Einstakt Ástin er gjarnan í loftinu hjá unga fólkinu á Þjóðhátíð í Eyjum.
Einstakt Ástin er gjarnan í loftinu hjá unga fólkinu á Þjóðhátíð í Eyjum. — Morgunblaðið/Ari Páll
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hátíðin verður haldin í sumar, það er alveg klárt mál. Við ætlum að fagna 20 ára afmæli Fiskidagsins á veglegan hátt. Það átti reyndar að vera gert árið 2020 en hefur ekki auðnast fyrr en nú,“ segir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Hátíðin verður haldin í sumar, það er alveg klárt mál. Við ætlum að fagna 20 ára afmæli Fiskidagsins á veglegan hátt. Það átti reyndar að vera gert árið 2020 en hefur ekki auðnast fyrr en nú,“ segir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík.

Nú þegar daginn er tekið að lengja eru margir landsmenn farnir að huga að sumrinu. Útlit er fyrir að ekki muni skorta viðburði til að sækja því um allt land er verið að leggja drög að bæjarhátíðum og ýmsum skemmtunum. Sem kunnugt er setti kórónuveirufaraldurinn strik í reikninginn í viðburðahaldi árin 2020 og 2021. Og í tilviki Fiskidagsins mikla, einhverrar fjölsóttustu hátíðar sem haldin er á Íslandi, varð ekkert úr hátíðarhöldum í fyrrasumar.

„Hátíðin verður með hefðbundnu sniði. Það verður fiskisúpukvöld á föstudeginum og sjálfur Fiskidagurinn mikli á laugardeginum milli klukkan 11 og 17. Þessa dagana er einmitt verið að vinna í nýjum matseðli og öðru slíku. Um kvöldið verða síðan stórtónleikar,“ segir Júlíus en Fiskidagurinn verður haldinn helgina 11.-12. ágúst.

Júlíus segir að undirbúningur sé og hafi verið í fullum gangi að undanförnu. Hann gangi vel og kveðst Júlíus telja að fólk sé afar spennt fyrir hátíðarhöldunum í ár. „Við erum í fjármögnun og slíku núna,“ segir framkvæmdastjórinn en samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar á umferð til og frá Dalvík er talið að um og yfir 30 þúsund manns hafi jafnan komið á Fiskidaginn.

Það eru ekki síst stórtónleikar að kvöldi Fiskidagsins sem trekkja. Ekkert er þar til sparað eins og áhorfendur sjónvarpsstöðvarinnar sálugu N4 fengu reglulega upprifjun á. „Friðrik Ómar verður sem fyrr höfuðpaurinn á tónleikunum. Það hvílir mikil leynd yfir framkvæmdinni, meira að segja ég fæ ekkert að vita um þetta,“ segir Júlíus.

„Salan fer vel af stað. Þetta er bara svipað og í fyrra,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, formaður þjóðhátíðarnefndar í Vestmannaeyjum.

Nýlega voru tilkynnt þrjú atriði sem verða í aðalhlutverki á Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina í ár. Þau eru Bríet, Stjórnin og Friðrik Dór, blanda sem ætti að henta fyrir breiðan hóp hátíðargesta. Jónas segir að sala á hátíðina fari alltaf vel af stað fyrstu dagana og svo komi kippir í hana þegar fleiri listamenn eru kynntir til leiks. „Ég reikna með að það verði núna á næstu tveimur vikum,“ segir hann aðspurður um næstu tilkynningu.

Algengt er að 12-14 þúsund gestir komi á Þjóðhátíð ár hvert. Þótt Herjólfsdalur rúmi mun fleiri takmarkast gestafjöldi við þann fjölda sem unnt er að flytja milli lands og Eyja. Þjóðhátíðargestir eru á öllum aldri og af þeim sökum verður dagskráin að vera afar fjölbreytt. Jónas segir að sú verði raunin nú sem fyrr. „Það verður þannig áfram. Við verðum með eitthvað fyrir alla, allt frá krökkum og upp í fullorðna. Það fá allir eitthvað fyrir sig.“

Varðveita galdurinn

Miðasala á tónlistarhátíðina Bræðsluna, sem haldin verður 29. júlí á Borgarfirði eystra, hófst um síðustu helgi. Að sögn Áskels Heiðars Ásgeirssonar, annars Bræðslustjórans, fór hún vel af stað og hafði rúmlega helmingur miða selst í byrjun vikunnar.

„Við setjum 900 miða í sölu. Það höfum við gert síðan 2008 og alltaf selt þá upp. Þetta er sá fjöldi sem við teljum að bæði húsið og fjörðurinn rúmi til að hægt sé að varðveita þann galdur sem þarna verður til,“ segir Heiðar.

Meðal þeirra sem koma fram í ár eru Maus, Bríet, Laddi og Una Torfa. Þetta verður í 18. skiptið sem Bræðslan er haldin og segir Heiðar að ánægjulegt sé að fólk sem kom þangað sjálft sem krakkar sé nú farið að koma með eigin börn á hátíðina. „Við höfum alltaf verið ánægð með gestina en ekki síður þær viðtökur sem þeir fá hjá heimafólki,“ segir hann.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon