Laufey Guðmundsdóttir sýningarstjóri Jarðhitasýningarinnar og Helga Kristín Jóhannsdóttir viðskiptaþróunarstjóri Jarðhitagarðs með gufustróka og sólskin í baksýn.
Laufey Guðmundsdóttir sýningarstjóri Jarðhitasýningarinnar og Helga Kristín Jóhannsdóttir viðskiptaþróunarstjóri Jarðhitagarðs með gufustróka og sólskin í baksýn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hérna erum við með fræðslu- og vísindasýningu sem segir frá öllu ferlinu innan virkjunarinnar og starfsemi ON hér á Hengilssvæðinu, alveg frá jarðfræðinni yfir í það hvernig við búum til rafmagnið,“ útskýrir Laufey Guðmundsdóttir,…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Hérna erum við með fræðslu- og vísindasýningu sem segir frá öllu ferlinu innan virkjunarinnar og starfsemi ON hér á Hengilssvæðinu, alveg frá jarðfræðinni yfir í það hvernig við búum til rafmagnið,“ útskýrir Laufey Guðmundsdóttir, sýningarstjóri Jarðhitasýningarinnar í stöðvarhúsi Hellisheiðarvirkjunar.

Hellisheiðarvirkjun er ein af fimm stærstu jarðvarmavirkjunum heims og sú stærsta í Evrópu, en þessi tæplega tuttugu ára gamla virkjun er með uppsett afl upp á 303 megavött af raforku og 210 megavött af varmaorku.

„Hjá okkur er opið 363 daga á ári, við erum bara með lokað á jóladag og nýársdag,“ segir Laufey. Á meðalári geta aðstandendur sýningarinnar reiknað með að 100.000 gestir fræðist um framangreind atriði og eins og nærri má geta eru nemendahópar þar áberandi, flestir á vegum breskra og bandarískra skóla. Segir Laufey þar mikið um nemendur í jarðvísindum og bætir því við aðspurð að sýningin njóti jafnan mjög jákvæðrar gagnrýni frá kennurum erlendu skólanna sem senda jarðfræðistúdenta sína í vettvangsferð um þessa geysistóru kennslustofu sem Ísland er þar sem námsefnið er hvergi nærri bundið við blaðsíður eða fyrirlestraform. Um sé að ræða allt frá nemendum efstu bekkja grunnskóla og yfir í doktorsnema.

Sakna Íslendinga

„Kúnnahópurinn okkar er þó mjög fjölbreyttur, ferðafólk á leið um Gullna hringinn og inn á Suðurlandið stoppar hér og svo fáum við hópa sem eru hér á landi í tengslum við ráðstefnur auk almenns áhugafólks um nýsköpun og orkuvinnslu,“ segir Laufey sem er viðskiptafræðingur og verkefnastjóri MPM að mennt og starfaði áður sem verkefnisstjóri áfangastaðaáætlunar Suðurlands og því öllum hnútum kunnug í landshlutanum.

Sýningarstjórinn segir að gaman væri að fá fleiri íslenska gesti á heiðina, Íslendingar séu aðeins um fimm prósent þeirra sem leið sína leggja á sýninguna en á hinum enda skalans eru Bandaríkjamenn sem eru helmingur allra gesta. Segir Laufey marga þeirra á vegum ferðaskrifstofa sem sérhæfa sig í fræðsluferðum.

Endurspeglar starfsemina

„Fólki þykir mjög áhugavert að sjá hvað við erum að gera hér, nýta alla auðlindastraumana og búa til litlar hringrásir innan svæðisins,“ segir Laufey. „Hægt er að bóka leiðsögn fyrir hópa og fyrir einstaklinga bjóðum við upp á hljóðleiðsögn en þá hleður fólk niður appi frá okkur og gengur um sýninguna í þeirri röð sem því hentar,“ heldur hún áfram.

Hlutverk Laufeyjar er að reka sýninguna og gæta þess að allt sé til reiðu og á sínum stað þegar gesta er von. „Þetta er eitt af þessum störfum þar sem maður stillir deginum upp á einn hátt en dagurinn endar allt öðruvísi,“ segir Laufey og vottar fyrir brosinu gegnum símtalið. „Þetta er lifandi og skemmtilegt og alls konar fjölbreytt verkefni, hvort sem er í skipulagi eða almennum samskiptum en auk þess er líka mikilvægt að við séum í góðum samskiptum við öll fyrirtækin innan samstæðu Orkuveitunnar svo við séum sannarlega að endurspegla þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni og mér finnst sérstaklega skemmtilegt að sjá hve mikil nýsköpun er í gangi.“

Fjölnýting efnisstrauma

Jarðhitagarður ON er öflugur vettvangur fyrir jarðvarmatengda nýsköpun, rannsóknir og þróun og þekur 103 hektara svæði fyrir vestan Hellisheiðarvirkjun þar sem ON byggir upp grænan iðngarð.

Helga Kristín Jóhannsdóttir tók nýlega við stöðu viðskiptaþróunarstjóra Jarðhitagarðs. Helga er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði, M.Sc. í fjármálum og starfaði áður meðal annars hjá Marel. „Orka náttúrunnar er stærsta fyrirtæki í nýtingu jarðvarma á Íslandi. Við starfrækjum tvær jarðvarmavirkjanir nálægt Reykjavík sem framleiða bæði rafmagn og heitt vatn til húshitunar,“ hefur Helga mál sitt.

Virkjanirnar sem hún nefnir eru Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun en ON framleiðir um rúmlega helming alls þess heita vatns sem notað er á höfuðborgarsvæðinu auk þess að selja rafmagn út um allt land. Þá er Andakílsárvirkjun, vatnsaflsvirkjun sem framleiðir rafmagn, einnig á vegum ON.

Eitt af gildum ON er að efla
græna nýsköpun með hringrásarhugsun að leiðarljósi. „Og það er eitt af því sem við viljum gera með Jarðhitagarðinum, við viljum sjá þar fjölbreytta starfsemi sem nýtir græna orkustrauma virkjunarinnar með hringrásarhugsun að leiðarljósi og þannig leggja okkar af mörkum við að ná loftslagsmarkmiðum og nýta auðlindina á ábyrgan hátt,“ segir Helga.

Helga segir áhuga fyrirtækja á Jarðhitagarðinum mikinn og áberandi sókn sé í að komast þangað með starfsstöðvar. „Eftirspurn eftir orku er mun meiri en framboðið svo mitt helsta verkefni er að fylgjast vel með upprennandi fyrirtækjum og tækniþróun og gæta þess að velja vel þau fyrirtæki sem koma inn í Jarðhitagarðinn.“

Öflug nýsköpun

Helga segir Jarðhitagarðinn við virkjunina hafa þroskast vel og sé nú fyrirmynd fleiri slíkra í grennd jarðvarmavirkjana hér á landi. „Nálægðin við virkjunina gefur kost á að beintengja fyrirtækin við orku- og aðra auðlindastrauma frá virkjuninni en fyrir utan landið sjálft er þarna greiður aðgangur að grænu rafmagni, háhitavatni, heitu og köldu vatni og koltvísýringi sem allt getur nýst til ýmiss konar framleiðslu.“

Við Jarðhitagarðinn er jafnframt aðstaða þar sem nýsköpunarfyrirtæki og aðilar í þróunarverkefnum geta sannreynt vöru sína eða tækni. ,,Verkefni sem nú eru í garðinum hafa byrjað þar á smærri skala og í framhaldinu komið inn í Jarðhitagarð og vaxið,“ segir Helga. „Það verkefni sem ég kem inn í núna er að halda áfram með stefnumótun og viðskiptaþróun fyrir Jarðhitagarð en þar eru nú þegar virkilega spennandi fyrirtæki.“

Í Jarðhitagarði ON eru nú fimm fyrirtæki auk Jarðhitasýningarinnar. VON vetnisframleiðsla, Climeworks sem rekur lofthreinsiver og fangar koltvísýring í andrúmsloftinu og Carbfix sem bindur koltvísýringinn í berg neðanjarðar, en Carbfix-tæknin var einmitt þróuð innan ON og Jarðhitagarðs. Þar eru einnig VAXA Technologies sem ræktar smáþörunga til mann- og fiskeldis og GeoSilica sem framleiðir náttúruleg fæðubótarefni úr steinefnum sem unnin eru úr háhitasvæðinu.

Kolefnishlutleysi 2025

„Auðvitað viljum við öll nýta auðlindir á sem ábyrgastan hátt og dæmi um hringrásarhugsun í Jarðhitagarði er hvernig við margnýtum heitt vatn,“ segir Helga og nefnir jafnframt vetnisframleiðslu ON á Hellisheiði sem dæmi um bætta nýtingu. „Með vetnisstöðinni erum við að nýta umframorku sem fellur til á nóttunni. Jarðvarmaver framleiða nánast alltaf sama magn orku, þú nærð ekki að minnka framleiðsluna á nóttunni þegar fólk er sofandi og notar minna rafmagn, en við nýtum þessa umframorku í vetnisframleiðslu um nætur, sem er eitt dæmi um bætta nýtingu auðlindanna,“ útskýrir hún.

„Í nágrenni virkjunarinnar eru ekki bara auðlindir í jörðu heldur er Hengilssvæðið mjög fallegt svæði,“ segir viðskiptaþróunarstjórinn og nefnir göngustíga sem lagðir hafa verið um svæðið að undirlagi ON.

„ON er annt um að ganga vel um náttúruna og Hellisheiðarvirkjun verður kolefnishlutlaus virkjun árið 2025 og þar með fyrsta sporlausa jarðhitavirkjun í heimi. Þau fyrirtæki sem koma í Jarðhitagarð falla jafnframt að þessu markmiði og leggja, eins og ON, kapp á að falla sem best inn í umhverfið og raska sem minnst náttúrunni í kring,“ segir Helga Kristín Jóhannsdóttir í lokin.