Gatnamót Umferðin er oft þung og margir beygja til vinstri inn á Sæbraut.
Gatnamót Umferðin er oft þung og margir beygja til vinstri inn á Sæbraut. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Ég er alveg gapandi yfir því að það eigi að fara í gegn með þessa tillögu. Hún mun snarauka umferðarteppuna sem er hérna í Vogunum nánast daglega á álagstímum,“ segir Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég er alveg gapandi yfir því að það eigi að fara í gegn með þessa tillögu. Hún mun snarauka umferðarteppuna sem er hérna í Vogunum nánast daglega á álagstímum,“ segir Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær áformar Reykjavíkurborg breytingar á gatnamótunum Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar. Meðal annars á að fella niður aðra af tveimur vinstri beygjuakreinum frá Kleppsmýrarvegi til suðurs inn á Sæbraut. Þar fara vöruflutningar um frá ýmsum stórfyrirtækjum og myndast gjarnan teppur á álagstímum.

Árni segir að þessi áform, sem eiga að stuðla að bættu umferðaröryggi, geti í raun frekar aukið slysahættu en hitt. „Ég held að þetta muni hreinlega auka áhættuna á því að bílstjórar stelist yfir á rauðu ljósi þegar mun færri bílar komast yfir gatnamótin hverju sinni en er í dag,“ segir hann og bætir við að samkvæmt slysaskráningu Samgöngustofu hafi á síðustu ellefu árum orðið eitt tilvik, árið 2019, þar sem bíll ók á gangandi vegfaranda á þeim stað á gatnamótunum þar sem stendur til að fækka um beygjuakreinina. Samkvæmt skráningu voru meiðsli lítil. „Miðað við umferðarþunga á þessari götu getur það vart talist há slysatíðni þrátt fyrir að öll slys séu að sjálfsögðu óheppileg.“

Stóra málið að mati forstjórans er að á síðustu árum hafi byggst upp stórt íbúðahverfi í Vogabyggð og íbúar þar eigi í erfiðleikum með að komast út úr hverfinu á álagstímum, rétt eins og viðskiptavinir fyrirtækja á svæðinu, starfsfólk þeirra og vitaskuld flutningabílar á vegum stórra fyrirtækja. „Það eru umferðarteppur niður í Kjalarvog og Skútuvog á álagstímum og beygjuljósin anna vart umferð. Um þessi gatnamót er keyrt stórum hluta af byggingarefni inn á höfuðborgarsvæðið, þarna eru Samskip með höfuðstöðvar, Lífland, Aðföng með vöruhús og þar með vörudreifingu fyrir Hagkaup, Bónus og Olís auk fjölda annarra. Það er klárt að ef af þessari breytingu verður mun meiri þungatraffík beinast í gegnum Vogabyggðina með tilheyrandi aukningu á mengun og slysahættu þar.“

Forstjórinn furðar sig á þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð í þessu máli af hálfu Reykjavíkurborgar. „Ef einhverjum hefði verið alvara með að auka öryggi á þessu svæði þá hefði auðvitað átt að setja göngu- og hjólabrú yfir Sæbrautina fyrir langalöngu og hlífðargirðingar við gangbrautir. Ekki byrja á því að byggja risastórt hverfi og fara svo að huga að því, eins og okkur skilst að eigi að gera með framkvæmdum við bráðabirgðabrú mögulega á seinni hluta þessa árs.“

Þá hafi fyrirtæki á svæðinu ekki verið höfð með í ráðum. „Það hefur nákvæmlega ekkert samráð verið haft við okkur. Við höfum lýst yfir áhyggjum af umferðarflæði á framkvæmdatíma fyrirhugaðs stokks við Vegagerðina en það hafði enginn rætt þessar fyrirhuguðu breytingar við okkur,“ segir Árni sem fór ásamt fleiri fulltrúum fyrirtækja á svæðinu fram á fund með fulltrúum Reykjavíkurborgar vegna þessa. Var sá fundur fyrirhugaður með samgöngustjóra borgarinnar og borgarfulltrúunum Alexöndru Briem og Einari Þorsteinssyni síðdegis í gær.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon