Sigríður Sigurðardóttir iðnaðarverkfræðingur og Vala Hjörleifsdóttir jarðeðlisfræðingur starfa hjá Veitum og Orkuveitu Reykjavíkur. Á myndina vantar Kolbrúnu.
Sigríður Sigurðardóttir iðnaðarverkfræðingur og Vala Hjörleifsdóttir jarðeðlisfræðingur starfa hjá Veitum og Orkuveitu Reykjavíkur. Á myndina vantar Kolbrúnu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skipulagið hjá Veitum er þannig að við erum með vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu og rafveitu og tvö stoðsvið og mitt starfssvið er að þjónusta þessar veitur,“ byrjar dr. Sigríður Sigurðardóttir iðnaðarverkfræðingur sem fer fyrir teymi…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Skipulagið hjá Veitum er þannig að við erum með vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu og rafveitu og tvö stoðsvið og mitt starfssvið er að þjónusta þessar veitur,“ byrjar dr. Sigríður Sigurðardóttir iðnaðarverkfræðingur sem fer fyrir teymi snjallvæðingar og stafrænnar þróunar hjá Veitum, einu dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur, en sköpun verðmæta úr gögnum, sem safnað er í gríð og erg í hennar véum, er eitt af hlutverkum hennar teymis.

„Gögnin snúast um allt sem er að gerast í kerfinu, við erum að mæla þrýsting og hitastig, gæðin á vatninu og rennsli. Okkar stærsta áskorun er að bæta þessar mælingar þar sem við erum að mæla hluti sem við sjáum minnst af, þetta er allt ofan í jörðinni svo við erum að bæta við mælum í gríð og erg og risastórt verkefni núna er þessi snjallvæðing þar sem við erum að setja snjallmæla á alla okkar viðskiptavini í hitaveitu og rafveitu og eins á fyrirtækin hvað kalda vatnið snertir,“ segir Sigríður.

Hún var „alin upp hjá Matís“, eins og hún orðar það, en hóf störf hjá Veitum fyrir tæpum fjórum árum og fæst þar einkum við hermilíkön og svokallaða stafræna tvíbura. „Nú eigum við hermilíkön af allri hitaveitunni og erum langt komin með hinar veiturnar. Markmiðið er að eiga slík líkön af öllum kerfunum okkar en með þeim getum við skoðað hvaða framtíðarsviðsmynd sem er,“ útskýrir Sigríður og nefnir sem dæmi um gagnsemi þessa að hægt sé að skyggnast inn í framtíðina og skoða áhrif ýmissa þátta á veitukerfin, hvernig staðan verði til dæmis ef nýtt hverfi spretti upp á einum stað eða byggð þéttist á öðrum. Þarf þá að byggja nýja dælustöð eða bæta við lögnum?

Ekki við annan að versla

Á þessum vettvangi sé langtímahugsunin ráðandi, lítið tjói að hugsa bara fram í næstu viku þegar um er að tefla lagnir í jörðu sem endast þurfi í 50 eða jafnvel 100 ár. „Við mötum þessi líkön á svokölluðum eftirspurnarspám þar sem við erum búin að kortleggja hvað við höldum að muni gerast næstu árin. Samfélagið er alltaf að breytast og stækka og í rafveitunni eru orkuskipti, allri þessari orku þarf að koma til viðskiptavina. Kannski má segja að okkar hlutverk sé frekar einfalt, að koma vatni og raforku til notenda og taka við skólpi frá þeim, en þarna er mikilvægt að fylgjast með tækninni og reka veitukerfin á eins hagkvæman hátt og hægt er, fólk hefur ekki val um að versla við neinn annan svo okkar ábyrgð felst í að fara vel með fjármunina sem okkur er treyst fyrir,“ segir Sigríður Sigurðardóttir af skyldum fyrirtækis hennar sem jafnvel ná til enn ófæddra borgara framtíðarinnar.

Vala Hjörleifsdóttir jarðeðlisfræðingur starfar innan vébanda rannsóknar- og nýsköpunardeildar Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem stund er lögð á auðlindarannsóknir, en bjó um árabil í Mexíkóborg þar sem hún kenndi jarðskjálftafræði.

„Við erum ábyrg fyrir framtíðarsýn í nýtingu auðlinda fyrir Orku náttúrunnar, Veitur og Carbfix, þeirra auðlinda sem eru á svæðum þessara fyrirtækja. Við erum líka með yfirsýn yfir nýsköpun innan Orkuveitusamstæðunnar auk þess að sinna rannsóknum á umhverfismálum og verkefnum sem snúa að jarðhitaleit og auðlindanýtingu til framtíðar,“ segir Vala og bætir því við að í hennar deild starfi jarðvísindafólk með auðlindavinkil auk verkfræðinga, þegar litið sé til fjölmennustu stétta þar.

Stóran hluta vinnu rannsóknar- og nýsköpunardeildar segir hún fara fram í teymum. „Við erum mikið í samstarfi við ytri aðila sem eru að vinna verkefni fyrir okkur. Þá erum við mikið í því hlutverki að deila upplýsingum, skilgreina verkefni og fylgja þeim eftir,“ heldur Vala áfram og nefnir Íslenskar orkurannsóknir, Jarðboranir og verkfræðistofur sem dæmi um þá ytri aðila sem að samstarfinu koma.

Rannsóknarboranir í bígerð

„Við komum að borunum á þeim holum sem boraðar eru fyrir Orku náttúrunnar og Veitur, við ákveðum hvar á að bora, fáum þar stuðning frá Íslenskum orkurannsóknum og svo tekur Orka náttúrunnar við og borar holurnar á meðan við fylgjumst með jarðvísindavinklinum,“ útskýrir Vala en í hennar verkahring eru meðal annars rannsóknir á nýjum nýtingarsvæðum eftir rammaáætlun. „Við erum núna að undirbúa rannsóknarboranir uppi í Hengli og vinnum líka með Veitum, þar sem þau eru að reka hitaveitur, og erum í rannsóknarborunum fyrir ný svæði á þeirra vettvangi,“ heldur hún áfram.

Verkfræðingur fram í fingurgóma

Svo sem nafn deildar Völu ber með sér er nýsköpun einnig þungavigtarþáttur í starfseminni. „Við erum í nokkrum rannsóknarverkefnum í samstarfi við háskóla og aðila úti í heimi sem tengjast þessum sömu verkefnum, auðlindarannsóknum og umhverfismálatengdri nýsköpun,“ segir hún og nefnir sem dæmi djúpborun sem gengur út á að bora niður fyrir það jarðhitakerfi sem verið er að bora úr núna og komast þá í hærri hita og orkuríkari vökva, það er að segja vinna orkuna úr svæði sem er fyrir neðan virka jarðhitakerfið. Djúpborunin nær að sögn Völu einn kílómetra eða lengra niður fyrir efra jarðhitakerfið svo vegalengdin er umtalsverð.

Orka náttúrunnar rekur smiðshöggið á þetta viðtal en þar er það Kolbrún Ragna Ragnarsdóttir nýsköpunarstjóri ON sem verður fyrir svörum, verkfræðingur fram í fingurgóma með grunnnám í hátækniverkfræði og meistarapróf í vélaverkfræði. „Ég byrjaði fyrst sem vísindakona í meðal annars jarðvarmatengdum rannsóknarverkefnum og með sterk tengsl í alþjóðleg verkefni, að stýra þeim og fylgja þeim eftir,“ segir Kolbrún sem starfaði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands áður en leiðin lá til ON og er tenging hennar við nýsköpunargeirann og frumkvöðlafyrirtæki því sterk.

Fóru af stað með orkuskiptin

„Það er skýr stefna ON að vera framdrifið fyrirtæki sem hugsar um nýsköpun og við höfum alltaf, að mínu mati, verið frumkvöðull í byggingu og nýtingu jarðvarmavirkjana,“ heldur Kolbrún áfram og segir Íslendinga mjög heppna, þegar litið sé til annarra landa, að eiga sér jarðvarma til húshitunar.

Markmið ON er að auka lífsgæði og skapa verðmæti á sjálfbæran hátt. „Við fórum af stað með orkuskiptin, fyrsta hleðslustöðin var sett upp hjá okkur 2014 og nú erum við að þróa þann markað áfram, og hvernig við getum þjónustað viðskiptavini okkar enn betur,“ segir Kolbrún. Hún játar að verkefnið um kolefnishlutleysi plánetunnar sé það sem nú eigi hug hennar að stórum hluta.

„Við erum að taka þátt í því sem er að gerast í umhverfinu og við erum með það markmið hjá ON að vera kolefnishlutlaus árið 2030, við erum þegar búin að koma okkur mjög langt í þá átt og þá einkum í samstarfi við Carbfix [fyrirtæki sem vinnur að bindingu koltvísýrings í bergi],“ segir Kolbrún og nefnir verkefnið Silverstone sem fékk Evrópustyrk og gengur út á að binda 95 prósent af útblæstri Hellisheiðarvirkjunar með aðferð Carbfix fyrir árið 2025. Með því framtaki verður Hellisheiðarvirkjun fyrsta kolefnishlutlausa jarðvarmavirkjunin í heiminum.

Jarðvarmi sterkt vörumerki

„Við erum að reyna að brjótast út fyrir kassann og hugsa um Orku náttúrunnar sem skemmtilegan vinnustað þar sem frjórri hugsun er gert hátt undir höfði. Ætlun okkar er að efla nýsköpunarmenningu en ekki daga uppi eins og nátttröll, frjó hugsun og sveigjanleiki gera frábæra hluti fyrir fyrirtækið,“ segir Kolbrún og segir frá verkefnum á vegum ON í Jarðhitagarðinum við Hellisheiðarvirkjun sem rætt er um annars staðar hér í blaðinu.

„Jarðvarmi er svo sterkt vörumerki. Við erum með alls konar vörur sem eru unnar við jarðvarmavirkjanir og ég heyri það bara þegar ég tala við erlend fyrirtæki að það að tengja vörumerki við jarðvarma er gífurlega sterkt. Þess vegna þarf að vera grunnstig fyrir nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla til að geta prófað sig áfram eins og við ætlum að bjóða upp á hjá ON,“ segir Kolbrún Ragna Ragnarsdóttir nýsköpunarstjóri að síðustu.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson