Guðmundur Benediktsson, íþróttafréttamaður á Sýn og faðir Alberts Guðmundssonar knattspyrnumanns, birti í gær yfirlýsingu á Vísi í kjölfarið á frásögnum Arnars Þórs Viðarssonar landsliðsþjálfara um ástæður þess að hann valdi ekki Albert í landsliðshópinn.
Þar segir Guðmundur m.a.: „Meginástæðan fyrir því að ég hef ekki tjáð mig opinberlega fyrr er að ég er íþróttafréttamaður. En ég er fyrst og fremst faðir Alberts. Mér var hins vegar nóg boðið í gær eftir síðustu ummæli AÞV. Rétt er að taka fram að ég geri enga kröfu á að Albert eigi að vera í landsliðshópi. AÞV var ráðinn til að stjórna því. En endalausar árásir að heiðri og persónu Alberts þegar hann er ekki í hópnum mun ég ekki líða lengur. Í síðustu viku bjallaði AÞV í Albert og ræddi mögulega endurkomu hans í landsliðið. Þeir áttu fínt samtal, samkvæmt Alberti, en niðurstaðan var að Albert taldi best að hann gæfi ekki kost á sér í þetta verkefni af ýmsum ástæðum. AÞV heldur því fram að eina ástæðan sé að Albert neiti að vera varamaður, sem er ekki rétt.
Fjölskylduástæður spiluðu stóra rullu í ákvörðun Alberts ásamt stöðu Genoa í ítölsku deildinni og það veit AÞV mæta vel en ákveður að láta leikmanninn líta illa út enn og aftur. Ég er þess fullviss að AÞV hafði engan áhuga á að velja Albert en taldi sig nauðbeygðan þar sem Alberti hefur gengið vel á Ítalíu að undanförnu.
Eftir símtal þeirra á milli ákveður hann að ráðast á Albert og ekki í fyrsta sinn sem þjálfarinn reynir að gera lítið úr honum eftir að hafa tilkynnt hóp sinn.“
Yfirlýsinguna í heild má sjá á mbl.is og Vísi. Ummæli Arnars má einnig sjá á mbl.is./sport en ekki náðist í hann til að bera undir hann yfirlýsingu Guðmundar eftir að hún birtist.