Ég las fyrir nokkru upphátt Sjálfstætt fólk og Brekkukotsannál fyrir ömmu og afa á kvöldin, öllum til ánægju. Annars les ég sjálfur helst fræðibækur eða greinar um félags- og stjórnmálafræði. Núna held ég mikið upp á Hér er kominn gestur eftir Þórð Tómasson
Fyrir örfáum árum stofnuðu bekkjarsystkin mín úr tónsmíðadeild Listaháskólans, ásamt mér öðrum vinum, leshóp þar sem við höfðum til húslesturs ýmsa texta um tónlist og heimspeki, til dæmis lásum við úr bók Þórðar Magnússonar Sonic Writing: Technologies of material symbolic and signal inscriptions. Þá kom upp á borðið bókin Intelligence and Spirit eftir Reza Negarestani og var ætlunin að lesa hana í heild sinni. Fljótlega varð þó öllum ljóst að bókin gerði allmiklar forkröfur til þekkingar á rökgreiningu og heimspeki Kants og Hegels sem okkur skorti að mestu leyti. Leshópurinn hefur í kjölfarið sett sér það mark að klóra sig í gegnum krítíska heimspeki frá Kant allt til Heideggers og Cassiers. Tími töframanna eftir Wolfram Eilenberger í þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar hefur þar reynst mér vel.
Nú er ég að lesa Verufræði Björns Þorsteinssonar. Ég vissi áður af höfundinum vegna íslenskrar þýðingar hans á frönskum „jaðarbókmenntum“, sem ég hef reyndar ekki lesið enn. Sú þýðing varð til í kringum leshring, og var það m.a. innblástur þess að vinhópur minn stofnaði sinn leshóp. Þegar ég heyrði fyrst af íslenskri bók um verufræði datt mér í hug að hér væri um skólaspekingslega útlistun á frumforsendum metaphysica generalis að ræða; en stíll Björns er þvert á móti lipur og oft persónulegur. Yfirbragð Verufræðinnar er leitandi nálgun að efninu og bókin hrífandi kynningarrit fyrir áhugamenn um drottningu vísindanna.
Nýlega var haldið upp á 50 ára afmæli þjóðfélagsfræðideildar Háskóla Íslands. Ég er að lesa nokkrar íslenskar bækur um félagsfræði. Ein þeirra er Íslensk félagsfræði - Landnám alþjóðlegrar fræðigreinar í ritstjórn Þórodds Bjarnarsonar og Helga Gunnlaugssonar og með upplýsandi formála eftir Jóhannes heitinn Nordal. Bókin er áhugavert og heildstætt yfirlit yfir íslensk félagsvísindi, þar á meðal lýðfræði og kynjafræði, eins og þau hafa þróast hér landi, en bókin verður bráðum 20 ára. Ný samantekt á þessu fræðasviði væri því velkomin.