Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra býður Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, faðminn eftir fund þeirra í Kænugarði á þriðjudag. Þau ræddu einkum stuðning Íslands við Úkraínu og leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra býður Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, faðminn eftir fund þeirra í Kænugarði á þriðjudag. Þau ræddu einkum stuðning Íslands við Úkraínu og leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík. — Ljósmynd/Stjórnarráðið
Landsréttur staðfesti frávísun hryðjuverkamálsins svonefnda vegna mikilla ágalla á tilgreiningu á ætluðum hryðjuverkabrotum sakborninganna tveggja. Ákæruliðir um vopnalagabrot standa óhaggaðir

11.3-17.3

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Landsréttur staðfesti frávísun hryðjuverkamálsins svonefnda vegna mikilla ágalla á tilgreiningu á ætluðum hryðjuverkabrotum sakborninganna tveggja. Ákæruliðir um vopnalagabrot standa óhaggaðir.

Sjómenn felldu tímamótasamninga til tíu ára með 67% atkvæða, sem kom nokkuð á óvart.

Skerðingar urðu á rafmagnsafhendingu Landsvirkjunar til fiskmjölsverksmiðja vegna viðgerða á Búðarhálsstöð, sem kom sér illa yfir háannatímann í bræðslunni. Þurfti að brenna olíu til þess að halda vinnslunni gangandi.

Sláturfélag Suðurlands hefur kynnt verðhækkanir á grillketi á næstunni. Búast má við verðhækkunum annara ketframleiðenda á næstunni, enda hefur afurðaverð til bænda hækkað mikið.

Utanríkisráðuneytið vill ekki upplýsa með hvaða hætti varnarviðbúnaður landsins er, en fv. skrifstofustjóri varnarmálaskrifastofu hefur sagt að vörnum mikilvægra innviða sé stórkostlega ábótavant.

Uppi eru áform um að fjarlægja hringtorg neðan við Bráðræðisholt og setja ljósastýrð T-gatnamót þar sem leiðin liggur af Hringbraut út á Nes eða út á Granda. Seltirningar eru ekki hressir og finnst umferðin nógu seinleg samt.

Íslendingar eru enn með frjósömustu þjóðum, þó dregið hafi nokkuð úr fæðingartíðni á síðustu árum.

Landslið Íslands í handbolta karla rak af sér slyðruorðið með níu marka sigri á Tékkum í Laugardalshöll eftir að hafa tapað fyrri leik liðanna í Brno.

Maður gekk inn á knæpuna Dubliner við Naustin í miðbæ Reykjavíkur og skaut þar af skammbyssu. Skotið fór í vegginn en byssumaðurinn hljóp á braut.

Þrátt fyrir að börnum á leikskólaaldri í Reykjavík hafi fækkað gengur borginni ekkert að grynnka á biðlistum. Meðalaldur við inntöku er rúmir 20 mánuðir og hefur hann verið óbreyttur í fjögur ár. Embættismaður borgarinnar kenndi óhagstæðum gangi himintungla um.

Þess utan kom á daginn að vandamál eru í þriðjungi leikskóla borgarinnar, 25 af 67 þeirra starfa með bráðabirgðaleyfi vegna lélegs húsnæðis, myglu og ámóta.

Páskakanínan hefur vart undan að búa til súkkulaðiegg fyrir páskana, en gert er ráð fyrir að orpið verði hátt í tveimur milljónum eggja í ár.

Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra hafði uppi stór orð um að styðja starfsumhverfi íslenskra fjölmiðla og talaði um ofurstöðu erlendra stórfyrirtækja á markaðnum. Í löngu máli gleymdi hún hins vegar alveg ofurstöðu Ríkisútvarpsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hélt til Úkraínu í stutta heimsókn, þar sem hún hitti m.a. Volodimír Selenskí Úkraínuforseta.

Umræða um leiðtogafund Evrópuráðsins, sem fram fer í Reykjavík í maí, hefur farið vaxandi, en m.a. á að nota tækifærið og fjölga eftirlitsmyndavélum í miðborginni verulega.

Ljóst er að kostnaður vegna leiðtogafundarins hefur verið verulega vanmetinn, en aðeins viðbúnaður lögreglu kann að reynast þrefalt dýrari en lagt var upp með.

Alls stefnir í 12,2 milljarða króna útgjöld ríkisins umfram heimildir fjárlaga.

Lögregla hafði hendur í hári manns, sem grunaður er um að hafa skotið úr byssu inni á írsku kránni Dubliner. Skotvopnið er fundið.

Hælisleitendum fjölgaði mikið á liðnu ári og er talið að umframútgjöld vegna þeirra miðað við fjárlögin nemi 2,6 milljörðum króna.

Miklar verðhækkanir eru í pípunum á matvörumarkaði, en birgjar hafa tilkynnt um verðhækkanir á alls kyns vörum. Þar ræðir bæði um hærra vöruverð að utan og hærra verð á innlendri matvöru þar sem framleiðslukostnaður hefur aukist.

Talsverð ásókn hefur verið í munaðaríbúðir, einkum þær sem hafa gott útsýni, en ekki er talið að góð sala þeirra minnki eftirspurn á húsnæðismarkaði svo nokkru nemi.

Talið er að veikindi og vanheilsa af völdum myglu hafi verið vanskráð hjá heilbrigðisstofnunum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að heimsókn hennar til Úkraínu hefði vakið ýmsar tilfinningar og hún hefði nýja og betri sýn á ástandið. Hún lét vel af fundi þeirra Selenskís, en ekkert væri ákveðið um hvort hann kæmi til Íslands í maí.

Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra kynnti að hún vildi koma íslenskri sundlaugarmenningu og laufabrauðsskurði á heimsminjaskrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf. Kokteilsósan og unglingadrykkja hljóta að vera næst.

Isavia er með óra um að stækka flugstöðina á Miðnesheiði um á fjórða hundrað þúsund fermetra, sem er á við fimm Smáralindir.

Foreldrar mótmæltu við ráðhús Reykjavíkur vegna vanefnda í leikskólamálum.

Bíl var ekið á mikilli ferð inn á bílastæði við verslanakjarna í Álfheimum, þannig að átta bílar löskuðust, en ökufanturinn endaði för sína inni á hárgreiðslustofu. Mildi þótti að enginn slasaðist alvarlega.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lagði fram frumvarpsdrög um að refsilaust yrði að brugga öl og léttvín í heimahúsum til einkaneyslu.

Mjólkurbúi Flóamanna (MBF) verður slitið við sameiningu við samvinnufélagið Auðhumlu, en stofnað aftur til þess að halda megi í nafnið, sem Sunnlendingum þykir vænt um.

Talið er að hundar í landinu séu um 10 þúsund, þar af fjórðungur í Reykjavík.

Til stendur að „uppfæra“ samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins enda kostnaðaráætlunin orðin mjög hæpin, bæði vegna breyttrar útfærslu og snaraukins kostnaðar.

Útlendingafrumvarpið var samþykkt á Alþingi, en þetta var í fimmta sinn sem gerð var tilraun til þess að koma nýjum lögum um þann málaflokk í gegnum þingið.

Ragnar Þór Ingólfsson var endurkjörinn formaður VR með 57% atkvæða, en tapaði hins vegar stjórninni.

Kynnt var gervigreind sem „talar“ íslensku og Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra á heiðurinn að. Hugbúnaðinum hættir að vísu til að skálda í eyðurnar og íslenskan fremur lágsigld.

Taka á út stjórnsýslu Fjarðabyggðar, en reksturinn hefur verið brösugur líkt og víðar og starfsmannavelta á bæjarskrifstofunni einkennilega mikil.

Þóra Arnórsdóttir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar var kölluð til yfirheyrslu á ný vegna starfa hennar hjá Ríkisútvarpinu.

Stór hluti séreignarsparnaðar landsmanna hefur verið nýttur til íbúðarkaupa eða til þess að létta á húsnæðislánum, alls um 132 milljarðar króna.

Loðnuveiði hefur gengið ljómandi vel og útlit fyrir að kvótinn náist allur og munar um þá þjóðarbúbót.

Íslandsmót iðn- og verkgreina var haldið í Laugardalshöll og þyrptist þangað ungt fólk, áhugasamt um að kynna sér verknám um leið og það veltir fyrir sér námsvali.

Foreldrar mótmæltu vanefnum í leikskólamálum á göngum ráðhúss Reykjavíkur og höfðu margir ungviðið með sér, enda ekki í önnur hús að venda með það.

Katrín Jakobsdóttir hyggst leita endurkjörs sem formaður á landsfundi Vinstri grænna, sem haldinn verður um helgina.