Höskuldur Ólafsson
hoskuldur@mbl.is
Ég sló á Zoom-þráðinn þar sem þau sátu baksviðs í belgísku borginni Liege eftir hljóðprufu fyrir upphitunartónleika sem fram fóru um kvöldið. Tveimur dögum seinna eða 11. mars hófst Evróputúrinn í Brussel en honum lýkur svo með tónleikum í Union Chapel í London hinn 31. mars. Líege ber einkunnarorðin „hin ákafa borg“ og þau Emilíana og Aarich Jespers virtust svo sannarlega áköf í að hefja hljómleikaferðina enda hátt í fimm ár síðan The Colorist Orchestra og Emilíana léku síðast saman fyrir áhorfendur.
Einstök popptónlist
„Við vitum ekkert á hverju við eigum von. Hverjir koma eða hvaða viðbrögð við fáum. Líf fólks umturnaðist í Covid … okkar líf umturnaðist í Covid og það er dálítið eins og við séum komin aftur á byrjunarreit,“ segir Emilíana og Jespers tekur heilshugar undir og bætir við að samstarf þeirra sé fyrst og fremst fólgið í því að koma fram.
„Plöturnar eru þarna og þær standa fyrir sínu en tilgangurinn með okkar samstarfi er að koma fram á sviði og snerta við fólki með lifandi hljóðfæraleik og söng. Við erum ótrúlega spennt en líka dálítið stressuð.“
The Colorist Orchestra var stofnuð í Belgíu árið 2013 af þeim Aarich Jespers og Kobe Proesmans með þá hugmynd að leiðarljósi að afbyggja og endurhugsa popptónlist með hjálp gestasöngvara og -söngskálda og óhefðbundinnar hljóðfæraskipanar. Í dag telur hljómsveitin átta meðlimi sem leika á allt frá víólu til flapömbu og áhrifavaldarnir framúrstefnurisar á borð við Kronos Quartet, Talking Heads, Moondog og Harry Partch.
Flúðu Flateyri
Tónlistarkonurnar Sumie Nagano og Cibelle störfuðu með The Colorist Orchestra árið 2014 en 2015 hófst samstarf Emilíönu og sveitarinnar sem gat af sér plötu árið 2016, The Colorist & Emiliana Torrini þar sem þau flytja eldri lög Emilíönu í nýjum útsetningum. Sú plata fékk víðast hvar glimrandi dóma og staðfesti með ótvíræðum hætti að Emilíana er afburðagóður lagahöfundur. Samstarf sveitarinnar með öðrum listamönnum á borð við Howe Gelb tók svo við árin þar á eftir og nú var svo komið að plötu númer tvö, Racing The Storm sem var tekin upp í Covid með tilheyrandi flækjustigum og fjarfundabúnaði. Breiðskífan kom út í gær á helstu streymisveitum en einnig er hún fáanleg á vínil. Það er breska plötuútgáfan Bella Union sem gefur út en þar á mála eru m.a. Father John Misty, Beach House, John Grant og fleiri.
Ég bið þau að útskýra fyrir mér titilinn.
„Hann vísar til þess að mér virðast fylgja stormar hvert sem ég fer,“ segir Emilíana og hlær.
„Það skall meira að segja blindbylur á í Belgíu um leið og ég lenti. Þrumur og eldingar síðast þegar við hittumst og ég veit ekki hvað og hvað. En sem sagt, við vorum á Flateyri að vinna við lagasmíðar og upptökur og höfðum verið mjög heppin með veður. En undir lok vinnuferðarinnar vöknuðum við einn daginn og komum auga á appelsínugulan skýjabakka við sjóndeildarhringinn sem nálgaðist Flatey hratt þannig að við ákváðum að pakka saman og keyra í bæinn svo við yrðum ekki innlyksa. Í kappakstrinum við storminn alla leið í bæinn varð textinn að titillaginu til.“
Aarich Spielberg leikstjóri
Talið berst að tónlistarmyndböndunum sem út eru komin fyrir þrjú lög af plötunni, „Right Here“, „Mikos“ og „Hilton“. Hvert öðru betra og ég spyr hver eigi heiðurinn af þeim og hver heimspekin sé að baki. Emilíana bendir á Aarich Jespers og segir: „Við létum smíða leikstjórastól sem á stendur Aarich Spielberg. Málið var að við höfðum úr mjög litlum peningum að moða fyrir myndbandsgerð þannig að Aarich ákvað bara að taka þetta að sér.“
Hann segir að þetta hafi bara byrjað sem tilraun og hann hafi alls ekki verið öruggur um að hún myndi takast. „Ég hafði mjög gaman af þessu. Ég bý að listaháskólanámi mínu og ég hef komið að leikhúsuppfærslum og kvikmyndum áður þannig að ég er ekki alveg grænn á bak við eyrun. Í hugmyndaferlinu kom í ljós að við vorum öll á sömu blaðsíðu hvað varðar smekk á kvikmyndum, myndlist, leikhúsi, dansi og í raun allri fagurfræði. Um leið og við ákváðum að kalla plötuna Racing The Storm fór í hönd vinna við að hanna umslagið og þá spruttu fram margar hugmyndir sem við nýttum okkur síðan við myndbandsgerðina.“
„Myndböndin lýsa okkar samstarfi mjög vel, bæði tónlistinni og því sem við bjóðum upp á á tónleikum,“ skýtur Emilíana inn í. „Mikil gleði og leikur.“
Evróputúrinn 2023
11. mars: Brussel – Ancienne
Belgique
17. mars: Hamborg, Elbphil-
harmonie
19. mars: Frankfurt, Zoom
20. mars: Berlín, RBB
Sendesaal
22. mars: Schorndorf,
Manufaktur
23. mars: München, Muffathalle
24. mars: Freiburg, Fri-SoN
25. mars: Maastricht, Muziek-
gieterij
28. mars: Amsterdam, Paradiso
29. mars: Antwerpen, De Roma
30. mars: Ghent, De Handels-
beurs
31. mars: London, Union
Chapel