Fulltrúar fyrirtækja í nágrenni gatnamóta Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar funduðu í gær með fulltrúum Reykjavíkurborgar vegna áforma borgaryfirvalda um breytingar á umræddum gatnamótum. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu í vikunni á…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Fulltrúar fyrirtækja í nágrenni gatnamóta Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar funduðu í gær með fulltrúum Reykjavíkurborgar vegna áforma borgaryfirvalda um breytingar á umræddum gatnamótum. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu í vikunni á meðal annars að fella niður aðra af tveimur vinstri beygjuakreinum frá Kleppsmýrarvegi til suðurs inn á Sæbraut. Þar fara vöruflutningar um frá ýmsum stórfyrirtækjum og myndast gjarnan teppur á álagstímum.

Rætt var við Árna Stefánsson forstjóra Húsasmiðjunnar í blaðinu í gær og sat hann fundinn ásamt fleirum. Fulltrúar borgarinnar voru borgarfulltrúarnir Alexandra Briem og Einar Þorsteinsson og Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir samgöngustjóri. Segir Árni að fulltrúar fyrirtækjanna hafi ekki fyllst bjartsýni eftir fundinn, sem fyrirtækin óskuðu eftir, en fram að honum hafði ekkert samráð verið haft við þau.

„Á fundinum hafði Einar Þorsteinsson skilning á áhyggjum okkar af áhrifum þess að loka annarri beygjuakreininni. Lofaði hann því að þau myndu kanna málið betur og svara okkur, þessum fulltrúum fyrirtækja með starfsemi á svæðinu, formlega. Það olli okkur vonbrigðum að samgöngustjóri borgarinnar lýsti því yfir að hún myndi ekki breyta þeirri ákvörðun að loka beygjuakreininni nema slíkt kæmi frá pólitíkinni, jafnvel þó að göngubrú væri í bígerð. Alexandra Briem virtist einnig á sömu skoðun og lítið var gefið fyrir þau rök að aðeins eitt slys hefði orðið á óvörðum vegfaranda þarna á 11 ára tímabili,“ segir Árni.

Nú þegar teppa á umferð

Hann segir að sú tillaga hafi komið fram á fundinum að takmarka umferð úr Skeiðarvogi á ákveðnum tímum á móti umferð á beygjuakreininni og það hafi borgin verið tilbúin að skoða.

„Við getum því ekki sagt að við séum bjartsýn á að ekki verði ráðist í þessa slæmu og ókynntu breytingu en erum sannfærð um að verði af henni muni allir hagaðilar sjá hversu slæm hún er. Enda blasa staðreyndirnar við að nú þegar er þarna teppa, þrátt fyrir tvær beygjuakreinar,“ segir Árni Stefánsson.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon