Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, ásamt slökkviliði, var kölluð að húsnæði Útlendingastofnunar á Dalvegi í Kópavogi í hádeginu í gær. Þar hafði verið tilkynnt um mann sem hótaði að bera eld að sjálfum sér

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, ásamt slökkviliði, var kölluð að húsnæði Útlendingastofnunar á Dalvegi í Kópavogi í hádeginu í gær. Þar hafði verið tilkynnt um mann sem hótaði að bera eld að sjálfum sér. Hafði hann hellt yfir sig eldfimum vökva og hélt á kveikjara.

Í tilkynningu lögreglu var tekið fram að maðurinn hafði verið rólegur. Ástæðan fyrir hótun mannsins var óánægja hans með neitun Útlendingastofnunar á umsókn hans um alþjóðlega vernd.

„Maðurinn var færður af staðnum og fékk viðeigandi aðstoð,“ segir lögreglan í tilkynningu til fjölmiðla. Þar segir enn fremur að lögreglan hafi verið með talsverðan viðbúnað vegna málsins og slökkviliðið einnig í viðbragðsstöðu. Tilkynningin um hótunina barst kl. 12.23 og var aðgerðum lokið fyrir klukkan eitt.