Jóhannes Nordal seðlabankastjóri er til moldar borinn í dag. Góður vinur hans skaut að mér minnismiða, svohljóðandi: „Í dag rifjum við upp hin margvíslegu afrek Jóhannesar Nordal í þjóðmálum. En bak við embættismanninn bjó mikill öðlingur,…

Jóhannes Nordal seðlabankastjóri er til moldar borinn í dag. Góður vinur hans skaut að mér minnismiða, svohljóðandi: „Í dag rifjum við upp hin margvíslegu afrek Jóhannesar Nordal í þjóðmálum. En bak við embættismanninn bjó mikill öðlingur, hjartanlegur vinur vina sinna sem nú minnast hans með söknuði. Þessi hlýhugur streymir frá vísum hans í jólakortum sem við fengum, veiðifélagarnir hjá Kristni í Björgun við Tungulæk.

Kristins fríði kappaflokkur

kyrjar nú allur jólavers.

Helgi, Eykon og Árni kokkur,

einnig Kalli og Jóhannes.

Vonglaður hugsar vorsins til

með völlu græna og fisk í hyl.

Niðurdimmar næturnar

um næsta vor mig dreymir

og ljúfan Tungulæk sem þar

lygn í Skaftá streymir.“

Sigurður Nordal orti þessa stöku, sem varð fleyg:

Yfir flúðir auðnu og meins

elfur lífsins streymir.

Sjaldan verður ósinn eins

og uppsprettuna dreymir.

Stökur Jóhannesar eru ortar til gamans til að gleðja vini sína. Það er þessi hlið á ferskeytlunni sem gerir hana svo lifandi. Ég tek dæmi af Matthíasi Jochumssyni þegar hann yrkir til strákanna bróðursona sinna:

Heyrðu Mangi, Matti, Jón

miklu sterku andans ljón

heyrið mína hjartans bón:

hættið þið nú að vera flón!

Hér yrkir hann um klárinn sinn:

Verður ertu víst að fá

vísu gamli Jarpur

aldrei hefur fallið frá

frækilegri garpur.

Og að síðustu:

Bráðum kveð ég fólk og frón

og fer í mína kistu –

rétt að segja sama flón

sem ég var í fyrstu!

Gamalt dansstef:

Senn kemur sumarið,

sólin blessuð skín,

víst batnar veðrið

þá veturinn dvín.