Búseta 44% ungs fólks sjá fyrir sér að búa á höfuðborgarsvæðinu en 20% í þéttbýli utan þess skv. könnun.
Búseta 44% ungs fólks sjá fyrir sér að búa á höfuðborgarsvæðinu en 20% í þéttbýli utan þess skv. könnun. — Morgunblaðið/Kristinn
Þær grundvallarbreytingar sem til stendur að gera á úthlutunum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga geta haft mikil áhrif á framlög til einstakra sveitarfélaga bæði til lækkunar og hækkunar. Ríflega helmingur sveitarfélaga gætu þurft að sætta sig við…

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þær grundvallarbreytingar sem til stendur að gera á úthlutunum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga geta haft mikil áhrif á framlög til einstakra sveitarfélaga bæði til lækkunar og hækkunar. Ríflega helmingur sveitarfélaga gætu þurft að sætta sig við lækkun ef marka má yfirlit í skýrslu starfshóps yfir heildaráhrif þess að tekið verði upp nýtt líkan jöfnunarframlaganna.

Verði frumvarpsdrög innviðaráðherra um þessar breytingar lögfest verður nýtt líkan framlaga úr sjóðnum innleitt í skrefum á fjórum árum. Skiptar skoðanir eru á breytingunum sem byggðar eru á tillögum starfshópsins og hafa einkum forsvarsmenn í fámennustu sveitarfélögum gagnrýnt þær og lýst áhyggjum af skerðingum á framlögum, sem þau gætu orðið fyrir.

Færri en þúsund íbúar í 29 sveitarfélögum

Jöfnunarsjóðurinn hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1990 en miklar breytingar hafa átt sér stað frá þeim tíma. Sveitarfélög voru þá 204 talsins, um aldamótin hafði þeim fækkað í 124 og í dag eru þau 64. Stórir málaflokkar hafa verið færðir til sveitarfélaganna og vegur þyngst rekstur grunnskólanna 1996 og málefni fatlaðs fólks 2011. Þrátt fyrir sameiningar eru þó enn mörg fámenn sveitarfélög á landinu, í tíu þeirra eru íbúarnir undir 250 og 29 eru með færri íbúa en eitt þúsund.

Hlutverk jöfnunarsjóðsins er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum, sem eiga m.a. að stuðla að því að þau geti sinnt lögbundinni þjónustu við íbúana. Um verulegar fjárhæðir er að ræða sem geta skipt miklu í rekstri einstakra sveitarfélaga en framlögin til þeirra eru vitanlega afar mismunandi. Flest sveitarfélög hafa fengið framlög en meðalframlög á hvern íbúa hafa verið rúmlega 98 þúsund kr. á undanförnum árum.

Á yfirstandandi ári eru áætlaðar tekjur sjóðsins 74,6 milljarðar og þar af er framlag úr ríkissjóði 27,1 milljarður. Framlögin hafa að jafnaði vegið um 13% af heildartekjum sveitarfélaga en dæmi eru um að framlögin séu 2% teknanna og upp í rúmlega 50% af heildartekjum einstakra sveitarfélaga. Í umfjöllun starfshópsins um skiptingu framlaganna kemur fram að þau eru hæstur hluti heildartekna sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Vesturlandi. Sem dæmi er nefnt að framlög á íbúa í fyrra hafi verið allt frá 18.494 kr í Reykjavík og rúm milljón á íbúa í Reykhólahreppi.

Frumvarpsdrög ráðherra um gagngerar breytingar á úthlutnarreglum og viðmiðum Jöfnunarsjóðs byggja á tillögum starfshópsins, sem hafa verið birt í samráðsgátt. Áhersla er lögð á markvissa jöfnun, að jöfnunarkerfið styðji áfram við bakið á meðalstórum sveitarfélögum og þau sveitarfélög sem hafa fleiri en einn þéttbýliskjarna og flóknar útgjaldaþarfir. „Með því er enn fremur stuðlað að fjárhagslegum hvötum til sameininga í jöfnunarkerfinu,“ segir í skýrslu starfshópsins.

Komið í veg fyrir „yfirjöfnun“

Enn fremur á að stuðla að frekari fjárhagslegri sjálfbærni sveitarfélaga en jafnframt veita framlög á grundvelli byggðasjónarmiða og taka mið af viðkvæmum aðstæðum í einstökum sveitarfélögum. Einfalda á regluverkið og auka gagnsæi og er sérstaklega tekið fram að koma eigi í veg fyrir „yfirjöfnun – þ.e.a.s. hærri framlög úr sjóðnum en góð rök eru fyrir sé litið á heildarmyndina“.

Lagt er til að mismunandi framlög verði sameinuð í eitt framlag samkvæmt frumvarpsdrögunum og tillögum hópsins og nýtt líkan smíðað, sem leysa á fyrra regluverk um úthlutanir af hólmi. Nýja kerfið á að byggja á þemur stoðum við útreikninga á jöfnunarframlögum.

Tillaga sem einnig er gerð um að vannýting á útsvari verði dregin frá framlögum hefur þegar vakið athygli og verið gagnrýnd. Nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu á samkvæmt því að koma til skerðingar á framlögum úr sjóðnum sem nema vannýttum útsvarstekjum þess. Í fyrra voru það 14 sveitarfélög sem ekki nýttu álagningu útsvars að fullu. Í skýrslu starfshópsins eru sýnd framlög til þessara sveitarfélaga sem tengjast yfirfærslu á rekstri grunnskóla og vannýting útsvarsins á sama tíma. Kemur fram að mismunur hámarkstekna af útsvari og tekna í reynd var mestur í Garðabæ eða 961 milljón kr. og á Seltjarnarnesi 128 milljónir. Garðabær fékk 601 millj. framlag í fyrra vegna grunnskóla og Seltjarnarnesbær 187. Ef nýjar reglur hefðu tekið gildi yrði vanýtta útsvarið dregið af framlögunum.

Einnig er lagt til að tekið verði upp sérstakt höfuðstaðaálag og er það helst talið eiga við um Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ, „þar sem íbúar nærliggjandi sveitarfélaga sækja gjarnan ákveðna tegund þjónustu til þeirra“. Enn fremur verði sérstakur byggðastuðningur veittur til að mæta áskorunum sem ekki verði jafnaðar með nýja líkaninu. Auk þessa er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti sótt um framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál og að Reykjavíkurborg fái greidd framlög vegna þessa en rúmlega þrjú þúsund börn þurfa á þessari kennslu að halda í borginni.

Þegar fyrstu áform um breytingarnar voru birtar í samráðsgátt seint á síðasta ári gagnrýndu forsvarsmenn minni sveitarfélaga þá áherslu sem lögð er á að sjóðurinn eigi að styðja betur við bakið á millistórum sveitarfélögum. Ekki sé rétt að ganga á rétt minni sveitarfélaga vegna stærðar sveitarfélaga. Ef skerða eigi framlög til minni sveitarfélaganna sé harkalega vegið að rétti íbúa þeirra til þjónustu. Reikna má með mikilli umræðu um þessar tillögur meðal sveitarstjórnarmanna á næstunni en landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga fer fram 31. mars næstkomandi.

„Sveitarstjórn lýsir áhyggjum af þeim skerðingum á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem boðaðar eru í framlögðum tillögum,“ segir í bókun sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps í seinustu viku. Sveitarstjórn Strandabyggðar ályktaði á dögunum að hún líti tillögurnar mjög alvarlegum augum. Þær geri minni sveitarfélögum illmögulegt að veita lögbundna þjónustu en þær muni hafa í för með sér skerðingu fyrir Strandabyggð sem nemur kr. 73. milljónum, eða 37% skerðingu sem skiptist á þrjú ár. Sveitarfélagið geti ekki tekið þá skerðingu á sig, að öllu óbreyttu.

Verða fyrir 57% skerðingu

Súðavíkurhreppur verður fyrir 67 milljóna kr. lækkun framlaga úr Jöfnunarsjóði samkvæmt yfirliti starfshópsins um möguleg áhrif breytinganna. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, kveðst ekki vera sáttur við skerðingu upp á 57% til sveitarfélagsins. Að ósk hans var haldinn fundur í Fjórðungssambandi Vestfjarða og Vestfjarðastofu með stjórnendum Jöfnunarsjóðs sl. mánudag. Að sögn Braga kom þar fram í máli fulltrúa sjóðsins að verið væri að bregðast við leka á framlögum úr sjóðnum, m.a. til sveitarfélaga á borð við Súðavíkurhrepp. „Það væri augljóst að við værum ofbætt,“ segir Bragi en hann hefur óskað eftir útskýringum sjóðsins á um hvers konar leka sé að ræða.

Bragi segir að um grundvallarbreytingu á sjóðnum sé að ræða sem leiði til þessarar niðurstöðu, ekki síst fyrir minni sveitarfélög. Þarna sé verið að bregðast við rekstrarvanda millistórra sveitarfélaga, svonefndra fjölkjarnasveitarfélaga, sem mikið hafi verið rætt um á umliðnum árum. Hann er ósáttur við að í þeim breytingum sem boðaðar eru sé verið að fylgja eftir Grænbókarvinnunni sem hófst í ársbyrjun 2019 og núna sé það gert með aðkomu Jöfnunarsjóðs. Skinið hafi í gegn í öllum málflutningi að fámennari sveitarfélög séu óæskileg stærð og fjárhagslegir hvatar þrýst á sameiningar. Nú hafi mannfjöldaviðmið ratað inn í líkanið sem lagt er til að verði notað við framlög úr sjóðnum sem geri að verkum að minni sveitarfélög muni ekki fá úthlutað eins og verið hefur þrátt fyrr skýrt hlutverk sjóðsins að mæta útgjaldaþörf sveitarfélaga á hverjum tíma. Þá hafi verið bætt inn sérstöku höfuðstaðarálagi. „Þetta er ekki mín sýn á tilurð sjóðsins og til hvers hann var ætlaður, sem var að endurspegla aðstöðumun sveitarfélaga,“ segir hann. Vel yfir 90% af störfum ríkisins séu á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en á sama tíma er ekkert opinbert starf að verða eftir í Súðavík og þ.a.l. engar tekjur að hafa af útsvari og fasteignagjöldum vegna þeirra.

Búsetuþróun getur ráðið miklu um þarfir sveitarfélaga á jöfnunarframlögum í framtíðinni. Í hvítbók í málefnum sveitarfélaga, sem birt hefur verið í samráðsgátt, er að finna niðurstöður úr nýrri könnun meðal ungs fólks. Kemur í ljós að flestir á aldrinum 16- 20 ára eða 44,1% sjá fyrir sér að búa á höfuðborgarsvæðinu, 27,5% í útlöndum en 20,1% í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins.