Ingimundur Birgir Jónsson fæddist í Reykjavík 29. september 1927. Hann lést 17. febrúar 2023. Foreldrar hans voru hjónin Jón Kristján Sigurjónsson, prentari í Reykjavík, f. 1885 í Njarðvík eystri, d. 1956, og Sína, Rasmusína Ingimundardóttir, húsfreyja og saumakona, f. 1889 á Sörlastöðum við Seyðisfjörð, d. 1960. Systkini Ingimundar voru: Hjördís Soffía, skrifstofustjóri landlæknis, f. 1922, d. 2021, ógift og barnlaus. Sigurjón Friðþjófur, loftskeytamaður og siglingafræðingur, f. 1925, d. 2000. Ekkja hans er Ragnheiður Sigurðardóttir, lyfjatæknir frá Vestmannaeyjum. Ingimundur giftist Elísu Fanneyju Kristjánsdóttur frá Ísafirði þann 30. ágúst 1957. Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Hannes Magnússon verkamaður á Ísafirði, f. 1890, d. 1961, og Sala, Rannveig Salóme Sveinbjörnsdóttir, húsfreyja, f. 1895, d. 1968. Synir Ingimundar og Elísu eru:
Gunnar Haukur, landfræðingur og leiðsögumaður, f. 1958, fv. eiginkona og barnsmóðir, Anna Jóhanna Hilmarsdóttir, þjóðfræðingur, f. 1956. Börn þeirra: Anna Elísa, félagsráðgjafi, f. 1989, eiginmaður Arnór Heiðarsson, grunnskólakennari og aðstoðarskólastjóri. Börn þeirra eru Ársól, og Breki. Hafsteinn Ingi, búfræðingur og húsasmiður, f. 1992. Sambýliskona Björk Lárusdóttir, náttúrufræðingur og kennari. Börn þeirra: Anna Rakel og Katrín Lára. Eiginkona Gunnars er Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Biskupsstofu, f. 1966. Börn Ragnhildar eru: Pétur Ragnhildarson, prestur. Íris Rós Ragnhildardóttir, tónskáld, hennar barn er Aron. Marta Andrésdóttir læknanemi, sambýlismaður Ásgeir Ólafsson tölvunarfræðingur.
Skúli Þór viðskiptafræðingur, f. 1961, fv. eiginkona og barnsmóðir: Ólöf Gyða S. Bjarnadóttir augnlæknir, f. 1960, d. 2021. Börn þeirra: Ingi Bjarni tónlistarmaður. Davíð Þór, flugmaður, eiginkona hans er Jóhanna Sigríður Sveinsdóttir, hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru Embla Hjördís og Víkingur Brynjar. Jóhanna Elísa, tónlistarkona, sambýlismaður: Davíð Þór Viðarsson.
Einar Valur, Ph.D. umhverfisverkfræðingur, f. 1950. Móðir hans: Helga Sigurðardóttir f. 1923, d. 2018. Fv. eiginkona Einars er Auður Sveinsdóttir landslagsarkitekt, f. 1947. Börn þeirra: Valgerður f. 1979, hennar barn er Kiljan Valur, Bergþóra, f. 1984, hennar barn er Váli Steinn.
Ingimundur hóf nám í Iðnskólanum í Reykjavík og í Prentsmiðjunni Eddu 1944 og lauk prófi í setningu 1948. Hann starfaði í Eddu sem handsetjari til 1949 að hann lærði vélsetningu og vann við hana fram undir 8. áratuginn þegar ný tækni ruddi sér braut, síðar filmuskeytingu o.fl. Vélsetjari hjá Prentsmiðju Tímans fram í nóvember 1957 og hóf um leið vinnu í Steindórsprenti og vann þar til september 1958, að hann réðst til Prentsmiðju Alþýðublaðsins. Þar vann hann þar til í september 1960. Hóf hann þá aftur störf í Steindórsprenti og starfaði þar fram til júlí 1992 að breyting varð á rekstri fyrirtækisins og vann hann upp frá því hjá Steindórsprenti-Gutenberg út starfsaldur sinn. Ingimundur var ritari Hins íslenska prentarafélags, HÍP, 1963-1965, sat í trúnaðarráði þess 1969 og í stjórn Lífeyrissjóðs prentara 1970-1975.
Útför Ingimundar Birgis fer fram frá Áskirkju í dag, 17. mars 2023, klukkan 13.
Elsku afi minn. Nú ert þú kominn yfir í sumarlandið til ömmu Lísu. Þú þurftir að bíða eftir því í tæp sjö löng ár en loksins hittist þið á ný.
Þið amma voruð einstakar fyrirmyndir. Þið kennduð okkur barnabörnunum svo ótalmargt og veittuð okkur alla ykkar ást og umhyggju. Sem barni á tíunda áratugnum fannst mér alltaf jafnmerkilegt - og stórfurðulegt - að það var ekki ruslatunna í eldhúsinu ykkar og bara pappírstunna í vinnuherberginu - núna skil ég hinsvegar hvað þið voruð framúrstefnuleg og á undan ykkar samtíð að mörgu leyti. Þið kennduð mér að meta skandinavíska hönnun, myndlist og mikilvægi daglegrar hreyfingar. Þú varst mikill listamaður og málaðir fallegar myndir sem héngu uppi á vegg hjá ykkur ömmu í Safamýrinni. Þú hefur alltaf verið mér hvatning í líkamsrækt - það eru ekki allir sem gera reglulega armbeygjur, sippa og synda kílómetra þegar þeir eru komnir yfir áttrætt! Gönguferðir um hverfið með ykkur ömmu í æsku voru alltaf skemmtilegar, og enn skemmtilegra að fá að vera með göngumælinn góða og komast að því hvort við gengum fleiri skref en í síðustu gönguferð. Þið amma voruð á ferð og flugi langt fram eftir aldri, bæði innanlands og utan. Það hefur verið mér mikil hvatning í að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast nýrri menningu en ekki síður að kynnast fallega landinu okkar. Þið voruð mikið útivistarfólk og ferðuðust um fjöll og firnindi á meðan heilsan leyfði. Einhvern tíma komst ég í lista sem þú hafðir skrifað yfir öll þau fjöll sem þið höfðuð gengið upp á - þau voru ansi mörg! Þú varst líka mikill ljósmyndari og fannst gaman skrásetja ferðalögin og daglegt líf. Svo léstu framkalla myndirnar, settir þær í heimatilbúin albúm. Í heimsókn hjá ykkur var alltaf gaman að grípa í eitt (eða fimm) albúm og rifja upp gamlar minningar innanlands eða skoða myndir frá evrópskum stórborgum. Það vakti hjá mér áhuga á ljósmyndun og að hafa auga fyrir fegurð hvar sem hún finnst í umhverfinu. Síðast en ekki síst voruð þið amma fyrirmynd mín í sambandinu ykkar á milli. Þið voruð alltaf teymi, og unnuð saman eins og vel smurð vél. Það leyndi sér ekki hvað ykkur þótti vænt hvoru um annað.
Lífið mitt er svo mikið auðugara með öllu sem þið hafið kennt mér.
Ég kveð þig, elsku afi, með orðum frá ömmu Lísu, sem hafa haft sterk áhrif á mig, því í þeim felst bjartsýni og jákvæð sýn á lífið og tilveruna: „Það skín alltaf sól á Móskarðshnúka.“
Anna Elísa Gunnarsdóttir.
Með hlýju og þakklæti minnumst við systkinin Ingimundar B. Jónssonar, eiginmanns Elísu móðursystur okkar, eða Mansa eins og við kölluðum hann ávallt. Hávaxinn, ávallt teinréttur með hlýlegt bros heilsaði hann veröldinni og tók vel á móti okkur öllum í fjölmennri stórfjölskyldunni.
Um miðja síðustu öld leiddu örlögin saman unga ísfirska stúlku, starfsmann dagblaðsins Tímans og ungan reykvískan prentara hjá prentsmiðjunni Eddu. Þau Lísa og Mansi giftu sig árið 1957 og eignuðust saman tvo syni og einn son átti Mansi fyrir. Fjölskyldan bjó nánast alla tíð í Safamýri 36. Þau voru gæfusöm hjón og sjaldan var annað nefnt án þess að nefna hitt. Einlæg og sönn vinátta var á milli foreldra okkar og þeirra og þangað komu þau ávallt ef þau áttu erindi til borgarinnar. Sama átti við um fjölskylduna í Safamýri sem heimsótti ættingja á Ísafirði og Bolungarvík reglulega. Já, fjölskyldan öll hafði mikinn áhuga á íslenskri náttúru og ferðaðist mjög víða. Okkur þótti mikið til þess koma hve vel þau þekktu landið okkar, óbyggðir, bæi og þorp, fjöll og dali. Á holóttum malarvegum með lítið tjald óku þau með sonum sínum, nutu, fræddust og upplifðu, þekktu kennileiti, plöntur og steina. Mansi var mikill áhugamaður um ljósmyndun og tók listilega fallegar myndir. Oft fengum við að njóta myndasýninga á einstökum „slides“-myndum hans teknum víða um landið. Á seinni árum áttu þau hjónin kost á að ferðast tölvuvert til útlanda. Þar var sami hátturinn hafður á, upplýsinga leitað um staði sem heimsækja átti og síðan margra kílómetra göngur um fegurstu borgir Evrópu, þar sem það markverðasta var skoðað og fallegar ljósmyndir teknar. Ferðarinnar notið á ný þegar heim var komið með upprifjun, myndum og frásögn.
Það má segja að Mansi og þau hjón hafi snemma tileinkað sér heilsusamlegan lífsstíl. Mansi synti svo að segja daglega í marga áratugi og fram yfir níræðisaldur. Reglulegir göngutúrar þeirra voru heilsubætandi og hugað var vel að hollu mataræði og reglulegum máltíðum. Í breyttum takti tímans, héldu þau ávallt fast við að borða heitan mat í hádeginu og snarlið á kvöldin. Þau okkar sem bjuggu í Reykjavík um skamman tíma eða langan, gátu treyst því að ef við bönkuðum upp á um hádegisbilið, þótti sjálfsagt að bjóða okkur að borða. Þess nutum við öll og börnin okkar líka.
Mansi sýndi okkur systkinunum og fjölskyldum okkar einstaka velvild og hlýju alla tíð. Hann hafði mikinn áhuga á því sem við vorum að fást við og hvernig gengi. Við minnumst þess líka öll þegar þau heimsóttu okkur heima í Bolungarvík hve mikinn áhuga hann hafði á öllu í sambandi við atvinnurekstur föður okkar og ógleymanlegt var að fá að skýra honum frá hvernig bókhaldstölvan sem hafði nýlega verið tekin í notkun virkaði. Áhuginn var einlægur og hvetjandi.
Mansi hefur nú kvatt jarðlífið eftir langa og góða ævi. Honum hafði varla orðið misdægurt fyrr en á síðasta æviárinu. Hann kvaddi síðastur af kynslóð móðursystkina okkar og þeirra maka og náði hæsta aldri þeirra.
Guð blessi minningu Ingimundar B. Jónssonar.
Einar, Ester, Kristján, Elías, Heimir Salvar Jónatansbörn og fjölskyldur.