Hvaða starf fer fram á kaffistofu Samhjálpar?
Hér er athvarf fyrir fólk í neyð sem hefur ekki efni á að fæða sig. Hingað leitar umkomulaust og fátækt fólk, ýmist vegna andlegra eða líkamlegra veikinda eða félagslegrar einangrunar. Hingað koma um 250 til 350 manns á dag og það hefur fjölgað mikið síðustu ár. Hér er opið frá tíu til tvö á daginn og bæði boðið upp á morgunverðarhlaðborð og hádegismat. Hingað kemur jafnvel fólk strax klukkan tíu á morgnana og er hér þar til við lokum. Það fær þá að vera í hlýjunni hér því það hefur ekki í önnur hús að venda.
Af hverju heldurðu að þörfin sé sífellt meiri?
Það er meiri fátækt núna; leigan hækkar sífellt og matarkarfan líka. Við rekum þetta á frjálsum framlögum frá einstaklingum og fyrirækjum og fáum svo styrk frá Reykjavíkurborg árlega. Við gætum ekki rekið kaffistofuna án þessara framlaga.
Er húsnæðið í Borgartúni að springa utan af ykkur?
Já, það er löngu sprungið og er ekki í góðu ástandi. Við þurfum stærra húsnæði og það er verið að leita.
Hvaða herferð er í gangi núna?
Hún heitir Ekki líta undan og á að vekja fólk til umhugsunar um þá fátækt, hungur og heimilisleysi sem er á Íslandi en þetta varðar okkur öll. Það er mikil þörf á Kaffistofunni og ég hvet fólk til að skoða síðuna ekkilitaundan.is og kynna sér málið og skrifaðu undir, sýna kærleik og styrkja þetta góða starf. Án stuðnings almennings og fyrirtækja væri ekki hægt að halda áfram. Það er hægt að styrkja okkur með eingreiðlsu, mánaðarlega, eða gefa máltíð.
Er þetta ekki erfitt starf?
Jú, þetta er ótrúlega erfitt en jafnframt gefandi og skemmtilegt starf.
Rósý Sigurþórsdóttir er forstöðumaður kaffistofu Samhjálpar. Á heimasíðunni samhjalp.is og ekkilitaundan.is má finna upplýsingar um starfið og hvernig hægt sé að leggja því lið.