Ferðamenn Halda á betur utan um tölfræði ferðaþjónustunnar.
Ferðamenn Halda á betur utan um tölfræði ferðaþjónustunnar. — Morgunblaðið/Eggert
Árstíðasveifla í ferðaþjónustunni hefur minnkað en hún er mismikil eftir landshlutum. Þetta má glöggt sjá í nýjum gagnagrunni, Mælaborði SAF. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um umsvif ferðaþjónustunnar á einum stað sem hafa til þessa verið á ýmsum …

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Árstíðasveifla í ferðaþjónustunni hefur minnkað en hún er mismikil eftir landshlutum. Þetta má glöggt sjá í nýjum gagnagrunni, Mælaborði SAF. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um umsvif ferðaþjónustunnar á einum stað sem hafa til þessa verið á ýmsum stöðum og því ekki hlaupið að því að fá yfirsýn yfir þær. Mælaborðið er sett fram á myndrænan hátt og er ætlað að auðvelda umræðuna um greinina og leggja grunn að því að betri ákvarðanir verði teknar um framtíðarþróun hennar.

Gögnin eru flokkuð eftir landshlutum og sveitarfélögum.

„Þannig að t.d. kjörnir fullltrúar í sveitarstjórnum geta farið inn á mælaborðið og fræðst um umsvif ferðaþjónustunnar í þeirra litla hagkerfi, þeirra sveitarfélagi. Borið það saman við önnur sveitarfélög, skoðað þætti eins og atvinnutekjur, skatttekjur sveitarfélagsins af ferðaþjónustu sérstaklega, hve margir vinna þar, hvað eru mörg fyrirtæki og í hvaða greinum þau eru, hver er rekstrarafkoma þeirra er og svo framvegis. Einnig skoðað fjölda gistinátta á svæðinu ásamt tölum um framboð og nýtingu á gistirými ásamt ýmsu öðru,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, SAF. Mælaborðið geti opnað augu fólks fyrir sóknarfærum sem voru ekki ljós fyrir.

Þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert en framkvæmdastjóri SAF segir að fram til þessa hafi mörg góð verkefni tafist vegna þess að fólk haf ekki verið sammála um tölurnar og jafnvel tími og orka farið í það að deila um gögn og tölur. Mælaboðið sé mikil framför og deilur um staðreyndir eigi nú að vera liðin tíð. Lykilupplýsingar um umsvif atvinnugreinarinnar sé nú að finna á einum stað.

Mælaborðið verður kynnt á ráðstefnu um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar í Hörpu 22. mars nk. Menningar- og viðskiptaráðuneytið í samstarfi við Ferðamálastofu og SAF standa að ráðstefnunni.

Höf.: Hörður Vilberg