Töfraheimilið / Magical Home nefnist samsýning sem Helena
Margrét Jónsdóttir, Lidija Ristic, Ragnheiður Káradóttir og Virginia L. Montgomery opna í Kling & Bang í dag milli kl. 17 og 19. „Á sýningunni er búið til annað rými innan sýningarrýmisins, Töfraheimilið. Á því heimili er ekki allt sem sýnist. Andrúmsloft sem leitast er við að skapa einkennist af dulúð, draumkennd og töfraraunsæi. Verkin eru súrrealísk, ýmist of stór eða of smá og absúrd. Listamennirnir vinna með yfirnáttúrlega töfra hversdagsins.
Á sýningunni má m.a. finna tveggja metra háan kertastjaka sem brennur með ofvöxnum kertum, súrrealísk vídeóverk þar sem má sjá fiðrildi verða til í pínulitlu rúmi, snakk fljúgandi í þyngdarleysi, fljúgandi teppi og fleira,“ segir í tilkynningu frá sýningarstað. Þar kemur fram að opnun sýningarinnar verði haldin með pomp og prakt að hætti Önnu Hrundar Másdóttur. „Búast má við litríkum brauðtertum og gómsætum yfirnáttúrlegum veitingum.“ Sýningunni stýrir Kristín Helga Ríkharðsdóttir og á rithöfundurinn Fríða Ísberg textaverk í sýningarskrá. Sýningin stendur til 22. apríl og er opin miðvikudaga til sunnudaga milli kl. 12 og 18. Aðgangur er ókeypis.