Jørgen Pedersen
Jørgen Pedersen
Í umfjöllun um Votta Jehóva hefur þess ekki verið gætt að sannreyna upplýsingar og fara rétt með staðreyndir.

Jørgen Pedersen

Á liðnu ári hafa fjölmiðlar á Íslandi ítrekað borið fram alvarlegar og ærumeiðandi ásakanir á hendur Vottum Jehóva. Það er í sjálfu sér áhyggjuefni að þessar staðlausu ásakanir skuli vera birtar. Það er ekki síður alvarlegt mál að Vottar Jehóva skuli ekki hafa fengið tækifæri til að tjá sig um þessar ásakanir áður en þær voru birtar. Að gæta ekki hlutlægni og nákvæmni í miðlun upplýsinga til almennings er brot gegn 26. grein fjölmiðlalaga. Þetta lesendabréf er skrifað til að vekja athygli á að í umfjöllun um Votta Jehóva, sem er trúarlegur minnihlutahópur, hefur þess ekki verið gætt að sannreyna upplýsingar og fara rétt með staðreyndir.1)

Þau ósannindi sem andvaralausir fjölmiðlar enduróma eiga upptök sín hjá fólki sem segist hafa tilheyrt söfnuðinum. Þessir einstaklingar hafa ekki alltaf það markmið að fara satt og rétt með staðreyndir. Sérfræðingar, þeirra á meðal virtir félagsfræðingar sem fjalla um trúmál, hafa ítrekað varað við því að trúa slíkum „vitnisburði“ í blindni. Vottar Jehóva eru vel þekkt alþjóðlegt trúfélag. Safnaðarmenn eru 8,6 milljónir á heimsvísu og söfnuðurinn hefur starfað á Íslandi í næstum 100 ár. Vottar Jehóva virða rétt hvers og eins til að ákveða hvaða trúarskoðanir hann aðhyllist, ef þá einhverjar. Rannsóknir fræðimanna hafa sýnt fram á að vottar Jehóva „bera mikla virðingu fyrir lífinu og mannlegri reisn“ og trúarkenningar þeirra „einkennast af ríkulegu valfrelsi og frelsi til að taka eigin ákvarðanir“.2) „Sú ákvörðun að helga sig biblíunámi og að þjóna Jehóva virðist vera óþvinguð, persónuleg og meðvituð.“3) Vottar Jehóva stunda ekki barnaskírn, ólíkt mörgum öðrum trúfélögum. Foreldrar, sem eru vottar Jehóva, kenna börnum sínum meginreglur Biblíunnar en þegar börnin vaxa úr grasi þurfa þau sjálf að ákveða hvort þau láta skírast sem vottar Jehóva.

Vottum Jehóva er ákaflega annt um velferð barna. Líkamlegt og andlegt ofbeldi á ekki heima í fjölskyldunni. Vottum Jehóva þykir ærumeðandi að vera sakaðir um slíkt og þeim er mjög misboðið. Þegar algerlega tilhæfulausar ásakanir af því tagi komu fram í fjölmiðlum árið 2010 sagði Bragi Guðbrandsson, þáverandi forstjóri Barnaverndarstofu, að „Barnaverndarstofa [væri] mjög sátt við þeirra viðbrögð og skýringar“. „Það kom á óvart hvað þeir höfðu gert þetta vel í sínum ranni. Ég skal alveg játa það að ég vissi ekkert hverju ég átti von á,“ sagði hann. (Sjá greinarnar Vottar Jehóva hlíta barnaverndarlögum (mbl.is) og Barnaverndarstofa vottar verklagsreglur Vottanna (visir.is)).

Mannréttindadómstóll Evrópu og Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafa margsinnis komist að þeirri niðurstöðu að trúarskoðanir og trúariðkun Votta Jehóva samræmist lögum. Þegar það hefur verið véfengt hafa Vottar Jehóva farið dómstólaleiðina til að verja orðstír sinn. Mál af því tagi er nú í gangi í Noregi þar sem söfnuðurinn leitar réttar síns gegn óréttlátum aðgerðum sem eru til þess fallnar að kasta rýrð á söfnuðinn. Nýleg dæmi um ofbeldi, skemmdarverk, hótanir og jafnvel íkveikju sem hafa beinst gegn einstökum safnaðarmönnum og samkomuhúsum þeirra eru til vitnis um þær afleiðingar sem það hefur að spilla orðstír trúarlegra minnihlutahópa með fordómum og ósannindum. Þegar yfirvöld mismuna trúarlegum minnihlutahópum er hætta á að það ýti undir hatursorðræðu og hatursglæpi gegn saklausu fólki.

Til að fá rétta mynd af því sem er að gerast í Noregi má benda á greinarnar Norway: An Unfair Decision Against the Jehovah’s Witnesses (bitterwinter.org) og Norway: Oslo District Court Suspends De-Registration of Jehovah’s Witnesses (bitterwinter.org). Höfundur þeirra er dr. Massimo Introvigne sem er alþjóðlega viðurkenndur fræðimaður á sviði trúmála.

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur ítrekað staðfest að Vottar Jehóva séu „þekkt trúfélag“ og með „starfsemi í mörgum löndum heims, þar á meðal öllum ríkjum Evrópu“. MDE hefur fellt fleiri en 65 dóma Vottum Jehóva í vil og þar með staðfest að trúariðkanir þeirra samræmist lögum.

Í þessu máli komst MDE að þeirri niðurstöðu að Rússland hefði, með „stefnu sinni að umbera ekki trúariðkanir Votta Jehóva“ (§ 254), brotið gegn nokkrum greinum Mannréttindasáttmála Evrópu. Óskandi er að Ísland beiti sér fyrir því að allir landsmenn fái að njóta lýðræðis, umburðarlyndis og virðingar.

1) Apostates and new religious movements, Freedom Publishing, Los Angeles, 1994.

2) Artur Artemyev, Jehovahs Witnesses in Kazakhstan: Socio-historical and Theological Analysis, þriðja útgáfa, stækkuð og endurskoðuð, Almaty, 2021, bls. 264. ISBN 978-601-218-031-2.

3) Raffaella Di Marzio, „Being Jehovah’s Witnesses: Living in the World Without Being Part of It“, The Journal of CESNUR, 4. árg., 6. tbl., nóvember – desember 2020, bls. 83.

Höfundur er stjórnarformaður trúfélags Votta Jehóva í Noregi og umsjónarmaður upplýsingadeildarinnar í Skandinavíu.

Höf.: Jørgen Pedersen