Sunnudagar eru blóðugir hjá The Edge og Bono.
Sunnudagar eru blóðugir hjá The Edge og Bono. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir nokkrum mánuðum eða misserum dustaði ég á þessum vettvangi rykið af nokkrum eftirminnilegum dægurlögum sem eru með þann geðþekka vikudag mánudag í titlinum. Það var býsna skemmtilegt grúsk og ástæða til að halda því áfram

Fyrir nokkrum mánuðum eða misserum dustaði ég á þessum vettvangi rykið af nokkrum eftirminnilegum dægurlögum sem eru með þann geðþekka vikudag mánudag í titlinum. Það var býsna skemmtilegt grúsk og ástæða til að halda því áfram. „Almáttugur,“ hugsið þið nú með ykkur, „ætlar maðurinn nú að fara að þræða sig gegnum alla vikudagana á næstunni?“ Svarið er nei. Svo ósvífinn er ég ekki. Þvert á móti hendi ég mér beint í að loka hringnum og beini sjónum að lögum sem eru með helgasta vikudaginn af þeim öllum, sunnudag, í titlinum. Rétt eins og blaðið sem þið eruð með í höndunum. Komið þið með?

Fyrsta lagið sem kom upp í hugann, áður en ég byrjaði að gúgla og grúska, var Sunday Bloody Sunday með írsku goðsögnunum í U2. Kannski vegna þess að tvöfaldur sunnudagur er í titlinum. U2 var svona hliðarhljóðrás lífs míns meðan ég var að komast til vits og ára; það er að segja ég hlustaði ekki endilega mikið á þá félaga sjálfur en margir í kringum mig gerðu það. Þá þótti U2 auðvitað mjög gáfulegt og töff band enda leynt og ljóst að stinga á kýlum í samfélaginu. Sunday Bloody Sunday er gott dæmi um það. Eins og flestir vita fjallar það um blóðbaðið í Londonderry snemma árs 1972, þegar breski herinn myrti 14 óbreytta borgara og særði 12 til viðbótar í mótmælagöngu. Lítill sunnudagur í því.

Easy (Like Sunday Morning) með The Commodores er mun friðsælla lag og við látum svigann ekkert trufla okkur. Það er engin skrifstofublók að fara að segja okkur að lög með sunnudag innan sviga teljist ekki með. Sögumaður segir farir sínar ekki sléttar í laginu enda var ástarsambandi hans að ljúka. Í stað þess að leggjast í sjálfsvorkunn, almenna eymd og volæði tekur hann skellinn hins vegar bara á kassann og er afslappaður eins og hver annar sunnudagsmorgunn. Lionel Richie, höfundur lags og texta, lýsti því einhverju sinni svo að líkingin væri dregin af heimabæ hans, Tuskegee í Alabama, sem sofnar víst værum blundi hálftíma fyrir miðnætti á laugardagskvöldum. Og er fyrir vikið kattferskur og „easy“ að morgni sunnudags.

Ekki hef ég heimildir fyrir því að Jón „góði“ Ólafsson hafi vaxið úr grasi í Tuskagee en í öllu falli heitir eitt frægasta lag hans einmitt Sunnudagsmorgunn. Þar situr sólin við borðið hjá okkar manni svo yndisleg og bréfarifan upp gin sitt glennir og Jóni þykir gott að fá sitt morgunblað. Verði þér að góðu, kæri Jón! Veit þó ekki hvort ég get boðið þér í dag upp á fræga konu sem kennir að kosmískur tími standi í stað. Jón er greinilega prinsippmaður og les sitt Sunnudagsblað á sunnudagsmorgni enda þótt það komi út á laugardagsmorgni. Er það vel.

Við nánari skoðun kom systurlag Sunnudagsmorguns upp úr krafsinu, Sunday Morning með poppsveitinni No Doubt. Man ekki eftir að hafa heyrt það en það er ekkert að marka. Tónlistarsmekkur minn er svo skrýtinn. Mér skilst að Gwen Stefani sé þarna í einhverjum æsispennandi hlutverkaleik við einhvern sem einu sinni var henni kær. Þær tilfinningar voru ekki endurgoldnar fyrr en síðar en þá var það víst of seint. Þannig lenti sá maður í hennar gömlu sporum. Vesen að standa í því á sunnudagsmorgni. En jæja.

Gömlu rokkbrýnin í Scorpions eru líka lungamjúk í bítið á sunnudögum ef marka má lag þeirra, Loving You Sunday Morning. Þar kveðst Klaus Meine gera allt fyrir ástina. Rétt eins og Páll okkar Óskar. Hvort sem það er á sunnudögum eða aðra daga.

Sonic Youth er einnig á rómantísku nótunum í lagi sem heitir einfaldlega Sunday. Sögumaður hittir sína heittelskuðu eða heittelskaða á sunnudegi og upp frá því er það þeirra dagur. Hversu mörg ykkar kynntust ástinni á sunnudegi? Ábyggilega þó nokkur, flest þó líklega fyrir sólarupprás. Nema þá að það hafi gerst í kirkju. Gaman væri að gera einhvern tíma úttekt á því hversu mörg hjón hafi kynnst í kirkju.

Man einhver eftir Blue Sunday með The Doors? Þar er sama uppi á teningnum, sögumaður hittir ástina í lífi sínu á sunnudegi og þau ákveða aukinheldur að festa ráð sitt á sunnudegi.

Skjól fyrir regninu

Kántríboltinn Keith Urban gengur enn lengra í lagi sínu, Raining on Sunday, en þar nýtur hann hreinlega ásta með sinni heittelskuðu á sunnudegi. Biður almættið raunar um regn svo þau skötuhjúin hafi afsökun til að fara ekki úr húsi. Og helst ekki fram úr rúminu. Klókur karl, Keith.

Kris Kristofferson er ekki eins lánsamur í lagi sínu, Sunday Morning Coming Down. Það fjallar um þunglyndan og einmana mann sem þarf að vera undir áhrifum vímuefna til að komast gegnum sunnudagana sína.

Billie Holiday er heldur ekki upplitsdjörf í laginu Gloomy Sunday enda greinilega búin að missa ástvin og englarnir hafa engin áform um að skila honum. „Fyki í þá ef ég hugleiddi að fara sömu leið?“ spyr hún blákalt.

Haldi einhver að Sunny Sunday með Joni Mitchell boði eitthvað betra er það misskilningur. Ég ræð ykkur eindregið frá því að lesa þann texta, ef þið hafið á annað borð áform um að njóta dagsins!

Léttara er yfir Freddie heitnum Mercury í Queen-slagaranum Lazing on a Sunday Afternoon en eftir erfiða og erilsama viku hlakkar hann alltaf til að gera vel við sig og slappa af á sunnudegi. Nánar tiltekið sunnudagseftirmiðdegi sem er heiðarleiki og dauðaraunsæi af hálfu meistarans. Hvaða rokkari er kominn á fætur fyrir hádegi á sunnudegi?

Steve Marriott í Small Faces lét líka allar heimsins áhyggjur lönd og leið síðdegis á sunnudögum í laginu fræga Lazy Sunday. Ekki veitti víst af enda kom kappanum illa saman við nágranna sína, svo sem fram kemur í texta lagsins. Enda berja óbermin á veggina hjá honum og hafa af honum grúvið.

Við getum haldið áfram á næstu opnu og þarnæstu, ef því er að skipta, en endum þetta á laginu Sunday Girl með Blondie, sem margir hafa ábyggilega verið farnir að bíða eftir. Hver var aftur kveikjan að því? Jú, köttur söngkonunnar Debbie Harry, sem hún kallaði Sunday Man, hvarf og við það streymdi sorg að vonum inn í hjörtu þeirra glókolla. Og Chris Stein tók upp gítarinn og samdi óð til loðna ferfætlingsins. Fallegt.