19 ára gamall maður var handtekinn í Fort Lauderdale í Bandaríkjunum í byrjun vikunnar fyrir að ráðast með fólskulegum hætti á Rick Allen, trommuleikara breska glysmálmbandsins Def Leppard. Þess má geta að Allen er einhentur; missti annan handlegginn í slysi fyrir um fjórum áratugum.
Að sögn lögreglu dvaldist Allen, sem er á tónleikaferð um Bandaríkin ásamt bandi sínu, á Seminole Hard Rock Hotel And Casino og hafði brugðið sér út í smók, þegar maðurinn veittist að honum. Hann mun í fyrstu hafa falið sig bak við súlu en sprottið skyndilega fram og hlaupið í átt að Allen sem átti sér einskis ills von. Maðurinn lét sér ekki nægja að láta höggin dynja á trymblinum, heldur skellti líka höfði hans í gangstéttina. Árásarmaðurinn komst undan en var handtekinn degi síðar og á yfir höfði sér kæru. Allen mun hafa sloppið betur en á horfðist en vill víst koma lögum yfir manninn.