Halldóra Jóna Guðmundsdóttir fæddist 31.desember 1937 í Litlabæ við Vallargötu 23 í Keflavík. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 4. mars 2023

Foreldrar hennar voru Ólöf Eggertsdóttir, f. 28. mars 1910, d. 5. nóvember 1999, frá Hávarðsstöðum í Leirársveit, og Guðmundur Jónsson, f. 23. september 1907, d. 29. maí 1999, frá Litlabæ í Keflavík.

Systkinin í Litlabænum voru átta og Halldóra þriðja elst: Elín Jóhanna, f. 1935, d. 1948, Lúðvík, f. 1936, Inga Kristín, f. 1939, d. 2016, Þórhallur Arnar, f. 1941, Gréta, f. 1943, d. 2019, Birna, f. 1943, d. 2013, Ólöf Edda, f. 1946.

Halldóra giftist Ingólfi Bárðarsyni 13. apríl 1963. Ingólfur fæddist 9. október 1937 og lést 27.12. 2011. Foreldrar hans voru Árný Eyrún Ragnhildur Helgadóttir, f. 18. janúar 1910, d. 15. febrúar 2001 og Bárður Olgeirsson, f. 4. ágúst 1905, d. 17. janúar 1992.

Börn, makar þeirra og fjölskyldur: 1) Elín Jóhanna, f. 14.1. 1956, d. 9.6. 2022, gift Joe A. Livingston, börn þeirra: a) Birgitta, f. 1972, gift Jim Maus, dætur þeirra Hannah Marie og Sydney Elín, b) Davíð Alan, f. 1978, kvæntur Jennifer, synir þeirra Ryley Alan og Tristan Harry, c) Edward Dale, f. 1984, kvæntur Lauren, sonur þeirra Connor Philip. 2) Arnar, f. 22.12. 1961, kvæntur Önnu Birnu Árnadóttur, börn þeirra: a) Árni Júlíus, f. 1988, b) óskírð dóttir, fædd andvana 1990, c) Halldór, f. 1991, d) Róbert Ingi, f. 1997. 3) Ragnhildur Helga, f. 22.2. 1965, gift Ólafi Birgissyni, synir þeirra: a) Ingólfur, f. 1987, unnusta Aldís Óskarsdóttir, synir þeirra Aron Leví, Birkir Leó, b) Birgir, f. 1991, unnusta Sandra Lind Þrastardóttir, dóttir þeirra Linda, c) Brynjar, f. 2006. 4) Brynja, f. 1.4. 1969, gift Jóhanni Bjarna Magnússyni, börn þeirra: a) Sindri, f. 1993, unnusta María Rós Kristjánsdóttir, dóttir þeirra Sól, b) Ebba Ósk, f. 1997, c) Birna, f. 2005. 5) Guðmundur Þórir, f. 2.4. 1974, kvæntur Karlottu Sigurbjörnsdóttur, dætur þeirra: a) Halldóra Jóna, f. 1995, unnusti Kristinn Gíslason, b) Stefanía Lind, f. 2003, kærasti Alexander Aron Smárason.

Útförin fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 17. mars 2023, klukkan 13. Athöfninni verður streymt á:

https://www.facebook.com/groups/halldora

Í dag kveðjum við móður mína Halldóru Jónu Guðmundsdóttir eða Dóru eins og allir kölluðu hana. Mamma var einstök kona, hafði góða nærveru og var vinur vina sinna. Mamma var mikil fjölskyldukona og var stolt af sínu fólki. Það voru forréttindi að hafa verið alin upp í þeim aðstæðum sem foreldrar mínu sköpuðu fyrir sig og sína. Þau lögðu sig fram að vera til staðar þegar á þurfti að halda og gáfu okkur systkinunum svigrúm og andrými til að vaxa og dafna á okkar forsendum, við fengum svigrúm til að gera mistök og mögulega að læra af þeim.

Mamma greindist með krabbamein fyrir tíu árum, það hefur verið mikil lífsreynsla fyrir mig að fylgjast með þessari öflugu konu og sjá hvernig hún tókst á við það verkefni af fullkomnu æðruleysi, bjartsýni og jákvæðni. Hún gafst aldrei upp og kvartaði aldrei. Í hvert skipti sem ég talaði við hana á þessu tímabili held ég að hún alltaf sagt við mig: „Það er ekkert að mér.“ Hún hafði frekar áhyggjur af öðrum, ef einhver hafði verið veikur eða átt eitthvað erfitt.

Í dag er tíminn til að minnast og þakka fyrir sig. Það hrannast upp margar góðar minningar, þar eru efst á blaði sumarbústaðurinn, ferðalög og samtöl sem við höfum átt í gegnum tíðina. Við vorum ekki alltaf sammála og þegar við vorum ósammála þá var það bara svoleiðis, bæði jafn þrjósk. Mamma hafði yfirleitt sterkar skoðanir og þeim varð ekki breytt, hún virti það við mann að hafa aðrar skoðanir. Eitt af því sem við ræddum oft um var hvernig maður tækist á við áföll í lífinu, eitt af hennar mottóum var að þú átt alltaf valkosti í lífinu. Þú getur dvalið við það sem liðið er og þú getur engu breytt þar um eða horft fram á veginn og haft áhrif á það sem framundan er og lært af reynslunni. Hennar valkostur var alltaf skýr.

Kæra mamma, þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum, þakka þér fyrir að vera til staðar fyrir okkur og strákana okkar þegar á þurfti að halda. Takk fyrir að minna okkur á að lífið er núna.

Gulldrengurinn hennar mömmu sinnar,

Arnar Ingólfsson.

Elsku mamma, ég trúi því varla að þú sért farin frá okkur. Mig langar að segja þér svo margt og þakka þér fyrir svo margt. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt góða mömmu sem studdi mig í einu og öllu. Það er óhætt að segja að við systkinin höfum unnið í foreldra-lottóinu, þar sem uppeldi okkar einkenndist af hlýju, umhyggju og festu.

Ég hugsa oft til þeirra tíma þegar ég kom heim eftir skóla, ung að árum, og mamma tók á móti mér með heimabökuðu bakkelsi á boðstólum. Ég minnist þess einnig þegar við sátum oft tvær inni í eldhúsi á Hólagötu 45, spiluðum ólsen-ólsen eða veiðimann og spjölluðum um margt og mikið. Þvílíkar gæðastundir sem við áttum þar saman tvær. Þegar eitthvað bjátaði á varst þú svo góð í að hlusta og veita mér ráð. Einnig minnist ég góðu stundanna uppi í sumarbústað. Við fjölskyldan eigum svo yndislegar og ljúfar minningar frá Vinaminni með þér, pabba og allri fjölskyldunni. Ég verð líka að nefna kúluspilið góða sem var oft spilað.

Eftir að elsku pabbi lést þá komst þú oftar í mat til okkar fjölskyldunnar sem börnunum þótti ekki leiðinlegt. Þau elskuðu að vera í kringum þig og tilhlökkunin var alltaf mikil þegar þau heyrðu að amma yrði hjá okkur um páska, jól eða áramót. Ég verð einnig að minnast á allt handverkið þitt. Sængurverasett með milliverk, svokallað harðangur og klaustur sem þú saumaðir fyrir allan hópinn þinn. Við eigum öll eftir að njóta þessara minjagripa og hugsa til þín, elsku mamma. Þá voru ýmsir glermunir sem þú föndraðir fyrir okkur, þvílík meistarastykki. Ef ég ætti að lýsa þér í fáeinum orðum þá varstu jákvæð, traust, kraftmikil og umhyggjusöm. Mamma, þú varst miðdepill fjölskyldunnar og því hefur nú myndast stórt skarð í lífi okkar allra. Missir okkar er mikill en við getum glaðst við þá tilhugsun að nú sért þú komin til elsku pabba og Ellu systur.

Ég mun ávallt minnast orða þinna, þegar ég spurði þig í veikindunum hvernig þú hefðir það, þá var svarið alltaf: „Ég hef það bara fínt, það þýðir ekkert að velta sér upp úr því, maður verður bara að halda áfram.“ Þú varst ótrúleg í þínum veikindum, kvartaðir aldrei og fékkst okkur hreinlega til að gleyma því að þú værir veik. Þú varst alltaf að hugsa um að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þér og vildir aldrei trufla.

Elsku mamma, ég á eftir að sakna þín alla tíð, þú ert best. Minning þín lifir.

Mamma

Þú ert gull og gersemi,

góða besta mamma mín.

Dyggðir þínar dásami,

eilíflega dóttir þín.

Vandvirkni og vinnusemi

væntumþykja úr augum skín.

Hugrekki og hugulsemi

og huggun þegar hún er brýn.

Þrautseigja og þolinmæði

- kostir sem að prýða þig.

Bjölluhlátur, birtuljómi,

barlóm, lætur eiga sig.

Trygglynd, trú, já algjört æði.

Takk fyrir að eiga mig.

(Kvæði eftir Önnu Þóru 1963)

Þín dóttir,

Brynja.

Elsku mamma, ein af mínum bestu vinkonum er farin til elsku pabba og Ellu sys. Stórt skarð höggvið í hópinn okkar, sem mamma og pabbi voru svo stolt af alla tíð. Ég er svo þakklát fyrir foreldra mína. Góðar minningar og gleðistundirnar eru efst í mínum huga á erfiðri kveðjustund. Eftir að pabbi dó fyrir rúmum 11 árum átti mamma góð ár með okkur. Bæði í Vinaminni, á heimilum okkar og á ferðalögum. Þegar hún greindist með gallgangakrabbamein ágúst 2013 kom andlegur og líkamlegur styrkur mömmu í ljós, hún var ákveðin að gefast ekki upp því það var ekki í boði og hún ætlaði að ná að sjá barnabörnin fermast og það tókst í september 2020. Mamma tókst á við krabbann af æðruleysi, jákvæðni og fór ávallt með bænirnar sínar sem henni fannst góður styrkur í alla tíð. Mamma lét verkin tala og máltækið okkar var „á morgun segir sá lati“, þar vorum við sammála mæðgurnar. Við nutum okkar vel saman að gera og græja í sælureitunum. Hún var svo dugleg þessi elska bjargaði sér með svo margt, hún var litli dugnaðarforkurinn okkar sem hún var alla tíð frá unga aldri. Mamma bar mikla ábyrgð sem barn þegar amma Lóa veiktist af lömunarveiki 1946 og öll Litlabæjarsystkinin voru fædd. Tveimur árum seinna, 1948, misstu þau elstu systur sína úr sykursýki sem hafði mikil áhrif á mömmu og öll systkinin. Það voru erfiðir tímar fyrir fjölskylduna sem hún talaði mikið um sérstaklega núna síðustu árin, en hún sagði þetta bjargaðist nú allt saman, við fengum alltaf að borða og okkur var aldrei kalt. Þetta var lýsandi fyrir mömmu, að vera ekki að flækja hlutina. Hún var stolt íslensk kona sem klæddi sig upp í upphlutinn sinn í hvert sinn sem tilefni var. Mamma var alltaf boðin og búin ef okkur Óla vantaði hjálp með strákana og heimilið og erum við þakklát fyrir það. Eins vorum við Óli alltaf til staðar fyrir hana hvort sem það var að fara til læknis eða bóna bílinn eða hvað sem var. Við höfðum unun af því að fara á tónleika, sjá leikrit eða fara í bíó saman og sýna myndirnar í símanum mínum að við gerðum heilmikið af því. Ein skemmtileg minning var þegar hún og Brynjar, yngsta barnabarnið hennar, byrjuðu að mæla og bera saman hæð sína. Smátt og smátt fór minnsti prinsinn að taka fram úr og vel það. Þau áttu einstak samband sem var svo fallegt. Eitt af síðustu verkunum hennar var að selja honum bílinn sinn svo hann yrði á góðum bíl þegar hann tæki bílprófið núna í apríl. Hún naut þess að fá að upplifa að eignast langömmubörn og fá að sjá þau taka sín fyrstu skref. Hún var svo stolt af hópnum sínum eins og hún talaði um okkur börnin sín og fannst mikilvægt að við héldum hópinn í sátt og samlyndi. Við gerum okkar besta elsku mamma að halda minningum ykkar pabba lifandi og fögnum lífinu ykkar við hvert tækifæri. Við kveðjum þig með söknuði og þakklæti fyrir fallega kveðjustund sem við áttum öll börnin þín með þér. Þökkum fyrir allt, elsku mútta mín, með bæn sem þú kenndir okkur.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti

signaður Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Þín elskulega dóttir og tengdasonur,

Ragnhildur Helga og Ólafur.

Elsku mamma er fallin frá. Ég á eftir að sakna hennar mikið en er þakklátur fyrir tímann með henni og allar dýrmætu minningarnar sem við fjölskyldan eigum. Mamma var engin venjulega kona, hún var kjarnakona af gamla skólanum. Hún var húsmæðraskólagengin og allt sem sneri að heimilinu og fjölskyldunni var upp á tíu. Við Kalla og stelpurnar nutum svo sannarlega góðs af því, allar prjónuðu peysurnar, húfurnar, vettlingarnir og ullarsokkarnir komu sér afar vel og fallegu útsaumuðu rúmfötin sem þú gafst öllum í fjölskyldunni eru einstök. Þú varst okkar stoð og stytta þegar kom að því að passa stelpurnar okkar, passaðir alnöfnu þína part úr degi frá þriggja mánaða aldri svo við Kalla gætum klárað framhaldsskólann.

Mömmu þótti afar vænt um fjölskylduna sína og naut þess þegar allir komu saman, núna síðast á 85 ára afmælinu hennar á gamlársdag síðastliðinn. Þú naust þín vel á ferðalögum og eru minnisstæðar síðustu ferðirnar okkar saman, s.s. ferðin til Orlando þar sem við nutum jólanna með Ellu systur og fjölskyldu og Spánarferðin þar sem þú kunnir vel við þig í hita og sól, Við Kalla vorum einnig heppin að fá að ferðast með ykkur pabba á hina ýmsu staði með Lionsklúbbi Njarðvíkur. Ferðin til Kaupmannahafnar er eftirminnileg en þá notuðum við tækifærið, leigðum okkur bíl og keyrðum yfir til Odense að skoða íbúð sem við fjölskyldan leigðum á námsárum mínum þar. Allar minningarnar úr Vinaminni eru ógleymanlegar og var mikil stemning um verslunarmannahelgar þegar fjölskyldan kom saman og ber þá að nefna veislumat að hætti mömmu, brennuna og kúluspilið góða. Pabbi hafði séð um að hjálpa barnabörnunum að smíða litla báta sem farið var með niður að á en eftir að hann féll frá tókst þú að þér það hlutverk að smíða með þeim. Þú lést þitt heldur ekki eftir liggja þegar kom að viðhaldi á bústaðnum og gekkst rösklega í öll verk.

Ég á eftir að sakna allra samverustundanna, daglegu heimsóknanna á verkstæðið til okkar Röggu systur og símtalanna en ég er viss um að það hafa orðið fagnaðarfundir þegar pabbi og Ella systir tóku á móti þér. Takk fyrir allt elsku mamma mín.

Þinn sonur,

Guðmundur Þórir Ingólfsson.

Þú ert mér sem sólin, elsku amma mín

nú ert þú stjarnan sem skært á himni skín.

Brosið þitt og þín gleði veitti birtu og yl,

Hjá þér var gott að vera, þú veittir skjól í lífsins byl.

Lífsspeki þín og orka, gleði, tryggð og trú,

dugnaður, kraftur og fegurð, allt þetta amma, hafðir þú.

Þú varst minn verndarengill, áttir þátt í að móta mig,

agaðir mig og studdir, það var svo

gott að eiga þig.

Já, sólin ert þú, elsku amma, þú ert sólin mín.

Ég er svo ánægð að vera sonardóttir þín.

Sólin skín því í heiði, sólin skín fyrir þig.

Hún skín svo skært og fagurt, af því að þú varst til.

(Katrín Ruth Þ.)

Takk fyrir allt elsku amma Dóra. Við munum sakna þín en minningin um þig lifir.

Þínar sonardætur

Halldóra Jóna og Stefanía Lind.

Elsku amma Dóra.

Við bræðurnir erum svo þakklátir fyrir allar minningarnar og stundirnar með þér, þær ylja okkur á kveðjustundinni stóru. Við erum heppnir með hversu margt við getum tekið með okkur inn í lífið frá þér, elsku amma okkar.

Amma var hin fullkomna amma, alltaf að elda góðan mat, hún sá til þess að engan vantaði neitt og að allir væru kátir í kringum sig. Allir treystu á ömmu og hennar hlýja Litlabæjarfaðmlag. Það var stutt í húmorinn, hláturinn og fallega brosið hennar. Viðhorf ömmu var aðdáunarvert, hún kvartaði aldrei og þoldi hvorki væl né neikvæðni. Fram á síðasta dag svaraði hún alltaf eins þegar maður spurði hana hvernig hún hefði það: „ég? (svaraði hún frekar hissa á svip), horfðu í kringum þig og sjáðu, ég á fullt af börnum, barnabörnum og langömmubörnum, ég segi auðvitað allt gott, það er ekki annað hægt, ég er svo heppin“.

Stundirnar uppi í Vinaminni eru okkur ofarlega í huga núna. Brennan við Langá, Akravision-spilakvöldin, grillmaturinn, frönsku sniglarnir baðaðir í hvítlaukssmjöri (amma var mikill aðdáandi snigla) og miðnæturdansarnir. Það þurfti ekki að biðja ömmu tvisvar um að dansa og fíflast, hún var alltaf til. Formúlan var einföld, Quando, Quando, Quando með Engelbert Humperdinck var settur á fóninn og amma og afi Ingó byrjuðu stuðið. Þetta er uppskriftin að hinni fullkomnu skemmtun, sjá ömmu sína og afa veina úr hlátri hvort yfir öðru og fólkinu sínu eftir langa samverudaga í sveitinni.

Ömmu þótti svo vænt um öll litlu krílin sín eins og hún kallaði þau. Það er okkur dýrmætt að börnin okkar hafi fengið að kynnast langömmu Dóru. Þau yngstu, Birkir Leó og Linda, munu líklega ekki muna mikið eftir því í framtíðinni en myndirnar eru ómetanlegar og við munum leggja okkur fram við að halda minningu ömmu á lofti. Aron Leví man þó vel eftir skemmtilegum vetri á leikskólanum, þar sem krakkarnir komu reglulega á Nesvelli að dansa með eldri borgurum. Leitaði sá stutti alltaf ömmu uppi og öfugt og dönsuðu þau saman. Ömmu þótti vænt um þetta.

Samband ömmu og Brynjars bróður var kært, það skapaðist einhver skemmtilegur neisti á milli þeirra sem okkur eldri bræðrum þótti vænt um. Við minnumst þess að mæta mömmu, ömmu og Brynjari á rúntinum með autt framsætið. Amma vildi alltaf sitja aftur í hjá Brynjari sínum og mamma þaut um bæinn eins og leigubílstjóri með mæli iðagrænan.

Elsku amma Dóra okkar, takk fyrir allt sem þú færðir okkur. Við munum sakna þín mikið, þú varst einstök.

Þínir vinir og barnabörn

Ingólfur, Birgir, Brynjar og fjölskyldur.

Kær mágkona mín er látin, Halldóra Jóna Guðmundsdóttir, eftir erfiða sjúkdómslegu. Hún var elst núlifandi systkina, en þau voru átta.

Dóra reyndist mér svo vel þegar ég kom fyrst inn í fjölskylduna, aðeins 16 ára gömul, austan af landi og þekkti fáa. Við áttum margar glaðar stundir saman. Svo liðu árin og Dóra gifti sig, honum Ingólfi sínum, og áttum við fjölskyldurnar margar góðar stundir saman.

Nú er Dóra komin í sumarlandið og sameinuð sínum. Innilegar samúðarkveðju,r kæra fjölskylda, frá okkur Lúlla.

Minningin lifir.

Bjarney Sigurðardóttir.

Dóru mágkonu minni kynntist ég fyrir tæpum 63 árum. Þá var ég bara stelpuskott úr Njarðvík og Halli minn kom með mig í Litla bæinn til að kynna mig fyrir fjölskyldunni. Hún var mikill dugnaðarforkur, skemmtileg og vönduð mágkona, vinkona, systir og frænka og þótti okkur mjög vænt um þessa elsku. Við áttum yndisleg og skemmtileg ár saman með þeim Ingó, Dóru og krökkunum í gegnum árin. Þá var mikill samgangur, bæði í Njarðvík og ekki síður í Vinaminni á Mýrunum, þar sem við áttum frábærar samverustundir öll saman eða bara við fullorðna fólkið. Þar var mikið hlegið, spilað fram á nótt og jafnvel dansað. Við fórum ásamt mökum í fyrstu utanlandsferðina okkar með saumaklúbbnum sem við Dóra vorum í, farið var til Mallorca 1968. Þar dvöldum við í þrjár vikur og var það mikil upplifun. Fórum við einnig saman til Benidorm ásamt börnum árið 1978 og eigum við svo góðar minningar frá þessum Spánarferðum. Þegar Halli varð 60 ára þá fórum við fjögur saman til Flórída og vorum hjá Ellu og Joe í góðu yfirlæti. Þetta voru allt ógleymanlegar ferðir alltaf jafn gaman og nóg af fjöri.

Elsku Dóra okkar, núna ertu farin frá okkur inn í sumarlandið til ástvina sem þú hafðir kvatt áður.

Takk fyrir öll árin sem við áttum saman, þín verður sárt saknað.

Við vottum afkomendum þínum sem þú elskaðir mikið og varst svo stolt af okkar dýpstu samúð og biðjum um styrk fyrir þau í sorginni.

Sigríður (Sigga), Þórhallur (Halli) og fjölskylda.

Elsku Dóra frænka mín, stóra systir hennar mömmu, er fallin frá. Alla tíð hefur sambandið á milli mömmu og Dóru verið einstakt og þetta samband smitaðist yfir til mín um leið og ég fæddist. Fyrir mér var Dóra svo miklu meira en systir hennar mömmu og ég hef grun um að ég hafi fengið að vera algjört uppáhald í stórum hópi systkinabarna hennar.

Allar heimsóknirnar í bústaðinn eru mér efst í minni. Þar var spilað við mig yatzi tímunum saman og ég kallaði hátt og skýrt DÓRA BESTA FRÆNKA í hverju kasti því að það voru lukkuorðin mín, Ingó dró fram kastanetturnar þegar mesta stuðið var og það var sungið, hlegið og dansað langt fram eftir öllu og svo aðalsportið að fara á varðeldinn þar sem Ingó stýrði öllu með styrkri hendi. Vinkonurnar mínar á Akranesi vissu allar hver Dóra frænka var, því fyrir mér átti hún stærsta og flottasta húsið í Njarðvík og þar fékk ég alltaf eitthvert amerískt nammi til að taka með mér heim og monta mig af.

Jólin munu ávallt minna mig mest á þig, elsku Dóra mín. Þá verður jólatréð okkar Róberts gulli slegið með öllu fallega skrautinu sem ég fékk frá þér árlega síðan ég var smástelpa, rúmfötin sem þú bjóst til í höndunum og gafst okkur í brúðargjöf eru sett á rúmið og svo skálum við fyrir þér eins og alltaf á gamlársdag í tilefni dagsins þíns.

Ég er svo þakklát fyrir þessar tvær síðustu stundir sem við áttum saman bara fyrir nokkrum dögum. Þá kúrðum við okkur í rúminu þínu, héldumst í hendur og hlógum og spjölluðum um lífið, tilveruna, óréttlæti, erfiðleika og allt það sem við erum þakklátar fyrir í lífinu okkar. Því þú varst svo þakklát fyrir allt sem þú hefur átt og hvað þú hefur átt gott líf og ég veit að lífið heldur áfram að vera gott hjá þér núna með öllu fólkinu þínu sem bíður þín.

Þú varst mér miklu meira en frænka, þú varst besta frænka í öllum alheiminum og ég sakna þín svo heitt og innilega og votta öllu fólkinu þínu mína innstu samúð.

Litla krúttið þitt,

Erla Björk Gísladóttir.

Það er alltaf jafn erfitt að fá frétt um andlát vinar, jafnvel þótt hún komi ekki á óvart. Þannig var það þegar fréttin um andlát Dóru barst. Perlan okkar, þessi fallega, hláturmilda og skemmtilega kona, væri horfin og kæmi aldrei til baka. Hvernig eigum við að koma saman án hennar?

Við kynntumst Dóru fyrst í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Það eru 60+ ár síðan, ég er hætt að telja. Eftir að skóla lauk stofnuðum við átta konur saumaklúbb sem var lykillinn að ævilangri vináttu. Það var gaman að lifa á þessum árum, við vorum að eignast eiginmenn og stofna heimili.

Mér er mjög minnisstæð fyrsta ferðin okkar til Dóru. Á þessum tíma átti engin okkar bíl, svo við tókum strætó niður á BSÍ og þaðan rútu eftir malarvegi til Keflavíkur. Þetta var mikið ferðalag. Dóra og Ingólfur bjuggu þá í lítilli risíbúð (á loftinu hjá Stíg) og Arnar var nokkurra mánaða gamall. Móttökurnar hjá Dóru voru höfðinglegar. Þegar við mættum var hún búin að elda hangikjöt og gera uppstúf, svo var rjómaterta í eftirrétt, það mátti ekki minna vera.

Við vinkonurnar í Saumó urðum fljótt mjög samrýmdar og þegar eiginmennirnir kynntust þéttist hópurinn enn meira. Oft voru haldin heljarinnar mikil partí með söng og dansi. Það var aldrei nein lognmolla þar sem Dóra og Ingó mættu, hann með sína framkvæmdagleði og hún alltaf til í hvað sem var, kát og hláturmild.

Hópurinn okkar hefur átt margar ánægjustundir saman. Við höfum ferðast saman innan lands og utan. Margar ferðir fórum við í sólina til Kanarí og í eina lúxussiglingu fórum við saman. Við heimsóttum hver aðra í sumarbústaði og fórum í þriggja til fjögurra daga reisur vítt og breitt um landið. Við nutum oft gestrisni Dóru og Ingó. Eitt sinn gistum við öll í bústaðnum þeirra við Langá og skemmtum okkur langt fram á nótt. Það var ekki mikið sofið þá helgina.

Dóra og Ingó voru hamingjusöm hjón. Þau eignuðust fallegt heimili og glæsilegan afkomendahóp. En lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum, Dóra hefur líka þurft að takast á við sorg og missi. En eins og henni einni var lagið þá stóð hún keik allt til enda.

Það hefur fækkað mikið í vinahópnum okkar undanfarin ár, en fjölgað í Sumarlandinu, þar verður Dóru vel fagnað. Við sem eftir sitjum eigum allar þessar dýrmætu minningar til að rifja upp, það er nokkur huggun.

Dóra vinkona okkar var trúuð, hún trúði á Guð og nú bið ég að sá guð taki á móti henni og hjálpi börnum hennar, tengdabörnum og fjölskyldunni allri að takast á við lífið án hennar. Guð geymi ykkur öll.

Fyrir hönd saumaklúbbsins,

Sigríður Auðunsdóttir.