Helga Gröndal er 93 ára en finnst hún ekki gömul. Hún hefur átt viðburðaríka og góða ævi.
Helga Gröndal er 93 ára en finnst hún ekki gömul. Hún hefur átt viðburðaríka og góða ævi. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta var eina blaðið af viti. Það voru auðvitað Tíminn og Þjóðviljinn en við vorum ekki vinstrisinnuð og keyptum bara Moggann. Og höfum aldrei sagt honum upp!

Hún er sannkölluð Reykjavíkurmær, eða kannski væri við hæfi að tala um Reykjavíkurdömu, því Helga Gröndal er komin á tíræðisaldur og man tímana tvenna. Jafnvel þrenna ef því er að skipta! Helga, sem er fædd 1930, varð á vegi blaðamanns einn góðan veðurdag í Kringlunni og tókum við tal saman. Þar kom í ljós að þar fór dyggur áskrifandi Morgunblaðsins, og það í yfir 70 ár, hvorki meira né minna, allt frá árinu 1952 þegar Helga var ung kona að hefja búskap. Svo tryggur lesandi er ekki á hverju strái þannig að úr varð að hittast betur og heyra hvað á daga Helgu hefur drifið í þessa tæpu öld sem hún hefur lifað. Að sjálfsögðu verður stiklað á stóru, enda frá mörgu að segja þegar horft er yfir farinn veg.

Stelpan hún Vigdís

Helga er fædd og alin upp í hjarta miðborgarinnar, á Bergstaðastræti 79 þar sem faðir hennar, verkfræðingurinn Benedikt Gröndal, byggði hús handa fjölskyldunni.

„Ég er er sú eina af börnunum sem er fædd í húsinu,“ segir Helga og býður upp á kaffi og Anthon Berg-konfekt í huggulegri íbúð sinni í Grafarvogi.

„Við vorum fimm systkinin og mamma var heimavinnandi eins og tíðkaðist þá, en hún hafði fengið að fara í eitt ár til Frakklands þegar hún var ung. Þar lærði hún frönsku, en þetta var ekki algengt á þeim árum. Hún hélt frönskunni vel við og var alltaf með franska bók á náttborðinu,“ segir Helga og segir hana hafa talað frönsku reiprennandi eins og kom sannarlega í ljós þegar mæðgurnar fóru í Parísarferð saman.

„Það var yndislegt að alast upp í miðbænum,“ segir Helga sem gekk menntaveginn og fór alla leið í Menntaskólann í Reykjavík, en á þeim árum var það ekki sjálfgefið fyrir stúlkur.

„Ég var í mjög frægum árangi, 1949. Strákarnir voru svo spurðir eftir stúdentspróf hvað þeir ætluðu að læra en þetta þótti nógu fín menntun fyrir stelpur. Við áttum bara svo að fara að vinna á skrifstofum og gifta okkur. Við vorum fjórar sem fórum svo til útlanda; Ragnhildur Helgadóttir, Svava Jakobsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir og ég,“ segir Helga og segir að af fjórtán sem voru saman í saumaklúbbi séu aðeins tvær aðrar enn á lífi; Vigdís og Sólveig Pálmadóttir.

Helga segir þær vinkonurnar hafi heldur betur verið ánægðar þegar Vigdís varð forseti, en allar hjálpuðu þær til í kosningabaráttunni.

„Pabbi, sem var dálítið gamaldags, sagði bara: „Stelpan hún Vigdís, ætlar hún að verða forseti?“ En svo þegar hún bauð sig fram aftur spurði ég pabba hvað hann ætlaði að kjósa og hann svaraði: „Auðvitað kýs ég Vigdísi, hún er svo frábær!“,“ segir Helga og hlær.

Langaði að verða blaðamaður

Helga fór til Los Angeles í háskólanám, en mátti aðeins vera þar í eitt ár.

„Á þessum tíma var ægilegur sparnaður í gangi. Þegar ég fór út átti ég stúdentsdraktina mína, eitt pils og eina peysu. Ameríska stelpan sem ég var sett í herbergi með átti heilan skáp af fötum! Hún spurði mig hvenær flutningabíllinn minn kæmi en ég sagðist nú bara vera með þessa einu litlu tösku; það væri kreppa í landinu þar sem ég byggi. Á Íslandi var allt skammtað og ég mátti þakka fyrir að fá efni í stúdentsdraktina,“ segir hún.

„Það átti að kosta bróður minn til verkfræðináms en það voru ekki til peningar til að kosta okkur stelpurnar í meira en ár, en þá voru engin námslán í boði. Ég hélt að ég mætti halda áfram fyrst ég var byrjuð, en fékk ekki. Ég skrifaði pabba og bað um að vera lengur en þetta ár voru þrjár gengisfellingar og það var of dýrt,“ segir hún og segir þetta ár hafa verið mikið ævintýri, en eftir árið þar fór hún í húsmæðraskóla til Noregs í ár.

„Mig langaði að verða blaðamaður en það varð ekkert úr því og eftir að ég kom heim frá útlöndum fór ég að vinna í Útvegsbankanum og gifti mig, en maðurinn minn, Sveinn Björnsson, var akkúrat búinn með sitt nám frá Bandaríkjunum þar sem hann lærði iðnaðarverkfræði.“

Það eiga allir litasjónvarp!

Hjónin eignuðust fimm börn og í dag á Helga fjórtán barnabörn og 24 barnabarnabörn. Á árunum sem þau hjón voru að koma undir sig fótunum og byrja sinn búskap var tíðarandinn allt annar en nú.

„Það var ekkert sjónvarp og svo þegar það kom var ekki útsending á fimmtudögum. Þegar litasjónvarpið kom vorum við ekkert að skipta, en strákurinn minn spurði þá hvort við værum það fátæk að geta ekkert keypt litasjónvarp. „Það eiga allir litasjónvarp!“ sagði hann,“ segir hún og hlær.

„Maðurinn minn byggði húsið okkar; hann fór bara úr fínu fötunum eftir vinnu í gallann og fór að vinna í húsinu og elstu krakkarnir með. Það var þannig á þessum tíma; það var ekkert verið að fá einhvern verktaka úti í bæ heldur gerðum við þetta sjálf. Maðurinn minn teiknaði húsið sjálfur líka og fékk svo tæknifræðing til að skrifa upp á. Það var enginn ríkur og það var yndislegt að byrja smátt og eignast svo sitt eigið hús.“

Hafði aldrei haldið á orfi

Nú ertu sannkallað borgarbarn, fórstu aldrei í sveit?

„Jú, þegar ég var fjórtán og systir mín sextán vildum við gerast kaupakonur. Ég lenti á torfbæ sem var hryllingur; það er ekki hægt að lýsa því! Við systurnar fórum með gamalli rútu austur í Hreppana og ég fór þar inn í bæinn. Þarna voru átta börn og von á því níunda. Ég man ég hugsaði; hvar á ég eiginlega að sofa? Það var þarna ein baðstofa og eitt svefnherbergi og börnin sváfu bara uppi í rjáfri einhvers staðar,“ segir Helga sem segist fyrst hafa átt að sofa uppi í hjá gamalli kerlingu.

„En bóndinn sagði að það væri ekki hægt að láta borgardömu sofa þar,“ segir hún og hlær.

„Mér létti svo, guð minn góður,“ segir hún.

„Mér var pískað út, og strák sem var þarna, en maðurinn á bænum fór til Svíþjóðar í heilauppskurð og við áttum að heyja fyrir veturinn. Ég hafði aldrei haldið á orfi, aldrei! En þetta var góð reynsla og ég er enn með ör á puttanum þegar ég tók hann næstum af mér,“ segir hún og brosir að minningunni.

„Frúin gat ekkert gert, enda með átta börn og alveg að fara að eiga,“ segir hún og segir veruna þar martröð líkasta.

„Þegar þurfti að þvo þvott var farið á hestum að Flúðum til að þvo þar í hverunum og var það gert kannski tvisvar á þessum tveimur mánuðum sem ég var þarna.“

Var hægt að fara í bað?

„Nei, aldrei. Og þegar ég spurði hvar klósettið væri var svarið: „Hér notum við bara móana eða fjósið.“ Ég sver það, það var ekki einu sinni kamar inni. Systir mín lenti á miklu betri bæ þar sem var timburhús, allt hreint og fínt og bara hjón með eitt barn. En henni leist ekkert á ástandið hjá mér og skrifaði mömmu og pabba, en þá var enginn sími. Hún sagði þeim að þau yrðu bara að koma að ná í mig. En ég var svo stolt að ég vildi ekki segja neitt og lét mig bara hafa þetta.“

Tvö barnanna komin á eftirlaun

Þegar börn Helgu voru komin á legg fór Helga að vinna á Borgarspítalanum sem læknaritari og síðan sem skrifstofustjóri hjúkrunarforstjóra og vann hún þar alls í 25 ár.

„Ég þekkti spítalann út og inn og þekkti alla,“ segir hún, en um sama leyti og hún fór á eftirlaun, lést eiginmaður hennar, 73 ára gamall.

„Hann fékk MND, en hafði fram að því aldrei verið veikur. Við ætluðum að fara að hafa það gott á eftirlaunum þegar hann lést, en hann var orðinn ansi veikur en mig grunaði ekki að hann væri að fara að deyja. Þetta er erfiður sjúkdómur.“

Helga segir tíðarandann mikið breyttan frá því hún var ung.

„Þegar unga fólkið talar þá bara þegi ég,“ segir hún og hlær.

Bjóstu við því að þú myndir lifa fram á tíræðisaldur?

„Að ég yrði eilíf?“ segir hún og hlær.

„Nei, ekki aldeilis. Eldri systir mín er 97 ára og yngsta systirin er á lífi, en tvö eru dáin af systkinunum,“ segir hún og segist vera nokkuð heilsuhraust, þótt sér finnist oft erfitt að muna nöfn.

„Elsta barnið mitt verður sjötugt í sumar og tvö þeirra eru komin á eftirlaun. Litlu börnin mín, tvíburarnir, eru 57 ára,“ segir Helga og hlær.

„Á sunnudögum koma alltaf börnin mín og einn sonur minn bakar vöfflur eða pönnukökur. Þau eru yndisleg og koma alltaf! Og á föstudögum förum við mægður alltaf í bæinn á kaffihús og að útrétta. Ég er óskaplega heppin með börn.“

Finnst þér þú vera orðin gömul?

„Nei, mér leiðist eiginlega gamalt fólk,“ segir hún og skellihlær.

„Það á ekki að segja svona, þetta er nú bara grín. En mér líður ekki eins og ég sé gömul; ég er bara ég, en veit auðvitað að ég er með einhverja kvilla,“ segir Helga og segist njóta þess mjög að fara í Múlabæ tvo daga í viku þar sem hún hittir annað eldra fólk, fer í leikfimi og göngutúra.

Þáðu far með blaðamönnum

Þú nefndir að þú hefðir viljað verða blaðamaður, hafðir þú alltaf áhuga á fréttum?

„Já, ég hafði það. Þegar ég var í námi í Los Angeles fórum við eitt sinn tvær vinkonur í ferðalag til San Francisco. Við tókum lest til baka og á lestarstöðinni hittum við tvo unga menn sem spurðu hvort þeir ættu að keyra okkur heim í skólann,“ segir Helga og segir þær stöllur hafa samþykkt það.

„Ég myndi aldrei gera þetta í dag! Ég veit ekki hvað ég myndi segja við börnin mín ef þau myndu þiggja svona!“ segir hún og brosir.

„Vinkonan var efins og spurði hvort við ættum í alvöru að fara með þessum ókunnugu mönnum. Ég sagði að við ættum að fara með þeim; við myndum fá frítt far og spara okkur leigubíl. Þeir reyndust vera blaðamenn. Á leiðinni þurftu þeir að fara að bruna til að skoða, en þeir ætluðu að skrifa grein um hann í blað,“ segir Helga og segir þau hafa komið við þar sem hús var að brenna.

„Ég varð svo spennt! Ég hugsaði þá að þetta langaði mig að læra. Þetta var svo ævintýralegt. Ef pabbi hefði leyft mér að halda áfram í námi, hefði ég farið í blaðamennsku.“

Lucy Ball og Íranskeisari

Þú hefur ekki rekist á einhverjar Hollywood-stjörnur eða önnur fyrirmenni?

„Jú, ég gerði það. Það var þannig að pabbi minn var Rotary-maður og hann hafði haft samband við forseta Rotary í Los Angeles sem var kvikmyndajöfur. Þá var íslensk vinkona mín komin út og hann bauð okkur út að borða. Hann kom á limúsínu og sótti okkur og við fórum á fínasta hótelið í borginni; hótelið þar sem Robert Kennedy var drepinn löngu síðar,“ segir hún, en umrætt hótel heitir Ambassador Hotel.

„Mér fannst þetta alveg eins og í ævintýri. Hann bauð okkur svo líka á settið á þætti sem var verið að taka upp og þar voru Lucille Ball og ýmsir aðrir leikarar,“ segir Helga og segist einnig muna vel eftir að hafa hitt þáverandi Íranskeisara.

„Ég kynntist tveimur strákum frá Íran í partíi í skólanum. Þeir buðu mér með sér út að borða eitt kvöldið á fínasta hótel Los Angeles. Á næsta borði sat keisarinn með systur sinni, en þá var hann nýskilinn við konuna sína. Einn af strákunum þekkti hann, en það var auðvitað bara ríkt fólk sem hafði efni á að senda börn sín til menntunar í Los Angeles. Hann fór með mig til hans og kynnti mig fyrir honum; þeir vildu endilega að ég myndi hitta hann. Þetta var rosalega fínt fólk og ég var gapandi, skólastelpan. Ég passaði ekki beint inn í selskapinn! Þetta var mikil upplifun,“ segir Helga og segist eftir það alltaf hafa fylgst vel með þegar keisarinn birtist í fréttum í sjónvarpinu.

Vil lesa blaðið með morgunkaffinu

Talið víkur að Morgunblaðinu; blaði sem Helga þekkir betur en margur annar!

„Við hjónin vorum áskrifendur alveg frá því að við giftum okkur árið 1952. Mamma og pabbi voru líka alltaf áskrifendur og okkur fannst það sjálfsagt að halda því áfram. Þetta var eina blaðið af viti. Það voru auðvitað Tíminn og Þjóðviljinn en við vorum ekki vinstrisinnuð og keyptum bara Moggann. Og höfum aldrei sagt honum upp!“ segir Helga og segist vilja fá sitt blað á morgnana.

„Ég vil hafa blaðið í höndunum með morgunkaffinu. Ég hef fylgst vel með og les allt sem þú skrifar!“ segir Helga og blaðamaður þakkar vel fyrir það.

Hvað er það helst sem vekur áhuga þinn í Mogganum?

„Ég les allar fréttirnar og fylgist afskaplega vel með alþjóðamálunum. Svo allt sem er skemmtilegt; allt sem er í Sunnudagsblaðinu. Ég les þetta allt saman. Svo er ég að ráða krossgátuna og það getur tekið mig hálfa vikuna. Þær eru orðnar svolítið erfiðar núna og oft koma fyrir orð sem eru ekki einu sinni í orðabók!“ segir hún.

„Það er auðvitað uggvænlegt ástand í heiminum; alveg hræðilegt. Það er mikið af neikvæðum fréttum og mætti vera meira af því jákvæða.“

Tekur Viðhaldið út að ganga

Við förum að slá botninn í viðtalið en talið víkur að kórónuveirunni.

„Ég fékk Covid en varð ekkert voðalega mikið veik; ég er bara svona hraust. Ég er núna búin að fá fimmtu sprautuna,“ segir Helga og hlær.

Helga hefur sjaldan þurft að leggjast inn á spítala, en þarf að ganga með göngugrind sem hún kallar Viðhaldið.

„Ég er með gigt og það verður bara að hafa það. Það er ekki hægt að búast við að það sé ekkert að manni þegar maður er svona gamall,“ segir Helga og segist aldrei hafa brotnað og ekki þurft á liðskiptum að halda.

„Ég þarf ekkert að kvarta og lifi góðu lífi. Ég fer í leikhús með börnunum mínum og út að borða og allt mögulegt. En ég er hætt að fara til útlanda því ég er með svo mikla riðu að ég gæti dottið og þá er ég bara til trafala fyrir hina,“ segir Helga og segir sjónina alltaf aðeins að versna.

„Ég fer til augnlæknis tvisvar á ári og hann segir alltaf: „Já, já Helga mín, sjónin er ekkert að skána heldur aðeins að versna.“ Ég ætla bara að hætta að fara,“ segir hún og hlær dátt.

„Á daginn horfi ég á sjónvarp og kíki í tölvuna og fer svo út með Viðhaldið,“ segir hún kímin.

Hvað hugsarðu þegar þú horfir til baka yfir langa ævi?

„Ég hef átt mjög góða og viðburðaríka ævi og verið mjög heppin að öllu leyti í mínu lífi. Ég hef átt óskaplega góðar vinkonur og yndislega fjölskyldu.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir