Þrjátíu Ólafur Ólafsson átti stórleik með Grindavík, skoraði 30 stig og tók 12 fráköst, og tekur hér eitt frákastanna í Smáranum.
Þrjátíu Ólafur Ólafsson átti stórleik með Grindavík, skoraði 30 stig og tók 12 fráköst, og tekur hér eitt frákastanna í Smáranum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Línurnar eru farnar að skýrast í efstu deild karla í körfubolta en 20. umferð lauk í gærkvöldi með tveimur leikjum. Tvær umferðir eru eftir og enn er gífurleg spenna í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni, en ljóst er að eitt lið mun sitja eftir með sárt ennið

Körfuboltinn

Aron Elvar Finnsson

aronelvar@mbl.is

Línurnar eru farnar að skýrast í efstu deild karla í körfubolta en 20. umferð lauk í gærkvöldi með tveimur leikjum. Tvær umferðir eru eftir og enn er gífurleg spenna í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni, en ljóst er að eitt lið mun sitja eftir með sárt ennið.

Grindvíkingar heimsóttu Breiðablik í Smárann í Kópavogi og unnu þar góðan sigur, 112:103. Liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og var 17 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta. Heimamenn minnkuðu muninn þó hægt og rólega og komust yfir þegar um sex mínútur voru eftir. Grindvíkingar, með Ólaf Ólafsson fremstan í flokki, reyndust hins vegar sterkari á lokamínútunum og unnu góðan sigur.

Ólafur var stigahæstur Grindvíkinga í leiknum með 30 stig og 12 fráköst en Julio De Assis var stigahæstur Blika með 23 stig.

Dramatík í Þorlákshöfn

Í Þorlákshöfn lagði Þór svo Tindastól í framlengdum leik, 93:90, þar sem dramatíkin var allsráðandi. Leikurinn var gífurlega spennandi allan tímann og var staðan 83:83 að loknum venjulegum leiktíma.

Í framlengingunni voru það svo Þórsarar sem reyndust sterkari en þar munaði mestu um gífurlegt öryggi Vincent Malik Shahid á vítalínunni á ögurstundu.

Tindastóll fékk tvö þriggja stiga skot til að jafna metin í lokin en þau geiguðu bæði og lokatölur því 93:90.

Shahid var stigahæstur í liði Þórs í leiknum með 23 stig og níu stoðsendingar en Styrmir Snær Þrastarson kom næstur með 20 stig. Hjá Tindastóli var Antonio Keyshawn Woods frábær en hann skoraði 34 stig.

Grindavík í góðum málum

Grindvíkingar eru í mjög góðum málum í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en liðið er í sjötta sæti með 20 stig. Þór er þar á eftir með 18 stig og Stjarnan og Breiðablik eru í 8. og 9. sæti með 16 stig þegar tvær umferðir eru eftir.

Það er því enn tölfræðilegur möguleiki að öll fjögur liðin endi með 20 stig og þá þarf að reikna innbyrðis árangur þeirra, en gerist það ekki eru Grindvíkingar öruggir í úrslitakeppnina.

Tindastólsliðið er hins vegar svo gott sem búið að missa af heimaleikjarétti en liðið er með 22 stig í fimmta sæti, fjórum stigum færra en Haukar og Keflavík.

Höf.: Aron Elvar Finnsson