EM Arnar Þór Viðarsson er ánægður með riðil Íslands í undankeppni EM.
EM Arnar Þór Viðarsson er ánægður með riðil Íslands í undankeppni EM. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2024 Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur leik í undankeppni EM 2024 þegar liðið heimsækir Bosníu og Hersegóvínu næstkomandi fimmtudag. A-landslið þessara tveggja þjóða hafa aldrei mæst, hvorki karla- né kvennaliðin, og því um glænýjan mótherja að ræða.

EM 2024

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur leik í undankeppni EM 2024 þegar liðið heimsækir Bosníu og Hersegóvínu næstkomandi fimmtudag. A-landslið þessara tveggja þjóða hafa aldrei mæst, hvorki karla- né kvennaliðin, og því um glænýjan mótherja að ræða.

„Þetta er bara mjög gott teknískt lið með nokkuð marga leikmenn í bestu fimm deildum Evrópu. Ég taldi sjö sem eru í hópi hjá þeim. Þetta eru teknískir og góðir fótboltamenn.

Fyrir þá sem þekkja [Miralem] Pjanic endurspeglar hann svolítið þeirra DNA. Þeir eru líka, sérstaklega á heimavelli, mjög harðir. Þéttir fyrir og geta lokað leikjum. Þeir eru mjög góðir á heimavelli.

Það er alveg ljóst að við megum ekki halda að við séum að fara til Bosníu og rúlla yfir þá, því þeir eru með marga góða fótboltamenn,“ sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari í samtali við Morgunblaðið eftir blaðamannafund í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal á fimmtudag.

Ofangreindur Pjanic verður ekki með að þessu sinni vegna meiðsla og sömu sögu er að segja af Muhamed Besic, fyrrverandi leikmanni Everton. Aðrar helstu stjörnur Bosníu eru hins vegar með, þar á meðal Edin Dzeko hjá Inter Mílanó og Rade Krunic hjá AC Milan.

Tvær hliðar á peningnum

Bosnía réð nýverið nýjan landsliðsþjálfara, Faruk Hadzibegic, sem tók við af hinum búlgarska Ivaylo Petev. Arnar sagði það geta verið bæði jákvætt og neikvætt að mæta liði með nýjan þjálfara í brúnni.

„Þetta eru tvær hliðar á peningnum. Það væri auðveldara ef við værum að etja kappi við þjálfarann sem var með þá, upp á að greina þá, en hin hliðin er sú að það er mjög erfitt fyrir nýjan þjálfara að koma inn og ætla á skömmum tíma að breyta miklu eða ná að setja upp eitthvað allt öðruvísi en þeir hafa verið að gera.

Hann hefur líka sagt það sjálfur í viðtölum að hann muni bíða svolítið þangað til þeir eru komnir saman, tala við leikmennina og fá endurgjöf frá þeim um hvað þeim líður vel með. Þannig að við búumst svo sem ekki við neitt miklum breytingum, búum okkur undir það sem þeir hafa verið að gera.

Í rauninni skiptir það ekki neitt rosalega miklu máli fyrir okkur, við erum með okkar leikplan hvort sem þeir verða með fjóra til baka, fimm eða hvað sem er. Við búum okkur undir mismunandi leikaðferðir andstæðingsins. Svo er annað í þessu að við erum með mjög reynda leikmenn með okkur sem kunna alveg að fara inn í fótboltaleiki og lesa þá þegar leikur hefst.“

Fyrsti hausverkurinn

Líkt og farið var yfir hér í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag er staðan á leikmannahópi Íslands einkar góð enda flestir í stórum hlutverkum hjá sínum félagsliðum og standa sig vel. Arnar telur stöðuna sjaldan hafa verið betri í stjóratíð sinni, en hann tók við í desember 2020.

„Þetta er fyrsti glugginn síðan ég tók við sem landsliðsþjálfari þar sem ég hef virkilega haft hausverk við að velja hópinn, einfaldlega vegna þess að menn eru á góðum stað og eru heilir. Það er mjög jákvætt og við erum kannski núna að koma út úr nokkrum árum sem hafa verið svolítið erfið, af mismunandi ástæðum.

Árið 2021 var til dæmis mikið af meiðslum hjá eldri og reyndari leikmönnum. Maður er kannski aldrei með sitt allra sterkasta lið, það er alltaf einhver fjarverandi, en það er orðið ansi langt síðan við höfum komist svona nálægt því. Við erum mjög ánægðir með hvar hópurinn er staddur á þessari stundu,“ sagði hann.

Erfiðara en að detta út

Óumflýjanlega eru ávallt einhverjir leikmenn í leikmannahópnum sem hafa ekki verið að spila eins mikið með félagsliðum sínum og þeir hefðu viljað. Hvernig gerir Arnar upp á milli leikmanna sem hafa lítið spilað þegar hópurinn er valinn?

„Það er þessi hausverkur sem við vorum að tala um. Ef við tökum til dæmis Dag Dan [Þórhallsson], sem getur spilað á miðjunni hjá okkur og á kantinum. Hann hefur verið að standa sig mjög vel, stóð sig mjög vel í janúar og stendur sig mjög vel í Bandaríkjunum akkúrat núna.

Hann hefur tekið þessi skref undanfarið ár mjög auðveldlega og gert þetta mjög vel. Þá er auðvitað alltaf erfitt að velja til dæmis Þóri [Jóhann Helgason], sem er ekki að spila mikið akkúrat núna. En það er einfaldlega þannig í íþróttum og hópíþróttum að það er erfiðara að komast inn en að detta út.

Þeir sem hafa verið inni hafa staðið sig vel, til dæmis Þórir. Hann hefur staðið sig mjög vel með íslenska landsliðinu, spilað góða leiki, skorað mikilvæg mörk fyrir okkur og á bara fyllilega skilið að vera ennþá í hópnum.

Hin hliðin er sú að Dagur Dan er ekki bara að banka á dyrnar, hann er farinn að berja á þær. Sem er bara jákvætt, það er samkeppni og það er mitt að meta hver er besti hópurinn hverju sinni. Svo er það leikmannanna að halda sínu sæti,“ svaraði landsliðsþjálfarinn.

Liðin taka stig hvert af öðru

Í J-riðlinum er Portúgal í sérflokki og Liechtenstein lakast. Á meðan geta hin fjögur liðin talist áþekk að getu og munu öll líta til þess að krækja í annað sætið í riðlinum.

„Ég held að við verðum að vera mjög sátt við þennan riðil en ég held að Bosnía, Slóvakía og Lúxemborg segi það nákvæmlega sama vegna þess að allar þessar fjórar þjóðir horfa á riðilinn og hugsa: „Heyrðu, þetta er möguleiki!“

Að sjálfsögðu viljum við miklu frekar vera í þessum riðli og fá Portúgal en að vera til dæmis með Englandi í riðli, sem var í styrkleikaflokki númer tvö. Þannig að það eru möguleikar. Það sem gerist yfirleitt í svona riðlum er að liðin taka stig hvert af öðru og oft og tíðum þarftu þá færri stig til þess að ná í annað sætið.

Ég er til dæmis mjög ánægður með að Slóvakía, sem er næstefst á styrkleikalista FIFA af liðunum í riðlinum, skuli hafa komið upp úr styrkleikaflokki fimm, einfaldlega vegna þess að ef Slóvakía væri ekki í riðlinum og við hefðum fengið slakara lið úr styrkleikaflokki fimm þá væri leikurinn úti á móti Bosníu algjör lykilleikur. Þá væri það leikur sem mætti alls ekki tapast,“ sagði Arnar að lokum við Morgunblaðið.

 Hlutar af viðtalinu við Arnar hafa birst á mbl.is/sport, m.a. um fjarveru Alberts Guðmundssonar og Birkis Bjarnasonar úr hópnum.

Undankeppni EM 2024

Ísland er í J-riðli undankeppni Evrópumóts karla í fótbolta en lokakeppnin fer fram í Þýskalandi sumarið 2024.

Í riðlinum eru Portúgal úr 1. styrkleikaflokki, Bosnía úr 2. flokki, Ísland úr 3. flokki, Lúxemborg úr 4. flokki, Slóvakía úr 5. flokki og Liechtenstein úr 6. flokki.

Portúgal er í 9. sæti á heimslista FIFA, Slóvakía í 54. sæti, Bosnía í 57. sæti, Ísland í 63. sæti, Lúxemborg í 92. sæti og Liechtenstein er í 198. sæti af 211 þjóðum.

Tvö efstu liðin komast í lokakeppnina í Þýskalandi. Til viðbótar fara tólf lið í umspil um þrjú síðustu sætin, samkvæmt árangri í síðustu Þjóðadeild UEFA. Miklar líkur eru á að Ísland færi í það umspil ef liðinu tekst ekki að komast beint á EM í gegnum riðilinn.

Ísland leikur í Bosníu 23. mars, í Liechtenstein 26. mars, heima gegn Slóvakíu 17. júní, heima gegn Portúgal 20. júní, í Lúxemborg 8. september, heima gegn Bosníu 11. september, heima gegn Lúxemborg 13. október, heima gegn Liechtenstein 16. október, í Slóvakíu 16. nóvember og í Portúgal 19. nóvember. Umspilið fer fram í mars 2024.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson