Gufunesið Mikil uppbygging hefur verið á svæðinu undanfarin misseri.
Gufunesið Mikil uppbygging hefur verið á svæðinu undanfarin misseri. — Morgunblaðið/sisi
Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um bættar almenningssamgöngur í Gufunesi var felld á fundi borgarráðs í vikunni. Tillagan var lögð fram í janúar 2022 en hún kom ekki til afgreiðslu fyrr en rúmu ári síðar

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um bættar almenningssamgöngur í Gufunesi var felld á fundi borgarráðs í vikunni. Tillagan var lögð fram í janúar 2022 en hún kom ekki til afgreiðslu fyrr en rúmu ári síðar. Í millitíðinni var kosið til borgarstjórnar.

Tillagan var svohljóðandi: „Lagt er til að unnið verði með íbúum í vistvæna þorpinu Gufunesi að betri samgöngum sem henta þeirra þörfum. Samgöngum í og úr hverfinu er mjög ábótavant en eina gönguleiðin þaðan í strætó er kílómetra langur grýttur og óupplýstur vegslóði. Reykjavíkurborg hefur boðið upp á pöntunarþjónustu (leigubílar Hreyfils – innsk.) sem er aðeins í boði á ákveðnum tíma og þarf að panta með löngum fyrirvara.“

Atkvæði féllu 4:3

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum meirihlutaflokkanna, þ.e. borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar, gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. Fulltrúi Framsóknarflokksins hafði vikið af fundi þegar málið kom til afgreiðslu.

Meirihlutaflokkarnir lögðu fram eftirfarandi bókun við afgreiðslu málsins: „Það sem hefur breyst á Gufunesi nýverið er að lagður hefur verið upplýstur göngu- og hjólastígur á milli Gufuness og Strandvegar þar sem biðstöð Strætó er. Til skoðunar er að bæta við stígatengingum úr hverfinu til austurs og suðurs. Í Gufunesi er í dag pöntunarþjónusta á vegum Strætó bs. en það er sú tegund þjónustu sem virkar best miðað við íbúafjölda og notkun, en eftir því sem hverfið stækkar og íbúum fjölgar liggur beint við að endurskoða þurfi þjónustustigið.“

Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram bókun, þar sem hann bendir á að búar í Gufunesi hafi margoft bent á nauðsyn þess að almenningssamgöngur fari inn í hverfið sem og að greiðfærar leiðir séu fyrir hendi út úr hverfinu og að því. „Um helgar eru ferðir einungis á tveggja tíma fresti, nema á tímabilinu 12:38 til 15:15 þar sem um tvær og hálf klukkustund er á milli ferða. Ljóst er að staða almenningssamgangna í Gufunesi er ekki í takt við stefnumótunina sem sett var fram um vistvænt hverfi, þar sem ekki er hægt að reiða sig á áreiðanlegar almenningssamgöngur í og úr því hverfi,“ sagði m.a. í bókuninni.

Svar lengi að berast

Tillögu fulltrúa sósíalista, sem lögð var fram í ársbyrjun 2022,var vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara með bréfi dagsettu 25. janúar 2022. Svar barst ekki fyrr en rúmu ári síðar, eða með bréfi dagsettu 13. mars 2023. í bréfinu er bent á að frá því fyrirspurnin var lögð fram í janúar 2022 hafi verið lagður upplýstur göngu- og hjólastígur á milli Gufuness og Strandvegar og fleiri stígatengingar séu til skoðunar.

Akstur hófst í Gufunesi í byrjun árs 2022. Panta þarf bíl með 30 mín. fyrirvara fyrir áætlaða brottför. Bifreiðin stoppar á skilgreindum stoppustöðvum og ekur upp í Spöng þar sem hægt er að skipta í aðrar leiðir. Samkvæmt upplýsingum frá Strætó sé notkun á pöntunarþjónustu í Gufunesi betri en í öðrum pöntunarþjónustuleiðum eða að jafnaði 60 til 70 ferðir á mánuði, segir í bréfi borgarstjóra og borgarritara. Sex leiðir séu í boði í pöntunarþjónustu og hún henti vel í litlum hverfum.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson