Noregur Emelie Enger Mehl dómsmálaráðherra vildi nálgast yngri kjósendur með forritinu en mælir nú gegn því.
Noregur Emelie Enger Mehl dómsmálaráðherra vildi nálgast yngri kjósendur með forritinu en mælir nú gegn því. — AFP/NTB/Fredrik Varfjell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Sífellt fleiri þjóðir hafa verið að skoða notkun smáforritsins TikTok sem er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance. Forritið er gífurlega vinsælt, ekki síst meðal ungu kynslóðarinnar, og talið er að notendur séu fleiri en einn milljarður, þar af er næstum þriðjungur notenda á aldrinum 10-19 ára. Nú telja sífellt fleiri opinberir aðilar að forritið sé varhugavert, það safni upplýsingum um notendur og sé þannig hálfgerður njósnabúnaður. Stjórnvöld æ fleiri landa hafa annaðhvort bannað forritið á vinnutengdum tækjum eða hvatt notendur til að nota það ekki í tengslum við vinnu nema algjör nauðsyn krefji.

Yngsti ráðherrann á TikTok

Yngsti ráðherra Noregs, dómsmálaráðherrann Emilie Enger Mehl, var harðlega gagnrýnd fyrir að hafa notað smáforritið TikTok í vinnusíma sínum. Hún hafði varist svara í næstum mánuð en viðurkenndi loks að hafa forritið í símanum í síðustu viku en sagðist þá vera búin að eyða því. Málið þótti alvarlegt og endaði með því að Mehl sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem hún lagði til að opinberir starfsmenn notuðu ekki forritið í vinnutengdum tækjum. Í tilkynningu Mehl segir að norska leyniþjónustan telji samfélagsmiðla frá Kína og Rússlandi mestu ógnina við öryggismál Noregs og þar sé bæði horft til TikTok og rússneska samskiptamiðilsins Telegram.

Ekki bannað á Íslandi

Ekki er lagt blátt bann við notkun forritanna en mælst til þess að það sé ekki á vinnutækjum nema brýna nauðsyn beri til. Sama má segja um Ísland en í Morgunblaðinu á mánudaginn var talað við Birgi Ármannsson forseta Alþingis, sem sagði að ekki þætti ástæða til að ganga svo langt að banna TikTok í vinnusímum þingmanna eða opinberra starfsmanna, en bætti við að málið hefði verið tekið fyrir í forsætisnefnd þingsins og skoðað af Cert-IS, sem sér um netöryggismál íslenska ríkisins.

TikTok alveg bannað

Lengra hefur verið gengið í Bretlandi, Bandaríkjunum og hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins auk Kanada og Nýja-Sjálands þar sem TikTok er núna bannað á öllum vinnutengdum tækjum. Ríkisstjórn Hollands íhugar nú að banna forritið og hefur mælst til þess að opinberir starfsmenn noti það ekki á vinnusímum. Ráðherra stafrænna mála, Alexandra van Huffelen, sagði að til stæði í náinni framtíð að banna öll hugsanleg „njósnaforrit“ frá löndum eins og Kína, Íran, Norður-Kóreu og Rússlandi hjá öllum hollenskum ríkisstarfsmönnum. Í bréfi til hollenska þingsins sagði van Huffelen að einnig væri verið að skoða hvort láta ætti opinbera starfsmenn fá síma sem leyfðu aðeins ákveðin forrit og hugbúnað en bætti við að ákvörðunin yrði tekin eftir samráð við Evrópusambandið.

Ókjör upplýsinga eftir þrjú ár

Árið 2020 gengu Indverjar fram fyrir skjöldu og bönnuðu TikTok á þeirri forsendu að forritið safnaði ókjörum upplýsinga um notendur sína. Sama ár lýsti fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, því yfir að TikTok væri njósnaforrit fyrir kínversk stjórnvöld. Í grein í Forbes síðasta þriðjudag er því haldið fram að þótt 150 milljónum Indverja hafi verið meinað að nota forritið fyrir þremur árum séu persónurekjanlegar upplýsingar um þá ennþá til hjá TikTok og ByteDance. Upplýsingarnar hafði Forbes eftir ónafngreindum fyrrverandi starfsmanni TikTok, sem sagði að bæði væri hægt að nálgast gamla notendareikninga Indverja á forritinu og eins greina notendahegðun út frá upplýsingum. Við bann forritsins hefði ekki verið farið fram á að öllum gögnum yrði eytt. Sami starfsmaður sagði að hver einasti starfsmaður TikTok með lágmarksaðgang gæti fundið viðkvæmar upplýsingar um hvern einasta notanda forritsins og slíkar upplýsingar gætu verið hættulegar, ekki síst í höndum stjórnvalda sem hefðu mannréttindi ekki í forgrunni.

Vilja slíta tengslin við Kína

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að TikTok verði að slíta tengsl við kínverska móðurfyrirtækið ByteDance ella eiga á hættu að forritið verði bannað alls staðar vestanhafs. Það er ekki í fyrsta skipti sem bandarísk stjórnvöld saka fyrirtækið um að deila upplýsingum um notendur með kínverskum stjórnvöldum. Talsmenn TikTok hafa viðurkennt að starfsmenn fyrirtækisins í Kína hafi komist yfir gögn um notendur en hafa alltaf harðneitað því að þeir láti notendagögn af hendi til kínverskra stjórnvalda.

Í dag mun forstjóri TikTok koma fyrir bandaríska þingnefnd til að svara fyrir um ásakanir bandarískra yfirvalda um að fyrirtæki deili upplýsingum með yfirvöldum í Peking. Búist er við að bæði demókratar og repúblikanar sameinist í hörðum spurningum, en allt kapp er lagt á að fyrirtækið slíti tengslin við Kína.

Margar spurningar

En safnar TikTok meiri upplýsingum um notendur en aðrir samfélagsmiðlar eins og Facebook, Twitter, Instagram og Telegram? Allir sem hafa snjallsíma og nota Siri eða sambærileg forrit eru í raun að opna á að hægt sé að njósna um þá. Allir samfélagsmiðlar safna upplýsingum um notendur sína, eins og hægt er að sannreyna með því að tala um eitthvað sértækt með símann nálægt, t.d. sundhettur, og sjá hvaða auglýsingar fara að birtast í snjalltækinu. Vandamálið er því ekki forritið sjálft heldur miklu frekar kínverskt eignarhald. En er þá réttlætanlegt að ganga fram með boðum og bönnum gegn einu fyrirtæki en eira öðrum á forsendum eignarhalds? Svo er það spurningin hvort ríki eigi að beita sér fyrir svona bönnum. Önnur nálgun væri upplýsing og leiðbeiningar til notenda til að verjast aðgangi stórfyrirtækja að persónulegum upplýsingum. Eins og oft er sagt: Ef þjónustan er ókeypis á netinu, þá eru allar líkur á því að þú sért söluvaran.