Björn Jónasson
Björn Jónasson
Ísland án fornbókmenntanna og Ísland með fornbókmenntir er ekki sama landið. En þjóðargjöf verður þetta aldrei – við eigum þetta öll saman.

Björn Jónasson

Leiðrétting á staðreyndum, fyrir þá sem komnir eru yfir sextugt.

Það var einu sinni fyrirtæki sem hét Svart á hvítu. Það fyrirtæki gaf út Íslendingasögur og Sturlungu og lagði drög að útgáfu á heildarverkum Jónasar Hallgrímssonar. Og allir fengu launin sín greidd.

Þetta gekk allt saman vel og við lögðum aðaláhersluna á að vekja áhuga almennings á þessum bókmenntaarfi okkar, við fórum á heimilissýninguna í Laugardagshöll og gerðum barmmerki með frægum setningum úr sögunum, gerðum Íslendingasagnakort og seldum mikið.

Nú horfir öðruvísi við og allt gengur út á að hafa peninga – án nokkurs aðgangs að hjörtum fólksins sem á þennan arf alveg skuldlaust.

Síðan var birt auglýsing: Þjóðargjöf er þetta kallað núna. Við fáum þetta fjármagnað sem gjöf! Þetta er ekki lengur sameign okkar allra, enda skilst mér að hún sé ekki til. Við getum ekki átt neitt saman.

Þessir ágætu menn, sem nú eru sagðir gjafmildir mjög, voru hvergi sjáanlegir meðan kostnaðurinn við útgáfu Íslendingasagnanna, Sturlungu og ýmislegs annars var borinn af Svart á hvítu ehf. og engum öðrum. Hvergi var menningarráðuneytið heldur að finna. Enda var árið 1985 og óligarkíið varla búið að slíta barnsskónum.

Það var semsagt ekki Brim, Mjólkursamsalan, Novator, Bláa lónið, Marel, Arnarlax, Isavia, Eimskip, N1, Landsvirkjun, Samskip, Hagar, Ölgerðin Egill Skallagrímsson, Pósturinn, Höldur – Bílaleiga Akureyrar, Soffanías Cecilsson, FISK Seafood, Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, Skinney-Þinganes, Sjóvá, Seðlabanki Íslands og Samtök iðnaðarins sem fjármögnuðu og stóðu undir kostnaði þegar á reyndi. En auðvitað er gaman að njóta þess sem vel er gert þótt jafnframt megi spyrja hvort nokkur verði fátækur af því einu að láta þá njóta þess sem þeir eiga skilið.

Það kann vel að vera að menn hafi látið prenta einhver eintök en það er dálítið mikið annað en að sjá um kostnaðinn af verkefninu.

Blessað ólígarkíið er ekkert sérstaklega vel að þessu komið heldur. Um það skrifaði mér í bréfkorni fyrir fáeinum árum Austin Mitchell (1934-2021), þingmaður breska Verkamannaflokksins. Sá mikli talsmaður breskra sjómanna var Íslendingum vel kunnur á þorskastríðsárunum því hann tók þar afstöðu með Íslendingum. Austin Mitchell vildi að ráðstöfun sjávarauðlindarinnar við Íslandsstrendur væri í höndum Íslendinga; hún ætti að vera þjóðareign, sagði hann. Aldrei hefði hann barist svo hart í þinginu breska hefði honum hugkvæmst að niðurstaðan yrði sú að hún myndi lenda í fárra höndum.

Og við höfum heyrt svipað frá skipherrum í Landhelgisgæslunni sem sigldu á varðskipunum; öll áhöfnin hætti lífi sínu og limum.

En alla vill fákeppnisauðvaldið beygja.

Þjóð sem ekki á menningararfinn sinn á lífi á ekki neitt. Hún er eignalaus. Og hvað er að eiga menningararfinn sinn á lífi? Það er með því að þjóðin sem hefur átt sitt líf hér hafi áhuga og skilning á hvað það er að eiga sögu og menningu. Ísland án fornbókmenntanna og Ísland með fornbókmenntir er ekki sama landið. En þjóðargjöf verður þetta aldrei – við eigum þetta öll saman.

Í rússnesku byltingunni var mikið um að menn birtu myndir og skæfu út þá sem ekki voru í náðinni eða væru þurrkaðir út, þannig að enginn var til sem Stalín vildi ekki. Fræg er myndin af Trotskí, þegar Lenín var að halda barátturæðu. Hann var einn af þeim sem ekki máttu vera til. Það er ekki öruggt að það sé mikil eftirsjá að Stalín þótt aðferðirnar séu svipaðar, enda ganga menn hreint til verks.

Þetta ljóð eftir Einar Má Guðmundsson birtist einmitt í tímaritinu Svart á hvítu, og sér langt fram á veg, eins og skáldum einum er lagið:

rússneska byltingin

er einsog fjölskyldualbúm sem

við flettum án þess að vita hver

tók myndirnar og það er jafnvel

vafaatriði af hverju þær eru

aðeins eitt er víst;

frankenstein tók völdin að lokum.

Höfundur er útgefandi.