Höfundurinn Urðarhvarf Hildar Knútsdóttur er að sögn gagnrýnanda „lítil saga sem spyr stórra spurninga“.
Höfundurinn Urðarhvarf Hildar Knútsdóttur er að sögn gagnrýnanda „lítil saga sem spyr stórra spurninga“. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nóvella Urðarhvarf ★★★★½ Eftir Hildi Knútsdóttur. JPV útgáfa, 2023. Kilja, 90 bls.

Bækur

Snædís Björnsdóttir

Ný bók Hildar Knútsdóttur, Urðarhvarf, er drungalegur sálfræðitryllir um flækingsketti, furðuverur og fortíðarskrímsli. Hún segir frá einfaranum Eik, ómannblendnum
sundlaugarverði sem stundar kattaveiðar á næturnar og tilheyrir hópi sjálfboðaliða, Flækingskatta, sem leita uppi týnda og særða ketti og koma þeim í öruggt skjól. Í einum slíkum björgunarleiðangri birtist Eik, dularfullur óvættur úr fortíðinni sem vekur óþægilegar minningar. Fljótlega verður ljóst að hér býr eitthvað meira undir en kann að virðast við fyrstu sýn. Eltingaleikurinn vindur upp á sig og skyndilega er ekki lengur ljóst hver er að veiða hvern – eða hvort öllum verður bjargað. Lesturinn er hrollvekjandi og það er viss framandleiki í sögunni sem vekur ugg með lesandanum. Eitthvað órætt og undarlegt leynist í myrkrinu, eitthvað sem erfitt er að bera kennsl á, og mögulega er eina leiðin til þess að takast á við það sú að draga það fram í dagsljósið. Það er hins vegar hvorki auðvelt né sársaukalaust.

Söguna má lesa sem táknsögu um það að takast á við áföll og kvíða og hún nær á vandaðan máta utan um erfiða reynslu sem oft getur verið erfitt að lýsa. Björgunaraðferðirnar öðlast þannig tvíræða merkingu og sagan fær lesandann til að leiða hugann að grimmdarlegri hliðum kærleikans. Stundum særum við þau sem við viljum síst af öllu særa; stundum þurfum við að setja mörk og beita ákveðinni hörku til að geta sýnt væntumþykju, bæði sjálfum okkur og öðrum, en við þurfum líka að treysta og kunna að sleppa takinu. Þegar flækingsköttunum er bjargað, til dæmis, þarf fyrst að lokka þá úr fylgsni sínu með brögðum og veiða þá í gildru svo að hægt sé að hjálpa þeim. Þetta getur verið sársaukafull reynsla fyrir menn og dýr. Köttunum er síðan hjúkrað og þeim fundið heimili, en þeir kettir sem eru styggir og óvanir mannfólki eru ormahreinsaðir og geltir áður en þeim er sleppt aftur lausum.

Ég vissi það ekki áður en ég las bókina en á Íslandi er starfrækt dýraverndunarfélagið Villikettir sem gegnir sambærilegu starfi og Flækingskettir og sagan sækir innblástur til. Það er áhugavert að fræðast um starf þeirra og þann fjölda villikatta sem bjargað er á hverju ári, en það kemur kannski ekki á óvart að þeir eru fjölmargir. Þrátt fyrir að vera fyrst og fremst skáldskapur veitir sagan því fróðlega innsýn í þessa starfsemi og fær lesandann jafnvel til að líta á borgina (en sagan á sér stað í Reykjavík) í nýju ljósi. Persónulega mun ég í það minnsta hafa augun opin fyrir flækingsköttum í borginni héðan í frá. Það má þó skilja söguna á marga vegu og kannski fær hún okkur á vissan hátt til að horfast í augu við þann sársauka sem við kjósum annars að líta fram hjá eða treystum okkur ekki til að gefa gaum. Þetta getur jafnvel átt við um sársauka sem á sér stað allt í kringum okkur en við tökum ekki eftir. Flest viljum við hjálpa þótt við vitum ekki alltaf hvernig við eigum að gera það – en nú er ég kannski ekki lengur að tala bara um ketti. Í því felst líka snilldarleg margræðni sögunnar.

Þótt bókin segi frá sársauka og vanrækslu fjallar hún líka um bjargráð og hugrekki. Þessi tvö þemu eru fléttuð afskaplega vel saman og þrátt fyrir hrollvekjuna einkennir mikill kærleikur bókina. Hún snýst þannig ekki síst um það að láta sér annt um aðra og finna hjá sér þor til að takast á við skrímsli fortíðarinnar. Höfundur hefur einstakt lag á hryllingssöguforminu og sums staðar blandast saman húmor og hryllingur á ískyggilegan hátt sem fær hárin til að rísa. Ekki skemmir fyrir að þetta er saga sem sérstaklega gaman er að spá og spekúlera í, enda hefur hún mikla dýpt og mörg merkingarlög sem fletta má í sundur. Hún er að auki grípandi og kraftmikil og nær lesandanum strax á fyrstu síðu. Vel tekst að viðhalda spennunni í atburðarásinni og undirrituð sat sjálf límd við bókina þar til henni lauk. Þar sem bókin er tiltölulega stutt má jafnvel lesa hana í einni eða tveimur lotum og hún er því kjörið lesefni fyrir óhuggulega kvöldstund. Á heildina litið er Urðarhvarf afar vel unnið og vandað bókmenntaverk, lítil saga sem spyr stórra spurninga og ristir djúpt. Þetta er hryllilega góð bók fyrir þau sem þora.