Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Þátttaka íslensks sjávarútvegs í MSC-vottunarkerfinu ætti að vera lóð á vogarskálarnar til að Ísland nái markmiðum sínum í Kunmings-Montreal- samningnum.

Gísli Gíslason

Nýr Úthafssáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður 4. mars síðastliðinn. Hann kveður á um að vernda skuli 30% úthafssvæða fyrir árið 2030. Þetta á við um alþjóðleg hafsvæði sem nú njóta mjög takmarkaðrar verndar. Þessi nýi samningur er í samræmi við annan sögulegan milliríkjasamning, sem undirritaður var af 200 ríkjum í lok árs 2022, „Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework“ (GBF), en í honum er kveðið á um að ríki skuli vernda 30% haf- og landsvæða fyrir árið 2030.

Kunming-Montreal-samningurinn er með fjórum meginmarkmiðum og 23 áætlunum til að ná markmiðunum. Þessi samningur kemur í stað Aichi-samningsins um líffræðilegan fjölbreytileika sem gerður var árið 2010. Á sama tíma og aðildarríkin skuldbinda sig til að friða að minnsta kosti 30% land- og hafsvæða fyrir 2030, þá skulu viðurkenndar svæðisbundnar hefðir og frumbyggjaréttur. Einnig skal vera um 30% endurheimt af land-, strand- og sjávarvistkerfum. Þannig er meginmarkmið samningsins að tryggja að að minnsta kosti 30% af jörðinni njóti verndar fyrir árið 2030 en þetta hefur verið nefnt „30 fyrir 30“.

Í lokasamningnum er einnig skuldbinding aðildarríkja til að draga úr opinberum styrkjum sem eru skaðlegir umhverfi og virkja sjóði til að vernda og tryggja líffræðilegan fjölbreytileika.

Marine Stewardship Council (MSC) og Kunmings-Montreal- samningurinn

Trúverðugar aðgerðir og mælanlegur árangur er lykillinn að því að staðfesta framgang þessa nýja samnings.

MSC-vottunarkerfið skilgreinir sjálfbærar og umhverfisvænar fiskveiðar og rekjanleika úr þeim í neytendavöru sem getur borið umhverfismerki MSC. Í dag eru um 15% af fiskveiðum í heiminum vottuð samkvæmt fiskveiðistaðli MSC og það eru ríflega 40.000 fyrirtæki með rekjanleikavottun. MSC-staðlarnir eru mælitæki í tveimur af 23 áætlunum samningsins. Þetta snýr bæði að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnnar og að viðskipti með afurðir úr villtum tegundum séu úr sjálfbærum vottuðum veiðum en slík verslun stuðlar að líffræðilegum fjölbreytileika.

Ísland og Kunmins-Montreal samningurinn

Sjávarútvegur á Íslandi hefur í gegnum félagið Icelandic Sustainable Fisheries (ISF) haft forystu í umhverfisvottun fiskveiða, sem m.a. sést af því að helstu nytjastofnar hafa farið í gegnum MSC-fiskveiðivottun og hafa hingað til alls nítján fiskistofnar fengið vottun og sá tuttugasti er í vottunarferli. Ísland var fyrsta landið í heiminum með níu tegundir í MSC-vottun og ennþá eitt landa með vottun á fjórum tegundum, sem eru steinbítur, skötuselur, blálanga og sólkoli. Að auki eru yfir 200 framleiðslu- og sölustaðir hér á landi með MSC-rekjanleikavottun. Almenn þátttaka íslensks sjávarútvegs í MSC-vottunarkerfinu ætti að vera lóð á vogarskálarnar til að Ísland nái markmiðum sínum gagnvart Kunmings-Montreal samningnum.

Höfundur er svæðisstjóri Marine Stewardship Council í Norður- Atlantshafi.

Höf.: Gísli Gíslason