Sveitin Gæfar kýr í grænum haga á fallegum sumardegi á Suðurlandi.
Sveitin Gæfar kýr í grænum haga á fallegum sumardegi á Suðurlandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Í mörgum lýsingum Biblíunnar um fyrirheitna landið flóir mjólkin um allt. Að vísa til slíkra ritningargreina hæfir vel í kúamessu,“ segir sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Í mörgum lýsingum Biblíunnar um fyrirheitna landið flóir mjólkin um allt. Að vísa til slíkra ritningargreina hæfir vel í kúamessu,“ segir sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna. Hann þjónar við messu næstkomandi sunnudagskvöld, 19. mars nk. kl. 20, í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Guðsþjónustan verður í fjósinu þar, sem er eitt hið allra stærsta á landinu. Nautgripir í fjósinu eru alls um 500 og þar af eru mjólkandi kýr tæplega helmingur.

Prédikað í fóðurgangi

Tveir kirkjukórar úr Hrunaprestakalli, sem er í uppsveitum Árnessýslu, syngja sálma og lög við messuna undir stjórn organistanna Stefáns Þorleifssonar og Þorbjargar Jóhannsdóttur.

„Minn staður við prédikun í fjósinu verður við enda fóðurgangsins og þar nærri getur fólk komið sér vel fyrir með því til dæmis að setjast á heybagga. Fulltrúar frá nautgriparæktarfélögum í sveitinni munu leggja orð í belg við messuna og mörgu verður hægt að tæpa á. Kýr, naut, uxar og alls konar dæmisögur um búhyggindi er víða að finna í Biblíunni,“ segir Óskar sem við messuna mun, helgisiðum samkvæmt, fara með bæn og blessunarorð.

Margt í Biblíunni segir frá örlögum og atvikum fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir 2000 árum eða svo og þykir hafa haft forspárgildi, svo sögurnar eru enn í heiðri hafðar. Kýrnar feitu sem gengu upp úr Nílarfljóti voru sjö og þeim fylgdu aðrar sjö mjóslegnar. Þetta þótti vita á að velmektartímum fylgdu mögur ár, eins og gekk eftir þá og hefur oft gerst síðan í ýmsum tilbrigðum. Þetta segir Óskar gott að muna; það er að í lifinu sjálfu séu dagarnir misjafnir og ekki alltaf sólskin.

„Þar sem fólkið er, þar á kirkjan að vera með sitt starf. Í mínum huga er alveg sjálfsagt mál að standa fyrir kúamessu, svo stór þáttur er nautgriparækt og mjólkurframleiðsla í atvinnulífi á þessum slóðum,“ segir sr. Óskar í Hruna sem síðasta haust hélt kindamessu í Hrepphólakirkju. Nú er komið að fjósamessu en óákveðið er upp á hverju verður næst bryddað í kirkjustarfi sveitarinnar.

Nytin eykst

„Hugmyndin er góð og gaman að taka þátt í svona uppákomum. Ég efa ekki eitt andartak að nytin í kúnum mun aukast til muna eftir messuna en stóra spurningin er þá bara sú hvort prestinum tekst að breyta mjólk í eitthvað sterkara rétt eins og sagt er að allra kröftugustu prestar geti gert vatn að víni,“ segir Arnar Bjarni Eiríksson, bóndi í Gunnbjarnarholti.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson