Ungamamma Rakel er alltaf með vettlinga á sínum köldu höndum. Hér er hún með fallegan vettling til skjóls, en þó enn fallegri æðarunga í fanginu og á eftir henni rölta þeir þrjátíu æðarungar sem hún kom á legg í fyrra.
Ungamamma Rakel er alltaf með vettlinga á sínum köldu höndum. Hér er hún með fallegan vettling til skjóls, en þó enn fallegri æðarunga í fanginu og á eftir henni rölta þeir þrjátíu æðarungar sem hún kom á legg í fyrra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á ferðum mínum um bæinn hefur mér alltaf þótt bagalegt að horfa upp á alla þessa stöku vettlinga sem ég geng fram á, ég fæ smá verk fyrir brjóstið, svo ég ákvað loks að gera eitthvað í þessu,“ segir myndlistarkonan Rakel Steinarsdóttir sem tók …

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Á ferðum mínum um bæinn hefur mér alltaf þótt bagalegt að horfa upp á alla þessa stöku vettlinga sem ég geng fram á, ég fæ smá verk fyrir brjóstið, svo ég ákvað loks að gera eitthvað í þessu,“ segir myndlistarkonan Rakel Steinarsdóttir sem tók sig til og stofnaði síðu á fésbók þar sem fólki gefst kostur á að setja inn myndir af stökum töpuðum eða fundnum vettlingum og hönskum sem það gengur fram á, og láta fylgja með upplýsingar um staðsetningu, ef vera mætti að handskjólið fyndi eiganda sinn. Síðan heitir Stakir vettlingar/Single gloves og er eðli málsins samkvæmt öllum opin.

„Ég minnist þess að hafa um tíma séð staka vettlinga setta upp á forláta járnhlið neðarlega á Laugaveginum, skáldkonan Elísabet Jökulsdóttir átti frumkvæði að því og hún er því með einhverjum hætti fyrirmynd mín í þessu. Í janúarkuldanum í blábyrjun þessa árs rakst ég á enn einn fallega ullarvettlinginn, sem einhver hafði sett á staur beint utan við heimili mitt, sjálfsagt til að auka líkur á að eigandi myndi finna hann. Þá gat ég ekki setið aðgerðalaus lengur og stofnaði þessa síðu, sem verður vonandi sjálfbær og parar saman að nýju vettlinga sem hafa aðskilist. Þessi síða getur þá verið miðlægur vettvangur fyrir tapaða vettlinga í borginni,“ segir Rakel og bætir við að fyrrnefndur fallegi vettlingur sem hún fann utan við heimili sitt hafi verið í nágrenni Ráðhúss Reykjavikur.

„Ég ætla að fara þangað með körfu fyrir þessa einmana einstaklinga, þeir geta þá að minnsta kosti haft félagsskap hver af öðrum þar til tvífari kemur í leitirnar. Ég trúi ekki öðru en að það verði auðsótt mál að hafa vettlingakörfu í ráðhúsinu, því þá geta allir sem ganga fram á staka vettlinga eða hanska farið með þá í þessa óskilakörfu. Þeir sem ekki nenna því eða þurfa að fara of langt til þess geta tekið mynd af stökum vettlingi og sett inn á fébókarsíðuna og sagt hvar hann er og helst koma honum þannig fyrir að hann sjáist vel og sé ekki fótum troðinn. Ef allir eru svolítið meðvitaðir og taka ábyrgð og láta vita af vettlingi, þá ætti að vera hægt að para saman fjölda stakra vettlinga.“

Alúð býr í fögru handverki

Rakel minnir á að góðir vettlingar geymi oft fallegt handverk og geti verið eigandanum kærir, sérstaklega ef þeir hafa verið fengnir að gjöf.

„Margar vinnustundir geta legið í vönduðum heimaprjónuðum munstruðum vettlingi og í handverkinu býr alúð og væntumþykja. Að ég tali nú ekki um hlýjuna sem hann veitir. Sjálfri er mér alltaf kalt á höndunum; kaldar hendur, heitt hjarta,“ segir Rakel og hlær og bætir við að stundum verði vettlingar nánast hluti af manni sjálfum.

„Lúffur og skinnkuldavettlingar hafa verið hluti af staðalbúnaði í kuldatíðinni undanfarið. Þeir geta líka verið uppáhalds og leitt að tapa. Allt of mikið er um sóun í okkar samfélagi og mér finnst alveg óþarfi að horfa upp á sóun vandaðra vettlinga. Þess vegna er tilvalið að hafa þetta á einni síðu og í einni körfu í borginni. Þá er óþarfi að henda stökum vettlingi heima ef fólk getur kannski fengið þann á móti í körfunni góðu eða athugað hvort hann sé á fésbókarsíðunni. Svo mætti alveg velta fyrir sér að setja á hendurnar ósamstæða vettlinga, rétt eins og hefur verið vinsælt með sokka,“ segir Rakel og tekur fram að auðvitað þurfi vettlingar ekki að vera stakir til að vera gjaldgengir á síðunni eða í körfunni, því töpuð vettlingapör eigi þar fullt erindi lika.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir