Dagmál Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali Dagmála.
Dagmál Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali Dagmála. — Morgunblaðið/Hallur
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að heimsókn sín til Úkraínu hafi haft mikil áhrif á sig, hjá því fari ekki þegar komið er inn í land, sem verst innrás og allt mannlífið litast af því. Hún segir það sitja í sér

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að heimsókn sín til Úkraínu hafi haft mikil áhrif á sig, hjá því fari ekki þegar komið er inn í land, sem verst innrás og allt mannlífið litast af því. Hún segir það sitja í sér.

Þetta er meðal þess, sem fram kemur í viðtali Dagmála við ráðherrann í dag, en streymi Morgunblaðsins er opið öllum áskrifendum.

Katrín kom til Úkraínu á þriðjudag, ekki aðeins til þess að sýna Úkraínumönnum samstöðu, heldur átti hún erindi við Volodimír Selenskí Úkraínuforseta vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins, sem fram fer hér á landi um miðjan maí.

Hún kveðst vona að Selenskí komi á fundinn, en allt of snemmt sé að segja til um það. Katrín minnir þó á að Selenskí fari mjög lítið úr landi, enda nægu að sinna á heimavígstöðvunum.

Katrín jánkar því að hún og Selenskí hafi náð vel saman, svona eins og hægt er á slíkum fundi. „Þetta er hlýlegur maður, sem kominn er í aðstæður, sem hann sá örugglega ekki fyrir þegar hann fór í forsetaframboð.“

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fer fram á Akureyri um helgina, en Katrín hyggst áfram gefa kost á sér til formennsku á fundinum.

Katrín á von á þróttmiklu málefnastarfi eins og drög að ályktunum beri með sér. Hún neitar ekki að umræða um útlendingalögin nýsamþykktu innan hreyfingar Vinstri grænna hafi oft verið erfið og skoðanir skiptar, líkt og víðar.

Höf.: Andrés Magnússon