Guðmundur Elí Pedersen fæddist á Siglufirði 9. október 1947. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi 9. mars 2023.

Foreldrar hans voru Johan Pedersen fisksali, f. 11.11. 1906 í Noregi, d. 21.11. 1968, og Stefanía Guðmundsdóttir, f. 3.8. 1906 á Tjörnum í Sléttuhlíð, d. 21.2. 1973.

Bræður Guðmundar eru: 1) Harry, f. 7.2. 1936, d. 21.4. 2008. 2) Villy, f. 10.8. 1937, d. 20.2. 2021. 3) Hálfbróðir samfeðra Stefán Birgir, f. 7.12. 1936.

Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Ingibjörg Bertha Björnsdóttir, f. 13.5. 1952. Þau giftu sig 2.9. 1972.

Börn þeirra eru: 1) Hlynur, f. 27.7. 1972, kona hans er Þórdís Wathne. Saman eiga þau soninn Svala en fyrir á Hlynur synina Jóhann Inga og Kristján Elí, Þórdís á fyrir börnin Sævar Má og Ingu Dís. 2) Björn, f. 9.1. 1975, kona hans er Ólafía Helgadóttir. Saman eiga þau börnin Bertel Snæ og Ingibjörgu Emblu en fyrir á Ólafía dótturina Vigdísi Lilju. 3) Jóhann, f. 7.11. 1981, kona hans er Helen Kaltvedt. Börn Jóhanns eru Garðar Elí og Sigríður Margrét. Helen á fyrir soninn Patrik.

Fyrstu árin ólst Guðmundur upp á Siglufirði en fluttist svo suður með foreldrum sínum og bræðrum. Hann lauk grunnskólagöngu í Barnaskóla Garðahrepps, þaðan lá leiðin í Flensborg og síðar í Stýrimannaskólann þaðan sem hann útskrifast 1971.

Hann var ungur farinn að vinna fyrir sér, fór á sjóinn á unglingsárum og var þá hjá hinum aflasælu Auðunsbræðrum. Með skóla var hann á sjó hjá Eimskip og starfaði þar alla tíð síðan þar til hann hann lét af störfum vegna aldurs eftir 49 ár. Hjá Eimskip gegndi hann ýmsum ábyrgðarstörfum til sjós og lands.

Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 23. mars 2023, klukkan 13.

Elsku afi. Þú varst alltaf mjög indæll og jákvæður. Við fórum oft í göngutúr með þér og ömmu Ingibjörgu og héldum því áfram þótt þú værir orðinn veikur til að fá smá frískt loft. Við púsluðum og kubbuðum saman á Sólvangi.

Við trúum því að þér líði betur núna og hugsum til þín þegar við sjáum alla fallegu liti himinsins.

Við söknum þín.

Þín

Inga Dís
og Svali.