Kjartan Sigurjónsson fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1940. Hann lést á Landspítalanum 15. mars 2023.

Foreldrar hans voru Sigurjón Árni Sigurðsson, f. 1.8. 1916, d. 28.8. 1982, og Bryndís Bogadóttir, f. 21.1. 1919, d. 15.9. 1978.

Systkini Kjartans eru Sigurður, f. 17.10. 1943, d. 16.6. 2012, Sigurjón Bolli, f. 20.12. 1944, og Bryndís, f. 17.3. 1946.

Dóttir Kjartans frá fyrra sambandi er 1) Kristín María, f. 21.1. 1961. Móðir hennar var Sigríður Vilhjálmsdóttir, f. 13.9. 1941, d. 20.2. 2013. Kristín giftist árið 1982 Ingólfi Haukssyni, f. 4.6. 1960. Börn þeirra eru Sigríður Jóna, f. 19.4. 1982, á hún þrjú börn, Hlynur, f. 15.10. 1984, Haukur, f. 25.6. 1990, á hann þrjú börn, og Vilhjálmur Ingi f. 20.8. 1994.

Kjartan kvæntist Bergljótu Svanhildi Sveinsdóttur 22. september 1962. Börn þeirra eru: 2) Sveinn, f. 10.3. 1963. Sveinn kvæntist árið 1989 Guðrúnu Halldóru Gestsdóttur, f. 30.9. 1963. Börn þeirra eru Kjartan, f. 26.7. 1991, Hilma Kristín, f. 9.10. 1992, á hún eitt barn, og Gestur, f. 17.8. 1995. 3) Sigurjón, f. 20.9. 1968. Sigurjón kvæntist árið 2022 Halldóru Guðbjörgu Jónsdóttur f. 7.6. 1971. Stjúpbörn Sigurjóns eru Sigmar Rafn Jóhannesson, f. 9.5. 1990, Jón Ísak Jóhannesson, f. 17.1. 1994, á hann tvö börn, og Kolbrún Jónsdóttir, f. 11.11. 2006. Stjúpsonur Sigurjóns frá fyrra hjónabandi var Þórður Ingi Guðmundsson, f. 29.4. 1991, d. 22.9. 2007. Börn Sigurjóns frá fyrra hjónabandi eru Kjartan Logi, f. 14.6. 1998, Egill Gauti, f. 27.3. 2000, og Bergdís Þórða, f. 27.4. 2010, móðir þeirra er Hólmfríður Þórðardóttir. 4) Sindri Páll, f. 19.3. 1975. Sindri kvæntist árið 2017 Arnþrúði Dögg Sigurðardóttur, f. 13.11. 1978. Börn þeirra eru Ronja, f. 19.9. 2013, og Andrea, f. 16.3. 2017.

Kjartan lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti í Reykjavík 1956 og kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1962. Þá stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, var í orgelnámi hjá Páli Ísólfssyni 1959-1964, jafnframt var hann í píanónámi hjá frú Annie Leifs og í framhaldsnámi í orgelleik í Hamborg 1984. Hann nam einnig guðfræði við Háskóla Íslands um árabil. Kjartan var kennari við Barnaskóla Kópavogs 1963-1966, því næst kenndi hann við Héraðsskólann í Reykholti frá 1966 til 1975 en þá fluttist fjölskyldan til Ísafjarðar þar sem Kjartan réð sig sem skólastjóri Gagnfræðaskóla Ísafjarðar þar sem hann starfaði í áratug, eða til ársins 1985. Eftir það kenndi hann í Austurbæjarskólanum í Reykjavík frá 1987-2000. Sumrin 1968-1977 starfaði Kjartan sem leiðsögumaður hjá Ferðaskrifstofu ríkisins. Meðfram kennslustörfum var hann organisti við Kristskirkju í Reykjavík 1958-1966, Kirkju óháða safnaðarins 1963-1966, Reykholtskirkju 1970-1975, Ísafjarðarkirkju 1977-1985, Kópavogskirkju 1985-1987, Seljakirkju í Reykjavík frá 1987-1997 og Digraneskirkju í Kópavogi frá 1997-2010. Hann var söngstjóri Reykdælakórsins í Borgarfirði 1968-1973, Sunnukórsins á Ísafirði 1976-1978, Karlakórsins Ernis á Ísafirði 1980-1985 og Karlakórsins Þrasta 1985-1990. Hann var formaður Félags íslenskra organista frá 1990-2004 og var kjörinn heiðursfélagi félagsins þegar hann lét af formennsku. Kjartan átti einnig sæti í Norræna kirkjutónlistarráðinu og var forseti þess frá 1990-1992 og aftur frá 2008-2012.

Útför Kjartans fer fram í Hallgrímskirkju í dag, 23. mars 2023, klukkan 15.

Streymt verður frá útförinni:

https://streymi.syrland.is/

Kjartan, stóri bróðirinn í okkar fjögurra systkina hópi, var glaðlyndur, fjölhæfur, víðlesinn, vinsæll kennari, farsæll skólastjóri og öflugur tónlistarmaður og organisti. Ein mín fyrsta endurminning um Kjartan er af honum og móður okkar. Hann var sennilega að koma heim úr skólanum og dreif mömmu út á gólf í dans við tónlist úr útvarpinu. Ég man líka þegar hann kom heim með sín fyrstu verkalaun. Það var völlur á honum og hann hafði komið við í fataverslun á heimleiðinni og keypt blússu á mömmu sína. Þessar endurminningar kallast á við margar aðrar þar sem kátína Kjartans, fjör og skemmtilegheit en líka reisn og sjálfstæði gáfu tilverunni lit og hljóm. Hann var að sjálfsögðu foringi systkinahópsins og féll alloft í þá freistni að spila svolítið með yngri systkinin. Hann fór sínar eigin leiðir sem stundum mótaði klæðaburð hans og hárgreiðslu. Einu sinni hitti ég hann í strætó og fannst múnderingin ganga svo langt að ég þóttist ekki þekkja hann. Hann var hins vegar alltaf ræktarlegur við systur sína og bræður. Þegar ég hóf píanónám var hann fullur hjálpsemi sem því miður þróaðist þannig að hann spilaði lögin fyrir mig og ég lærði þau utan að án þess að læra nóturnar. Sitt eigið tónlistarnám tók hann hins vegar alltaf alvarlega og ræktaði af áhuga og útsjónarsemi. Til viðbótar við formlegt nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og orgelnám hjá Páli Ísólfssyni um árabil skapaði hann sér aðstöðu til að æfa sig á pípuorgelið í Landakotskirkju og fékk aðgang að orgeli kirkjunnar. Strax á unga aldri voru honum síðan falin organistaverkefni í Landakotskirkju og í kaupbæti lærði hann þýsku sem átti eftir að koma sér vel seinna á ævinni þegar hann hafði sumaratvinnu af leiðsögn ferðamanna. Þegar horft er yfir feril Kjartans sem tónlistarmanns og organista er ljóst að þessi útsjónarsemi og elja við orgelnámið var upphaf að merkum tónlistarferli sem hann ræktaði af alúð hvað sem öðru annríki leið. Hann var kennari eða skólastjóri víða um land, í Reykjavík, Kópavogi, Reykholti í Borgarfirði og á Ísafirði. Alls staðar gegndi hann líka starfi kirkjuorganista og kórstjóra. Og þýskum ferðamönnum þótti talsvert til koma þegar leiðsögumaðurinn settist við kirkjuorgelið á einhverjum áningarstað úti á landi og spilað óaðfinnanlega Tokkötu og fúgu eftir Bach eða eitthvert annað meistaraverk.

Kjartan var heilsteyptur fjölskyldumaður og ræktarsamur við ættmenni sín. Til þess var tekið að hann naut þess sérstaklega að hitta öldunga í frændliðinu, fræðast af þeim og njóta samveru. Föðursystir okkar sem komst á hundraðasta aldursár gat treyst á reglubundnar heimsóknir frá Kjartani sem þekkti óbrigðult minni hennar og ættfræðiþekkingu en ættfræðigrúsk varð með tímanum eitt af stórum áhugamálum Kjartans.

Að leiðarlokum kveð ég Kjartan bróður minn með söknuði og þakklæti fyrir ótalmargar skemmtilegar og gefandi samverustundir í 77 ára samfylgd gegnum lífið, og einnig fyrir óbrigðula ræktarsemi og tryggð. Fjölskyldunni sem saknar og syrgir sendum við hugheilar samúðarkveðjur.

Bryndís Sigurjónsdóttir.

Mig langar að minnast nokkrum orðum elskulegs bróður míns, Kjartans Sigurjónssonar, sem lést 15. mars sl., eftir stutt veikindi.

Hann var elstur af okkur fjórum systkinum, næstur kom Sigurður, tæpum fjórum árum yngri (lést 2012), því næst undirritaður fimm árum yngri og yngst er Bryndís sex árum yngri.

Kjartan var mjög natinn við okkur systkinin og las t.d. fyrir okkur bræður á kvöldin þar sem við deildum saman herbergi. M.a. las hann Íslendingasögur fyrir okkur bræður. Hann var hafsjór af sögum, vísum og var vel hagmæltur. Marga vísuna fór hann með fyrir okkur bræður, tvíræðar sumar hverjar, og hafði gaman af.

Kjartan var mjög sjálfstætt barn, skemmtilegur og talinn mjög bráðger.

Hann var sendur í sveit til ókunnugra í Húnavatnssýslu á tíunda ári, síðar fór hann í sveit á Gilsbakka á Hvítársíðu í Borgarfirði. Þar undi hann hag sínum afar vel fjölda sumra og hélt sambandi við heimilisfólkið alla tíð. Skólaganga hans var hefðbundin og eftir landspróf fór hann í Kennaraskólann og starfaði við kennslu allan sinn starfsaldur.

Kjartan kenndi við Reykholtsskóla í Borgarfirði og þar byrjaði hann sjálfur í hestamennsku og hélt því áfram til ársins 2022.

Tónlistin átti snemma hug hans allan, og þar sem píanó var á heimilinu fékk hann ungur leiðsögn hjá móður okkar. Síðar fór hann í nám í orgelleik hjá Páli Ísólfssyni.

Samband okkar bræðra var mjög gott alla tíð og man ég ekki til þess að hafa nokkurn tímann rifist við hann. Hann var vel lyntur, félagslyndur og einstaklega skemmtilegur og var alltaf gaman að spjalla við hann. Oft og tíðum fylgdi með ein og ein staka sem vakti kátínu. Hans er því sárt saknað.

Sigurjón Bolli.

Fallinn er frá frændi okkar, Kjartan Sigurjónsson, áttatíu og þriggja ára að aldri. Okkur bræður langar til að minnast þessa góða frænda okkar með nokkrum orðum en hann var aufúsugestur á okkar æskuheimili í áratugi.

Kjartan var listamaður, skólamaður, hestamaður og gleðimaður – það var alltaf gaman að hitta Kjartan og spjalla við hann um menn og málefni. Hann var vinmargur og þekkti fólk víða að í samfélaginu enda hafði hann borið niður á mörgum ólíkum stöðum mannlífsins. Hann var skólastjóri á Ísafirði, organisti og kennari í Reykjavík og víðar og fararstjóri við miklar vinsældir um árabil. Þegar fundum okkar bar saman var tóbaksdollan sjaldan langt undan og alltaf var okkur boðið í nefið sem sjaldan var þó þegið!

Kjartan hafði mikil samskipti við æskuheimili okkar. Hann var fyrsta barnabarn ömmu, Eyríðar Árnadóttur, og hitti þar á fleti móður okkar Katrínu Sigurðardóttur sem þá var ung kona. Hún sagði okkur oft frá því að strax og Kjartan gat gengið og talað þá hefðu þau náð vel saman. Hún passaði hann oft og á milli þeirra myndaðist vinátta sem var órofin alla tíð. Eftir að móðir okkar var orðin öldruð lagði Kjartan reglulega leið sína til hennar í kaffi og stoppaði lengi – gaf sér góðan tíma til að rifja upp gamlar minningar og segja nýjar fréttir. Við fundum að mömmu þótti vænt um þessar heimsóknir og hafði miklar mætur á Kjartani og öllu hans fólki. Hann notaði jafnan gamla gælunafn mömmu – Dúa – þegar hann ávarpaði hana sem undirstrikaði gömul og góð tilfinningatengsl þeirra.

En nú kveðjum við þennan öðling, Kjartan frænda. Við vottum eiginkonu hans og börnum þeirra innilega samúð sem og systkinum Kjartans og fjölskyldunni allri. Farðu í friði frændi.

Helgi Magnússon og Sigurður Gylfi Magnússon.

Kjartan Sigurjónsson skilur eftir sig góðar og hlýjar minningar. Samleið okkar er orðin nær hálf öld og konur okkar, Bergljót og Auður, í föruneyti okkar og synir okkar að nokkru leyti.

Fyrst og fremst áttum við Kjartan þó samstarf í Ísafjarðarkirkju, Dómkirkjunni í Reykjavík og við útfarir á ýmsum stöðum. Það var ekki ónýtt að hafa hann með sér, svo öruggur sem hann var. Þar var hann sem í hlutverki eldri bróður og vísaði veg og breiddi yfir ranga slóð ef út af bar. Það var þó kannski misráðið hjá honum að fara með vafasamar vísur fyrir mig í skrúðhúsinu en alltaf hló ég og signdi mig svo á eftir til að eyða áhrifunum. Hann var í hópi þeirra tónlistarmanna sem urðu samvaxnir hljóðfærinu og gátu spilað allt eftir eyranu ef nótur voru ekki fyrirliggjandi. Þessa nutum við í kirkjuskólanum á Ísafirði þar sem lagstúfar sem ég hafði heyrt einhvers staðar fengu brúklega mynd.

Ég tel að hann hafi verið einkar góður söngstjóri og þess nutum við vinafólk þeirra hjóna í Hjónakórnum þar sem við komum saman sjö hjón og hittumst reglulega yfir veturinn.

Þegar hann kom til afleysinga í Dómkirkjunni þótti mér jafnan allt gott og eins við útfarir þar sem stundum þurfti á trausti að halda.

Við Auður þökkum samleiðarsporin og marga skemmtilega stund þar sem vísur og sögur flugu og biðjum Bergljótu og fjölskyldunni blessunar. Orðstír Kjartans Sigurjónssonar mun lifa með okkur vinum hans, okkur til gleði og honum til sóma.

Jakob Ágúst Hjálmarsson

Horfinn er á eilífðarbraut góður vinur, Kjartan organisti Sigurjónsson. Kjartan bjó lengi fyrir sunnan og líka fyrir vestan. Ég var svo heppinn að kynnast Kjartani fyrir norðan fyrir rúmlega 30 árum. Okkar kynni voru í kringum hesta og þá sérstaklega í hestaferðum um landið á sólfögrum sumardögum. Eins og allir vita er nauðsynlegt að hafa hesta í hestaferðum, en svo er enn þá nauðsynlegra að hafa skemmtilegt fólk í ferðinni. Kjartan var mjög skemmtilegur og góður ferðafélagi. Það var alltaf gaman að vera með Kjartani, í honum bjó stór menning, hin evrópska tónlistarmenning og hin dásamlega íslenska sveitamenning.

Kjartan kunni óhemju margar vísur og var vel hagmæltur. Í okkar ferðum var siður að eftir ferð dagsins var reynt að hafa mennilega, skemmtilega samveru, menn héldu ræður. Þarna var Kjartan á heimavelli, bráðmælskur, fróður, orðsnjall og læs á aðstæður.

Kjartan átti góð hross, sem höfðu gaman af að gleðja eiganda sinn. Það er við hæfi að nefna tvö. Fyrst skal telja Timburmannaskjóna en á hann lagði Kjartan ævinlega að morgni dags. En djásnið hans var hún Sónata, sem leið yfir landið eins og prinsessa á hirðdansleik.

Ævi Kjartans var bundin skólum og tónlist, hann var kennari, skólastjóri, kórstjóri og organisti. Í mörg ár var Kjartan skólastjóri Gagnfræðaskólans á Ísafirði, það voru honum góð ár. Þar eignaðist hann góða vini bæði í leik og starfi. Kjartan unni Vestfjörðum. Eftir að formlegri starfsævi lauk keypti Kjartan hús í Súðavík við Álftafjörð og þar naut hann þess að vera með Bergljótu sinni, naut þess að vera innan um hina tignarlegu fegurð Vestfjarða þar sem tónlistin býr í hafinu og fjöllunum, Bergljót gat myndgert fegurðina og Kjartan skroppið út á Ísafjörð og æft sig á orgel Ísafjarðarkirkju. Þetta voru þeim Kjartani og Bergljótu dýrðardagar.

Ég sé Kjartan fyrir mér á Sónötu sinni á tárhreinu tölti í fögrum dal þar sem hátign eilífðarinnar snertir við fólki, ég vík mér að honum og gef honum einn lítinn og segi svo: „Hún fer laglega hjá þér sú brúna.“ Kjartan brosir og svarar glettinn á svip: „Veldur hver á heldur.“

Farðu sæll, góði vinur.

Ég fel Kjartan þeim Guði er sólina hefur skapað.

Agnar á Miklabæ.