Fyrra pallborðið Þátttakendur ræddu ýmsar hliðar á því alþjóðasamstarfi sem Ísland tekur þátt í og þýðingu þess fyrir öryggis- og varnarmál landsins.
Fyrra pallborðið Þátttakendur ræddu ýmsar hliðar á því alþjóðasamstarfi sem Ísland tekur þátt í og þýðingu þess fyrir öryggis- og varnarmál landsins. — Morgunblaðið/Eggert
Fjölmenni var í Norðurljósasal Hörpu í gær, en þar fóru fram umræður um þjóðaröryggi og alþjóðasamstarf í boði Þjóðaröryggisráðs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Þjóðaröryggisráðs, flutti upphafsorð ráðstefnunnar

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Fjölmenni var í Norðurljósasal Hörpu í gær, en þar fóru fram umræður um þjóðaröryggi og alþjóðasamstarf í boði Þjóðaröryggisráðs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Þjóðaröryggisráðs, flutti upphafsorð ráðstefnunnar. Katrín segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé vanþörf á slíkri ráðstefnu í ljósi stöðunnar í alþjóðamálum.

Katrín lagði meðal annars áherslu í ræðu sinni á mikilvægi þess fyrir lítið land með sterka rödd eins og Ísland að það taki virkan þátt í alþjóðasamstarfi, þar sem borin sé virðing fyrir alþjóðalögum og reglum um samskipti þjóða. „En mér fannst líka koma mjög skýrt fram að það sé þörf á að dýpka umræðuna. Það er ekki nóg að halda svona málþing tvisvar á ári og skiptast þar á skoðunum, það er þörf á aukinni áherslu á rannsóknir og virkari umræðu um þessi mál, og að hún sé viðvarandi,“ segir Katrín.

Katrín segir í því samhengi að lengi hafi verið rætt um þörfina á sérstakri stofnun sem fjallaði um öryggis- og varnarmál, sem væri þá t.d. innan vébanda Háskóla Íslands. „Og allt er það gott og vel, en ein hugmynd sem kom þarna upp var að það mætti jafnvel efla þessa áherslu í samkeppnissjóðum, þannig að við værum með gróskumikla umræðu en ekki bara einhverja eina litla stofnun,“ segir Katrín, en hún nefndi í lokaorðum sínum á ráðstefnunni að nýta mætti markáætlun, samkeppnissjóð stjórnvalda, í því skyni. „Þar eru sett fram tiltekin viðfangsefni sem þörf er á að rannsaka, en það er gert á þeim forsendum að samkeppnis- og gæðasjónarmið ráða för við úthlutun fjármuna.“

Mikilvægt að beita röddinni

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti einnig erindi á fundinum, þar sem hún fjallaði um það hvernig Ísland gæti beitt sér í krafti smæðarinnar á alþjóðavettvangi, sem og á hvaða grunni öryggi Íslands hvíldi.

Lagði Þórdís Kolbrún áherslu á að það yrði að vera til staðar alþjóðakerfi, og að því fylgdi ábyrgð ef brotið væri gegn því. Þá þyrfti Ísland að vera verðugur bandamaður þeirra ríkja sem heitið hafa því að verja landið ef alþjóðakerfið bregst.

Þórdís Kolbrún fjallaði einnig mikið um heimsókn sína og forsætisráðherra til Úkraínu. Katrín segir aðspurð að heimsóknin hafi haft mikil áhrif á þær. „Það verður manni svo ljóst hversu mikil forréttindi það eru að búa í friðsamlegu samfélagi og um leið hvernig allar framfarir byggjast á því að það sé friður, því öll framfaramál víkja þegar stríð stendur yfir,“ segir Katrín.

Katrín segir aðspurð að Ísland hafi og muni áfram styðja við Úkraínu með ýmsum hætti. „En við megum heldur ekki vanmeta þann stuðning sem felst í skýrri pólitískri rödd, og henni getum við beitt enn meira til stuðnings Úkraínu og til stuðnings þessum gildum, mannréttindum, alþjóðalögum og lýðræði.“

Katrín bætir við að ekki sé síður mikilvægt að Ísland beiti rödd sinni mjög skýrt í þágu jafnréttis. „Við sjáum það í þessu stríði, að kynbundnu ofbeldi er beitt óspart í þessu stríði, eins og svo mörgum öðrum, og þá skiptir miklu máli að tala um það og vekja athygli á því.“

Alþjóðasamstarf og innviðir

Að loknu erindi Þórdísar flutti Christoph Heusgen, forstöðumaður öryggisráðstefnunnar í München, stutt ávarp í gegnum fjarfundabúnað, en svo hófust pallborðsumræður, sem Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, stýrði. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, Hermann Örn Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá NATO, Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum, Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra, og Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði, tóku þátt í pallborðinu og ræddu þar ýmsar hliðar öryggis- og varnarmála og þess alþjóðasamstarfs sem Ísland er hluti af.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri stýrði umræðum í seinni hluta ráðstefnunnar, en þær snerust einkum um varnir Íslands á innviðum sínum, t.d. gegn netárásum og öðrum fjölþátta ógnum, auk þess sem komið var inn á mikilvægi þess að vera sjálfbær í orkumálum. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, og Bjarni Már Magnússon, prófessor í lögfræði við Háskólann á Bifröst, tóku til máls.