Loftslagsmarkmið Íslands sem og orkuskipti kalla á meiri fjárfestingu í uppbyggingu á raforkukerfi Landsnets. Því er mikilvægt að leita leiða til að nýta kerfið betur sem og að tryggja sanngirni í verðlagningu á mismunandi landsvæðum.
Loftslagsmarkmið Íslands sem og orkuskipti kalla á meiri fjárfestingu í uppbyggingu á raforkukerfi Landsnets. Því er mikilvægt að leita leiða til að nýta kerfið betur sem og að tryggja sanngirni í verðlagningu á mismunandi landsvæðum. — Ljósmynd/Landsnet
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hlutverk Landsnets er að flytja raforku frá framleiðanda til notenda. Viðskiptavinir Landsnets eru framleiðendur, raforkusalar, stórnotendur og dreifiveitur sem koma rafmagni heim til fólks. „Við erum lykilinnviður þjóðarinnar og því fylgir…

Svanhvít Ljósbjörg Gígja

svanhvit@mbl.is

Hlutverk Landsnets er að flytja raforku frá framleiðanda til notenda. Viðskiptavinir Landsnets eru framleiðendur, raforkusalar, stórnotendur og dreifiveitur sem koma rafmagni heim til fólks. „Við erum lykilinnviður þjóðarinnar og því fylgir mikil ábyrgð,“ segir Sveinn Guðlaugur Þórhallsson, sérfræðingur í þróun á viðskiptaumhverfi hjá Landsnet. „Örugg afhending orku er mikilvægasta viðfangsefnið okkar en samhliða því þarf ákvarðanataka að vera gagnsæ og byggjast á öflugri upplýsingagjöf, samtali og samvinnu. Viðskiptaumhverfið er að breytast hratt vegna drifkrafta á borð við loftslagsáskoranir, tækniframfarir og auknar kröfur um gagnsæi og verðmerki. Við hjá Landsneti þurfum að skoða hvort núverandi gjaldskrá mætir þörfum viðskiptavina. Það er ekki þar með sagt að við ætlum að breyta öllu en það er nauðsynlegt að skoða hvort atriði í gjaldskránni séu enn jafnviðeigandi í dag.“

Gott afhendingaröryggi raforku

Sveinn segir að verið sé að skoða nokkur atriði í gjaldskránni og eitt af þeim sé afhendingaröryggi. „Skilgreining á afhendingaröryggi er geta flutningskerfisins til þess að afhenda viðskiptavinum það rafmagn sem krafist er og er af tilskildum gæðum. Gæðin í þessu samhengi eru mælikvarðinn á því hversu góða þjónustu viðskiptavinir fá. Viðskiptavinir okkar í þessu tilfelli eru dreifiveitur en Landsnet afhendir dreifiveitum raforku og dreifiveitur afhenda raforku áfram til heimila. Almennt séð er afhendingaröryggi á landinu öllu gott en afhendingarhlutfall raforku er í dag yfir 99%. Þá er verið að tala um kerfið í heild sinni en staðreyndin er sú að afhendingaröryggið er breytilegt eftir afhendingarstöðum. Samtals afhendum við raforku á 62 afhendingarstöðum á landinu og það er mismunandi hversu oft verður rafmagnslaust.“

Allir greiða sama gjald

Þá segir Sveinn að í dag greiði allar dreifiveitur sama gjald, óháð því hvert afhendingaröryggið er á hverjum stað. Dreifiveitur á svæðum þar sem er meira um rafmagnstruflanir greiða sama gjald og dreifiveitur á svæðum þar sem minni líkur eru á rafmagnsleysi. „Markmið okkar er að stuðla að því að það sé meiri sanngirni til staðar og við erum komin langt með að skoða hvernig við getum hannað gjaldskrána þannig að hún taki mið af afhendingaröryggi á hverjum stað,“ segir Sveinn og bætir við að Landsnet vinni að því að tvöfalda tengingar í samræmi við stefnu stjórnvalda. „Tvær tengingar þýðir að það séu tvær leiðir fyrir rafmagnið inn á hvert svæði til þess að koma í veg fyrir rafmagnsleysi ef önnur leiðin dettur út. Afhendingarstaðir sem eru ekki með tvær tengingar koma til með að búa við minna afhendingaröryggi á meðan staðan er óbreytt. Til þess að tryggja sanngjarna skiptingu á kostnaði þurfum við að skoða leiðir til þess að verðleggja afhendingaröryggið til dreifiveitna.“