Gunnar Aðólf Guttormsson fæddist 3. apríl 1929 í Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá. Hann lést á sjúkrahúsinu í Neskaupstað 7. mars 2023. Foreldrar hans voru Guttormur Sigri Jónasson, bóndi í Svínafelli og síðar múrari í Reykjavík, f. 12.10. 1896, d. 12.3. 1962, og Jóhanna Magnúsdóttir, húsfreyja í Svínafelli og Reykjavík, f. 29.8. 1893, d. 12.4. 1949.

Systkini Gunnars voru: Dagbjört Unnur, húsfreyja á Þvottá í Álftafirði, f. 1925, d. 2012; Sólveig, húsmóðir í Borgarnesi, f. 1927, d. 2012; Aðalborg, verkakona og skólaliði í Reykjavík, f. 1933, d. 2013. Systkini sammæðra voru: Magnús E. Árnason, kennari í Reykjavík, f. 1916, d. 1975; Runólfur Árnason, f. 1918, d. 1919; Aðólf Björnsson, f. 1923, d. 1924.

Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Svandís Skúladóttir frá Litla-Bakka í Hróarstungu. Þau giftu sig 23. ágúst 1959. Börn Gunnars og Svandísar eru: 1) Ingibjörg, f. 8.9. 1958, kennari í Melaskóla, gift Óla Jóni Hertervig, skrifstofustjóra hjá Reykjavíkurborg, búsett á Seltjarnarnesi. Börn þeirra: a) Svandís Rós, f. 1980, d. 2014, gift Vésteini Ingibergssyni. Þeirra dætur eru Emma og Júlía; b) Óli Hákon, f. 1986, sambýliskona hans er Sólrún Harpa Sveinbjörnsdóttir. Þeirra sonur er Eyvindur Óli; c) Jón Gunnar, f. 1994. 2) Jóhann Guttormur, f. 1.10. 1959, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, kvæntur Þorgerði Sigurðardóttur, matreiðslumeistara og verslunarkonu, búsett í Fellabæ. Börn þeirra: a) Gunnar Þór, f. 1991; b) Snorri Páll, f. 1993; c) Rúna Dís, f. 1997; d) Sigurður Dór, f. 2001. 3) Skúli Björn, f. 24.3. 1970, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, kvæntur Elísabetu Þorsteinsdóttur, framreiðslumeistara og eiganda Klausturkaffis, búsett á Hallormsstað. Börn þeirra: a) Jóhanna Malen, f. 1999, gift Alexander Stepka; b) Ragnhildur Elín, f. 2001.

Gunnar ólst upp í Svínafelli og á Hjaltastað. Lauk gagnfræðaprófi frá Eiðaskóla 1951 og íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni 1953. Tvo vetur var hann sundkennari við Sundhöllina í Reykjavík en flutti þá austur, kenndi sund og þjálfaði hjá UÍA. Gunnar var síðasti farkennari í Tungu 1957-58 og svo skólastjóri heimavistarskóla á Stóra-Bakka til 1964. Samhliða vann hann á jarðýtum og stofnaði verktakafyrirtækið Gunnar og Kjartan sf. með Kjartani Ingvarssyni.

Þau hjónin fluttu alfarið í Litla-Bakka 1964 og ráku þar fjárbú í áratugi. Meðfram búskap vann Gunnar m.a. á ýtum en 1986-99 var hann kennari við Brúarásskóla. Refa- og hreindýraskytta var hann í mörgum sveitum og leiðsögumaður veiðimanna fram á níræðisaldur.

Hann var í hreppsnefnd Tunguhrepps 1966-94, þar af oddviti í 19 ár, og formaður SSA eitt ár. Hann sat í ótal stjórnum og nefndum. Tók þátt í að stofna Félag ungra framsóknarmanna á Héraði og sat í stjórn Kjördæmissambands framsóknarmanna. Hann var stofnfélagi Lionsklúbbsins Múla og starfaði í klúbbnum til dauðadags. Kórastarf var snar þáttur í lífi hans fram á síðustu ár og um árabil var hann meðhjálpari á Kirkjubæ.

Útför hans fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 18. mars 2023, klukkan 11.

Streymt verður frá útför:

https://mbl.is/go/qbgrq

Þennan morgun mætti ég hvítum ref á leið minni í Klaustur. Hann staðnæmdist skammt frá veginum. Ég stöðvaði bílinn og við horfðumst í augu um stund. Hann skokkaði aðeins fjær en sneri sér aftur við og horfði í áttina til mín, hvarf svo til fjalla. Um kvöldið hringdi mamma í mig og sagði að pabbi hefði skilið við.

Faðir minn lifði á langri ævi tímana tvenna eða þrenna. Hann var af þeirri kynslóð sem umbylti íslensku samfélagi og byggði upp þá velferð og velmegun sem við búum við í dag. Í orðsins fyllstu merkingu því að hann sjálfur ýtti upp vegum, byggði brýr og reisti línur. Sem oddviti sinnar sveitar lagði hann einnig sitt lóð á vogarskálarnar og varði allt sitt líf drjúgum tíma í félagsmálavafstur til að bæta samfélagið eða gera lífið skemmtilegra. Fyrir vikið var hann oft að heiman, að leggja veggi, sitja fundi, veiða hreindýr og ref eða syngja í kór. Hann var virkur samfélagsþegn og þau foreldrar mínir samhent og ósérhlífin í því að sinna störfum í þágu nærsamfélagsins.

Fæddur í torfbæ undir Dyrfjöllum upplifði hann á tíræðisaldri að prófa sýndarveruleikagleraugu hjá mér og svífa um yfir átthögunum – þótti það magnað. Hjaltastaðaþingháin og Austurfjöllin voru honum hjartfólgin og þó að Dyrfjöllin mættu honum á hverjum morgni þegar hann kom út á tröppur á Litlabakka þurfti hann að heimsækja æskuslóðirnar reglulega. Síðustu ferðirnar sjálfur undir stýri ók hann þangað.

Faðir minn var fylginn sér og gat verið þrjóskur, þurfti helst að eiga síðasta orðið en hann kunni líka að hlusta. Félagslyndur og góður sögumaður sem trúði því að maður væri manns gaman. Og ekki má gleyma söngnum sem var hluti af lífsgleðinni er hélt honum ungum allt til enda. „Það syngur enginn reiður,“ sagði hann brosandi. „Svo styrkir söngurinn bæði lungu og hjarta.“ Fjórum dögum fyrir andlátið söng hann með öðrum eldri borgurum í Hlymsdölum af lífi og sál. Helsta heilaleikfimin var krossgátur og við þá glímu sat hann ávallt undir lokin í litlu íbúðinni í Jónshúsi þegar maður kom í heimsókn.

Það eru tíu ár síðan hann fylgdi systrum sínum þremur til grafar með stuttu millibili. Minnstu munaði að hann færi skömmu á undan þeim í sumarlandið því að 2011 gekkst hann undir stóra hjartaaðgerð. Hún tókst vel og færði honum rúm 11 ár í viðbót, tíma sem var ómetanlegur fyrir fjölskylduna, ekki síst barnabörnin og barnabarnabörnin. Fyrir þau átti hann alltaf tíma og kærleik.

Var hvíti refurinn sem varð á vegi mínum fyrirboði? Lífsvefur jarðarinnar að búa sig undir að taka á móti náttúrubarninu frá Svínafelli á hinum eilífu veiðilendum?

Elsku pabbi. Þú varst reiðubúinn að fara eftir langa og góða ævi. Þú getur litið sáttur um öxl og stoltur til arfleifðar ykkar mömmu í afkomendunum. Við þökkum fyrir allt sem þú gafst okkur og kenndir. Við þökkum fyrir yndisstundir og ævintýri, minningar sem eiga bólstað í hjörtum okkar um ókomna framtíð og ganga til komandi kynslóða. Hvíl í friði, faðir.

Skúli Björn, Elísabet
og dætur.

Daginn eftir að pabbi dó settist í ég í stólinn hans. Stólinn sem hann sat alltaf í við að ráða krossgátur. Á borðinu við hlið stólsins lá orðabókin þar sem hann hafði lagt hana nokkrum dögum áður, hún var dottin í sundur af mikilli notkun. Ég tók hana upp og fyrsta orðið sem ég las var reffilegur. Mér finnst þetta lýsingarorð eiga vel við pabba. Pabbi réð krossgátur alla ævi og síðustu árin a.m.k. eina á dag. Hann settist líka niður í lok dags, rifjaði upp hvað gerst hafði og skráði í dagbók. Aragrúi minninga þýtur gegnum hugann. Ég man að þegar ég var lítil, þá svaf ég í rúmi sem var til fóta við rúm foreldra minna og hélt oft í stóru tána hans pabba meðan ég var að sofna. Ótal minningar þar sem pabbi er að raka sig og setja á sig góðan rakspíra, fara í fína skyrtu og bindi í stíl. Hann fór nefnilega oft á alls konar fundi. Pabbi var náttúrubarn og veiðimaður, hann var hagmæltur og söngelskur. Þegar við systkinin vorum lítil fóru foreldrar okkar með okkur í bílferðalag á hverju einasta sumri, hann pabbi hafði nefnilega mjög gaman af að keyra alls konar farartæki. Þegar farið var að flytja vélsleða til landsins var pabbi fljótur að festa sér einn og þeysti nú líka um landið að vetrarlagi. Það var settur sleði aftan í þannig að fleiri kæmust með. Vélsleðarnir hans urðu margir. Minningar um öll þessi ferðalög bæði fyrr og síðar eru dásamlegar.

Dýrmæt er minning mín um pabba þegar hann hélt á dóttur minni í fyrsta sinn. Hún var fyrsta barnabarnið og fæddist á 51 árs afmælisdegi hans. Önnur dýrmæt minning er þegar hann hélt yngsta barninu mínu, nafna sínum, undir skírn.

Að leiðarlokum þakka ég pabba fyrir allt og allt. Ég var heppin með föður. Ég vil líka þakka mömmu fyrir að hafa hugsað svona vel um pabba öll þessi ár og þakka bræðrum mínum og fjölskyldum þeirra fyrir alla hjálpina og aðstoðina sem þeir hafa veitt foreldrum okkar.

Ingibjörg og fjölskylda.

Þá hefur faðir minn Gunnar Gutt fengið hvíldina eftir langa og viðburðaríka ævi. Það er óneitanlega skrítið að geta ekki lengur heimsótt hann og rætt um okkar sameiginlegu áhugamál, sem voru þó nokkur, t.d. allt sem tengdist skotveiðum. Ég fór snemma með honum til rjúpnaveiða og seinna meir leiðsagði hann mér í nokkrum hreindýraveiðitúrum. Það var gaman að vera á veiðum með pabba, hann bar virðingu fyrir bráðinni og vildi að dauðastríðið tæki sem fyrst enda, náttúrubarn fram í fingurgóma. Þótt hann væri búinn að bana margri tófunni um ævina sagði hann oft að seinustu tófuna myndi hann aldrei skjóta. Hann fylgdist líka með enska boltanum, sérstaklega liðinu sem hann vissi að ég hélt með, Liverpool. Það að horfa á allar íþróttir í sjónvarpi veitti honum mikla afþreyingu nú seinustu árin þegar starfsorkan þurfti að láta undan síga. Frá því að ég man eftir mér var ég að stússa í búskapnum með honum heima á Litla-Bakka við ýmis sveitastörf. Hann var snillingur að raka heyinu í garða með okkar gömlu Bamford-rakstrarvélum fyrir bindingu þótt erfitt væri á mishæðóttum túnum með hólum og dældum. Pabbi var natinn við skepnur og vildi að féð væri vel fóðrað, þó held ég að hann hefði alveg getað hugsað sér að gera eitthvað allt annað í lífinu en verða bóndi. Hann sagði stundum við mig að hann hefði langað til að verða læknir þegar hann var ungur. Pabbi átti tvö tímabil sem kennari, hið fyrra byrjaði með farskólakennslu í Hróarstungu og svo tók við skólastjórn í fyrsta heimavistarskólanum í Tungunni, á Stóra-Bakka. Hið seinna hófst er hann fór að kenna í skólanum sem hann sem oddviti tók þátt í að byggja, Brúarásskóla. Kenndi hann þar til sjötugs með búskapnum. Þar sem ég var orðinn starfandi kennari á þeim tíma ræddum við gjarnan um kennslu þegar ég kom til að aðstoða í sveitinni þá búandi í öðrum landshluta. Þeir nemendur hans á Brúarási sem ég þekki bera honum vel söguna, segja að hann hafi verið skemmtilegur kennari en nokkuð strangur. Þótt faðir minn lifði mörg sín seinustu ár á tölvuöld lærði hann ekki á tölvur, hann lét móður minni það eftir enda var hún hans mesta stoð og stytta á allan hátt fram í andlátið. Hann handskrifaði verkefni og próf með sinni listaskrift sem allir gátu lesið. Árið 2001 ákváðum við fjölskyldan að flytja austur á Hérað, m.a. vegna þess að við vildum að börnin okkar fengju tækifæri til þess að alast upp nærri foreldrum mínum á Litla-Bakka. Þykir manni enn vænna um þessa ákvörðun nú á kveðjustund. Börnin okkar fengu að kynnast afa sínum vel í rúm 20 ár sem eru þeim ómetanleg með ótal minningum. Pabbi og Þorgerður eiginkona mín urðu líka góðir vinir og stundum tóku þau lagið saman því söngurinn var honum mikils virði til seinasta dags. Elsku mamma, ég veit að missir þinn er mikill en við getum öll huggað okkur við það að pabbi fékk að fara snöggt á æðra stig, hann hafði engan áhuga á því að fara til dvalar á hjúkrunarheimili. Blessuð sé minningin um elskulegan föður, tengdaföður og afa, þú lifir í hjörtum okkar.

Jóhann Guttormur Gunnarsson
og fjölskylda.

Kveðja til afa.

Elsku afi okkar, þá ertu farinn frá okkur. Þetta tók þig ekki langan tíma enda erum við viss um að þú hefðir aldrei viljað vera lengi að þessu, þú vildir alltaf að þau verk sem verið var að gera gengju hratt fyrir sig. Þú varst alltaf yndislegur afi og við munum geyma allar dýrmætu minningarnar í hjarta okkar. Eins og þegar þú tókst okkur í ferðir á sexhjólinu í sveitinni og varst að sýna okkur landið, það var alltaf svo gaman. Þú varst alltaf svo stoltur af okkur og að spyrja hvernig gengi í lífinu, hvar við værum að vinna eða alfarið hvað við værum að gera. Við vorum alltaf svo stolt að segja frá því að þú værir afi okkar, þá sérstaklega Rúna, en hún vann lengi á Dyngju hjúkrunarheimili, flestallir sem þar bjuggu vissu hver Gunnar Gutt væri. Á Dyngju fékk hún að heyra margar skemmtilegar sögur af þessum magnaða manni sem hafði margt gert á sinni löngu ævi. Við strákarnir allir höfðum gaman af því að spjalla við þig um alls konar veiðar og Gunnar Þór minnist með gleði hreindýraveiðanna og grenjavinnslunnar með afa. Þín verður sárt saknað og við lofum þér því, afi okkar, að við og allir aðrir í fjölskyldunni munum passa upp á ömmu, sem var þér alltaf svo kær. Við vitum að þú fylgist með og vakir yfir okkur. Góða ferð í sumarlandið afi okkar, þar er fullt af fólki sem mun taka vel á móti þér.

Rúna Dís, Gunnar Þór, Snorri Páll, Sigurður Dór.

Kveðja frá Lions-
klúbbnum Múla

Meðal minnisstæðra samferðamanna er Gunnar Guttormsson sem nú hefur kvatt þetta jarðlíf að lokinni langri og farsælli ævi. Gunnar kom víða við sögu og lagði gjörva hönd á margt um sína daga og kom heill heim úr margvíslegum svaðilförum. Og einlægan áhuga hafði hann á fólki og lífinu í kringum sig.

Gunnar var orðinn annar tveggja eftirlifandi af stofnfélögum Lionsklúbbsins Múla á Fljótsdalshéraði. Hann hafði því verið félagi okkar í klúbbnum frá árinu 1970 eða í rúm 52 ár og gegnt þar ýmsum embættum.

Gunnar var ekki maður sem hvarf í litleysi þar sem fólk kom saman. Hann gat lífgað upp á hvern hóp með skemmtilegum athugasemdum eða líflegum frásögnum af ýmsu sem hafði hent hann á lífsleiðinni eða hann heyrt eða lesið annars staðar. Ekki þurfti hann heldur mikla hvatningu til þess að taka undir söng eða eins og í Lionsklúbbnum að byrja á rétta tóninum svo aðrir gætu tekið undir sönginn.

Gunnar var gæddur sérstakri frásagnargleði og hafði næma tilfinningu fyrir íslensku máli. Löng hefð var í Lionsklúbbnum Múla að Gunnar færi með „speki dagsins“, eitthvert hnyttið spakmæli sem hann hafði lagt á sig að læra utan að fyrir fundinn og mikla áherslu lagði hann á að rétt og skilmerkilega væri farið með spekina.

Minnið og glaðværðin voru enn til staðar þó að Gunnar væri orðinn fótfúinn síðustu árin enda marga slóðina arkað á sinni löngu ævi og oft um fjöll og firnindi.

Skarð er fyrir skildi í Lionsklúbbnum við fráfall Gunnars en löng þjónusta hans fyrir klúbbinn og á vegum hans er þökkuð.

Samúðarkveðju sendum við klúbbfélagar til syrgjandi eiginkonu, barna og annarra ástvina og biðjum þeim allrar blessunar.

Vigfús Ingvar
Ingvarsson.