú Birgitta sauð og reiddi fram fyrir hina góðu gesti.

Eftir máltíðina segir Sigurjón við gesti sína: „Sá ykkar sem er fyrstur að finna öskutunnuna hérna fyrir utan má eiga það sem liggur efst í henni.“ Við þremenningarnir þustum til leitar - ég fann tunnuna fyrstur og efst í henni lá gipsmynd Sigurjóns af höfuðmynd Sigurðar Nordal, prófessor, dr. phil, litt.jur. Átti ég þessa höggmynd af þessum andans manni í nokkur ár en gaf Jóhannesi fyrir áeggjan Sigurðar Benediktssonar listuppboðshaldara hana. Var Jóhannes mjög ánægður með gjöfina. Nokkrum árum síðar báðu þeir bræður Jón og Jóhannes mig að meta bókasafn Sigurðar Nordal að Baldursgötu 33 til verðs. Sat ég þar í góðu yfirlæti - aleinn og lauk verkinu á nokkrum vikum. Í kaffitímanum sátu þeir í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, Sigurður Benediktsson, Ludwig Hjálmtýsson framkvæmdastjóri, Hafliði Andrésson skrifstofustjóri, Pétur Guðjónsson kaupsýslumaður, Haukur Heiðar síðar bankamaður, undirritaður, Bogi lögmaður Ingimarsson, og stundum Jóhannes Nordal sem þá var orðinn seðlabankastjóri, og að mínu viti hinn eini og sanni menntaði einvaldur Íslands.

Einhverju sinni heimótti Jóhannes Kjarval stórkúnstner okkur kaffikallana. Sneri hann sér að Jóhannesi bankastjóra og segir dimmum rómi: „Kæri Jóhannes - sonur Sigurðar vinar míns. Ég er að skrifa doktorsritgerð sem á að heita: Áhrif rógsins á gengi íslenzku krónunnar“ ... „Jæja“ stundi Jóhannes og svo er sagan öll.

Jóhannes var mikill gæfumaður í sínu einkalífi. Dóra Guðjónsdóttir kona hans var honum göfug stoð og stytta alla tíð. Þrjá erfingja á hver maður. Mennina, moldina og sálarinnar meðtakara.

Bragi Kristjónsson.

Ég finn það standa upp á mig að koma að nokkrum kveðjuorðum við fráfall Jóhannesar frænda míns Nordal. Þó af æði mörgu væri að taka sem mig varðar persónulega, vil ég hér sérstaklega minnast framtaks hans í þau skipti sem hann hafði frumkvæði að tveimur ættarmótum.

Í fyrra skiptið var það haustið 1988 að við nokkur, flest lítt eða alveg ókunnug, sum okkar af fimmtu kynslóð, vorum óvænt kölluð til fundar út á Ægisíðu að undirlagi Jóhannesar til að standa að samkomu í tilefni af því að tvö hundruð ár voru frá fæðingu ættföðurins, Björns Gunnlaugssonar, spekingsins með barnshjartað; - yfirkennara í Reykjavíkurskóla.

Ættarmót höfðu þá má segja komist í tísku, en niðjar Björns, sem aðeins eru komnir frá Ólöfu dóttur hans, höfðu verið næsta umkomulausir í þeim efnum, ólíkt mörgum íslenskum stórfjölskyldum að eiga sér ekki sameiginlegt ættarsetur í byggðum landsins; - staðbundinn uppruna og þar með samhygð. Úr því tel ég þó að segja megi að hafi þá og með tímanum ræst, altént hvað mig varðar, og hef ég leyft mér að kalla fjölskyldu Björns Reykjavíkurskólafjölskylduna.

Seytján árum seinna, haustið 2005, kallaði Jóhannes okkur nokkur, af þriðju kynslóð í það skiptið, til fundar á Hótel Borg og fékk okkur það verkefni að standa að ættarmóti í tilefni af því að hundrað ár voru þá frá fæðingu Jóns Jenssonar yfirdómara, afa Jóhannesar, en hann var dóttursonur Björns Gunnlaugssonar. Úr þessu varð að mínum dómi mikill og vel heppnaður hittingur, meðal annars söguganga mikil um hinar fornu slóðir í Kvosinni og unhverfi hennar. Nokkru veldur sá sem upphafinu veldur sagði Jóhannes við mig eftir á (orðtakið er: Miklu veldur ... ).

Síðasti hittingur af þessu tagi var svo 6. júlí 2013, en þá var það Bjarni Bragi Jónsson, stórfrændi okkar og sá sem ættræknastur var, og samstarfsmaður Jóhannesar á starfævi þeirra, sem hafði forystu að því að ættargrafreit Reykjavíkurskólafjölskyldunnar í Hólavallakirkugarði yrði gert til góða. Var það í tilefni þess að tvö hundruð ár voru þá frá fæðingu langafa þeirra Jóhannesar, Jens Sigurðssonar, rektors Reykjavíkurskóla og tengdasonar Björns Gunnlaugssonar. Varð þetta einnig með sóma.

Hvað mig varðar minnist ég þess naumast að hafa orðið jafn hverft við og þegar hringt var í mig og mér tilkynnt lát Jóhannesar; manns um tírætt, slíkur hafði hann verið í vitund manns alla tíð; - var þá niðursokkinn í hina nýútkomnu ævisögu hans og stóð hann mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.

Hjalti Þórisson.