Hin dásamlega ópera Madama Butterfly hefur sannarlega verið vakin til lífsins hjá Íslensku óperunni en einhverjir eru æfir af lítilli ástæðu.
Hin dásamlega ópera Madama Butterfly hefur sannarlega verið vakin til lífsins hjá Íslensku óperunni en einhverjir eru æfir af lítilli ástæðu. — Ljósmynd/Anton Brink
Varðhundar ritskoðunar munu ótrauðir halda áfram ferð sinni um listaheiminn

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Árangursrík aðferð til að vekja athygli á listaverki er að gagnrýna það harðlega. Gagnrýnin þarf alls ekki að vera málefnaleg, hvað þá vitræn. Það er nóg að hafa hátt og um leið vita svo miklu fleiri en áður af verkinu. Allur sá hávaði kann mögulega að fella verkið, en svo getur það einnig gerst að vopnin snúist í höndum gagnrýnenda og almenningur umvefji verkið.

Einmitt þetta gerðist með uppsetningu Íslensku óperunnar á Madama Butterfly, sem slegið hefur í gegn hjá almenningi. Þar er að finna eina fegurstu óperutónlist sem samin hefur verið, uppsetningin er síðan vönduð og gerð af smekkvísi. Óperan gerist í Japan í gamla daga og búningar og förðun taka mið af því. Fæstir ættu að sjá vandamál í sambandi við það, ópera er nú einu sinni leikhús og í leikhúsi eru leikendur og söngvarar stöðugt að þykjast vera aðrir en þeir eru og til þess eru notaðir búningar og förðun.

Staðreyndin er hins vegar sú að við lifum í nútímasamfélagi þar sem einhverjir einstaklingar hafa tekið að sér það sjálfskipaða hlutverk að þefa uppi allt sem tortryggilegt þykir og setja á það neikvæðan stimpil. Sérlega vinsælt er að hrópa orðin fasismi og rasismi. Madama Butterfly hefur orðið fórnarlamb þessa.

Fyrst var fullyrt að í óperunni væri „yellowface“, að augum og húðlit hvítra leikara væri breytt til að kalla fram asísk útlitseinkenni. Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri hafnaði því alfarið. Þar með hefði umræðunni átt að vera lokið. En þá var fundið að förðun, búningum og hárkollum. Þrumað var að hér væri að eiga sér stað svokallað menningarnám. Þetta má skilja sem svo að þeir sem klæðast búningi eða eru í gervi persónu af öðrum uppruna en þeirra eigin séu sekir um rasisma. Þetta eru vondar fréttir fyrir leikhús og óperuhús, sem samkvæmt þessari skilgreiningu verða sjálfkrafa að rasistabæli. Sannarlega eru fjölmörg dapurleg dæmi um að förðun og gervi hafi verið notuð til skopast að fólki vegna uppruna þess, en það merkir ekki að sú sé sjálfkrafa raunin sé leikari farðaður eða í búningi persónu frá fjarlægum slóðum. Þarna skiptir höfuðmáli hvernig hlutirnir eru gerðir. Í uppsetningu Íslensku óperunnar er ekki verið að hæðast að neinum, enginn er niðurlægður.

Um allan heim eru leikarar og söngvarar í gervum. Í Japan hefur söngleikurinn Fiðlarinn á þakinu notið vinsælda og er reglulega settur upp með japönskum leikurum og söngvurum sem allir þykjast vera gyðingar. Samkvæmt skilgreiningu er þetta svívirðilegt menningarnám. Rödd skynseminnar segir að engin ástæða sé til að taka andköf af hneykslun vegna þessa. Það er hins vegar rík ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri ritskoðunarstefnu sem haldið hefur innreið sína víða um heim og einkennist af offorsi, ofstæki og þröngsýni. Allt minnir þetta á trúarhita þeirra sem telja sig hafa fundið hinn eina sanna sannleika og vei þeim sem mótmæla þeim. Á þá skal umsvifalaust skellt rasistastimplinum. Enginn vill fá þann stimpil og þess vegna þykir langflestum þægilegast að þegja, hafa hægt um sig og bíða í þeirri von að þessu fári linni. En því mun ekki linna ef allir kjósa annaðhvort að þegja eða hörfa undan í hræðslu og reyna að koma sjálfum sér til bjargar með frasakenndri afsökun eins og: „Fyrirgefið margfaldlega, ég skal sjá að mér, auðvitað er ég hluti af hvítri forréttindastétt sem veit ekki hvað hún er að tala um. Ó, ó, fyrirgefið mér enn og aftur.“

Það er illa fyrir okkur komið ef við ætlum að ritskoða gömul verk og hafna því alfarið að hlusta á þau, horfa eða lesa nema allt það sem er gamaldags og/eða getur hugsanlega talist vafasamt sé vandlega þurrkað út. Slík ritskoðun ber vott um andlega fátækt þeirra sem hana stunda.

Almenningur stendur með Íslensku óperunni í fáránlegum deilum sem er vonandi að ljúka. En varðhundar ritskoðunar munu ótrauðir halda áfram ferð sinni um listaheiminn og þefa uppi það sem þeir flokka sem ósóma og rasisma. Rasismi og ósómi finnst víða en ekki í fallegri uppsetningu á klassískri óperu.