Pétur Hafþór Jónsson fæddist í Reykjavík á Patreksmessu 17. mars 1953 og bjó á Grettisgötunni fyrstu árin. „Ég á góðar minningar frá Laufásborg, þar sem fóstran Gyða Ragnarsdóttir lék á gítar og söng með börnunum, en man hvað ég var leiður þegar Gyða hætti. Leikskóli án söngs er nefnilega eins og sundlaug án vatns.“
Þriggja ára gamall fór Pétur Hafþór í óleyfi niður að Tjörn til að skoða fuglana, en fékk lögreglufylgd til baka. „Annars var ég nokkuð spakur. Fyrir skólaskyldualdur var ég fluttur inn í Laugarnes og gekk í Laugalækjarskólann. Bekkjarkennari minn fyrstu árin var Herdís Sveinsdóttir. Mér eru fleiri kennarar minnisstæðir, Inga Þorgeirsdóttir og Jens Kristleifsson meðal annarra. Ég fór í Vatnaskóg á sumrin og fékk að hamast þar í íþróttum og róa út á vatn og lærði að hreyfing og útivera gerir flestum gott. Fimmtán ára fékk ég aftur lögreglufylgd, þegar ég reri með Hilmari Guðmundssyni vini mínum út í Viðey, en af einhverjum ástæðum vorum við handteknir úti á miðju Viðeyjarsundi í bakaleiðinni. Allt endaði það þó vel, hvorugum okkar var stungið í steininn og lögreglan skilaði bæði okkur og bátnum heim. Ég seldi líka Vísi á götum miðbæjarins, sem vissulega hefur breyst síðan þá. Nú sit ég í stjórn íbúasamtaka miðborgarinnar og man tímana tvenna.“
Eftir landsprófsvetur fór Pétur Hafþór í nýstofnaðan Menntaskólann við Tjörnina, sem var útibú frá MR fyrsta árið. „Ég man eftir Einari Magnússyni rektor þéra nemendur kurteislega, en snúa sér svo af miklum áhuga að hurðarhúnum, hjörum og dyrakörmum í Miðbæjarskólanum, þar sem skólinn var til húsa. Svo varð karli litið á vasaúrið og hvarf á augabragði. Ári síðar varð prúðmennið Björn Bjarnason rektor skólans og allt fylltist af ungum kennurum, sem sjálfir höfðu verið í háskóla á tímum stúdentaóeirðanna 1968. Þá breyttist margt í skólanum. Á sumrin vann ég við ýmislegt, t.d. fiskvinnslu suður í Garði og þykir vænt um það byggðarlag síðan.
Eftir stúdentspróf endaði ég eftir nokkra leit í tónmenntarkennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík innan um afbragðs samnemendur, Þórunni Björnsdóttur, Ragnhildi Gísladóttur og nafnana Björgvin Tómasson og Björgvin Valdimarsson svo einungis fáein nöfn séu nefnd. Að öðrum ólöstuðum reyndist Martin Hunger mér best af kennurum skólans.
Áður en ég vissi af var ég farinn að kenna við Austurbæjarskólann og vinna að námsefnisgerð með Njáli Sigurðssyni og fleirum í skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins. Ætlaði mér samt aldrei að verða kennari. Svo liðu sextán ár við þrotlausa og slítandi vinnu, en þá flutti ég til Álaborgar og lærði þar tónvísindi við háskólann í rúm þrjú ár. Þar var fyrir á fleti Bjarki Sveinbjörnsson. Námið var mjög fjölbreytt þar sem fléttað var saman teoríu og praktík, hryntónlist og fagurtónlist.“
Að loknu BA-prófi kom Pétur Hafþór heim í eitt ár, en er ekki enn snúinn aftur til Danmerkur, hvað sem síðar verður. „Þegar hér var komið sögu voru Guðmundur Sighvatsson og Héðinn Pétursson orðnir stjórnendur Austurbæjarskóla og spennandi tímar fram undan með fjölmenningu og ýmsum breytingum, t.d. á húsnæðinu, svo ég fór aftur að kenna. Samanlagðri reynslu og menntun á þeim tímapunkti líki ég við „synergism“ eða starfsmögnun, þar sem heildaráhrifin verða meiri en samanlögð áhrif hinna einstöku þátta.“
Eftir aldamót var Pétur Hafþór aftur kominn í höfundarvinnu fyrir Námsgagnastofnun meðfram kennslu og til urðu bækurnar Hljóðspor og Dægurspor auk tveggja söngvasafna. „Ritstjóri var Ingólfur Steinsson og áttum við mjög gott samstarf. Einnig vann ég mikið með snillingnum Vilhjálmi Guðjónssyni.“
Vorið 2008 fékk Pétur Hafþór íslensku menntaverðlaunin fyrir námsefnisgerð. Hann var einnig tilnefndur til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins fyrir að „vera öflugur og skemmtilegur tónmenntarkennari … og nota tónlistina til að brjóta niður múra sem legið geta milli fólks sem talar mismunandi tungumál“. „Systir mín, Bergdís, hreppti þau verðlaun ári síðar fyrir starf sitt með útigangsmönnum borgarinnar. Þá sagðist bróðir okkar, Ingimar Emil tölvunarfræðingur, vera svarti sauðurinn í fjölskyldunni. Að sjálfsögðu var það hrein kaldhæðni, enda fékk hann að heyra það frá okkur systkinum að hann væri sá eini okkar sem væri nokkurn veginn „normal“.“
Jólaskemmtanir, öskudagsgleði, vorhátíðir, kórastarf og starf með ýmsum tónlistarhópum voru hluti af vinnu Péturs Hafþórs, oft utan við allar launagreiðslur. „Enda þurfa tónmenntarkennarar oft að fá útrás fyrir listræna hæfileika sína og börnin í skólanum sín tækifæri. Ég prófaði bæði að vera með elítukór og hóp unglinga þar sem allir máttu vera með. Þann hóp kallaði Unnsteinn Manúel Stefánsson, einn þessara unglinga, „Stórsveit Austurbæjarskóla“. Án efa jókst hróður skólans við þetta.
Tónlist er reyndar stórlega vanmetin námsgrein fyrir margra hluta sakir og heppnir eru þeir skólar sem hafa á að skipa góðum tónmenntakennara. Það verður seint ofmetið. Starfið er gríðarlega krefjandi og slítandi og stjórnendur þurfa að vera vakandi fyrir aðstæðum og skipulagi hverju sinni. Reyndar þarf námsframboð í grunnskóla alltaf að vera fjölbreytt, þannig að nemendur fái tækifæri til að uppgötva hæfileika sína á ólíkum sviðum. Sumir skólar standa sig ótrúlega vel að þessu leyti, en grunnskóli án tónmenntakennara er hins vegar eins og regnbogi án lita.“
Pétur Hafþór starfaði lengi fyrir Hollvinafélag Austurbæjarskóla. „Líkt og fleiri eyddi ég hundruðum vinnustunda í þágu þess, allt í sjálfboðavinnu. Afrakstur þeirrar vinnu mun einhvern tíma skila sér. Áhugamálin eru mörg og ólík, alls konar tónlist, góðar bækur, sagnfræði, íslensk tunga, gömul dægurmenning, hreyfing, útvarp og sjónvarp, ljósmyndun og fótbolti.
Ég nálgast lífið stundum eins og fótbolta, kann að meta samspil og leikgleði en hef engu að síður keppnisskap og er alveg til í að tuddast ef mér þykir ódrengilega að mér og mínum vegið. Mér finnst gaman að ferðast. Ég fór til Kúbu fyrr í vetur og langar þangað aftur. Kúbönsk tónlist er mér hugleikin og fellur vel að hugmyndum mínum um tónlistarkennslu í almennum skólum. Ég á ýmislegt efni í fórum mínum, en tíminn mun leiða í ljós hvort það verður einhvern tímann gefið út.“
Fjölskylda
Pétur Hafþór er ókvæntur og barnlaus. Hann er búsettur í 101 Reykjavík.
Systkini Péturs eru Bergdís Þóra Jónsdóttir snyrtifræðingur, f. 12.10. 1962. Maki: Hjörtur Arnar Óskarsson rafvirki, f. 15.3. 1961, búsett í Reykjavík, og Ingimar Emil Jónsson tölvunarfræðingur, f. 21.5. 1966. Maki: Helga Jóhannsdóttir, konrektor MH, f. 2.7. 1967, búsett í Reykjavík.
Foreldrar Péturs voru hjónin Jón Ingi Ágústsson, f. 23.6. 1925, d. 25.8. 2011, rafvirki, og Ragnhildur Kristófersdóttir, f. 5.9. 1927, d. 4.9. 1985, húsmóðir og ritari. Þau voru búsett í Reykjavík.