Margt hefur breyst á síðustu áratugum, umhverfisvitund hefur aukist og breytt áherslum en grunnmarkmið um sjálfbæra auðlindanýtingu eru óbreytt.
Margt hefur breyst á síðustu áratugum, umhverfisvitund hefur aukist og breytt áherslum en grunnmarkmið um sjálfbæra auðlindanýtingu eru óbreytt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vatnaskil eru sérhæft ráðgjafarfyrirtæki sem hefur verið starfrækt frá árinu 1982 eða í rúmlega fjörutíu ár. Sveinn Óli Pálmarsson, vatnsauðlindaverkfræðingur og framkvæmdastjóri Vatnaskila, segir að starfsemin byggist á fjórum meginstoðum;…

Svanhvít Ljósbjörg Gígja

svanhvit@mbl.is

Vatnaskil eru sérhæft ráðgjafarfyrirtæki sem hefur verið starfrækt frá árinu 1982 eða í rúmlega fjörutíu ár. Sveinn Óli Pálmarsson, vatnsauðlindaverkfræðingur og framkvæmdastjóri Vatnaskila, segir að starfsemin byggist á fjórum meginstoðum; endurnýjanlegri orku, umhverfi og loftslagi, innviðum og veitum og svo iðnaðarferlum og hönnun. „Við veitum sérhæfða ráðgjöf á þessum sviðum sem felst ekki hvað síst í gerð og beitingu hvers konar reiknilíkana til þess að styðja við þá ráðgjöf sem við veitum,“ segir Sveinn og bætir við að á þessum fjörutíu árum hafi fyrirtækið komið að víðtækri orkuuppbyggingu hérlendis í vatnsafli og jarðhita auk fjölbreyttra verkefna erlendis. „Við komum að öllum uppbyggingar- og rekstrarfösum orkuverkefna. Aðkoma okkar hefur þó að miklu leyti tengst auðlindaþætti þessarar orkuvinnslu, til að mynda í vatnsaflinu, að meta rennsli til virkjana, og fyrir jarðhitavirkjanir, til að meta forðann sem vinna má með sjálfbærum hætti. Við metum það gjarnan með stuðningi reiknilíkana og ýmissa mælinga. Við veitum sömuleiðis ráðgjöf um ýmis hönnunar- og rekstrartengd mál við uppbyggingu, rekstur og viðhald orkumannvirkja og hitaveitna,“ segir Sveinn og talar um að einnig gæti þurft að meta umhverfisáhrif. „Jarðhitavirkjunum fylgir útblástur og affallsvatn og stundum þarf að meta flutning og afdrif þessara þátta frá virkjunum. Þá getur grunnvatnsstaða í nágrenni miðlunarlóna vatnsaflsvirkjana hækkað með tilkomu þeirra og þá þarf að meta möguleg áhrif af því á nærliggjandi svæði. Setsöfnun í lónum getur haft áhrif á setframboð neðar í árfarvegum og árósum auk þess sem huga þarf yfirleitt vel að þegar aur er skolað úr lónum.“

Mikil ásókn í vatn á Íslandi

Eric M. Myer, vatnajarðfræðingur hjá Vatnaskilum, segir að vissulega hafi margt breyst á síðustu fjörutíu árum en undirliggjandi markmið í orkuvinnslunni séu óbreytt. „Að nýta auðlindirnar á sjálfbæran hátt. Umhverfisvitund hefur aukist og breytt áherslum en grunnmarkmið um sjálfbæra auðlindanýtingu eru óbreytt.“ Eric segir starfsemi fyrirtækisins einnig hafa aðlagast breyttum þörfum og markaðsskilyrðum á þessum fjörutíu árum. „Með aukinni umhverfisvitund hafa sum viðfangsefni okkar breyst og ýmis ný viðfangsefni komið til. Þá hefur baráttan gegn loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim breytingum haft víðtæk áhrif á starfsemi Vatnaskila og þjónustuframboð fyrirtækisins. Þetta snertir velflestar verkefnalínur og eykur enn fremur á tengingar á milli þeirra. Þetta á sérstaklega við um allt sem tengist vatnafari og vatnsbúskap og nýtur því til dæmis auðlindanýting vatnsaflskosta góðs af aðkomu okkar í hvers konar vatnsöflun, hvort sem það er fyrir nytjavatn eða iðnaðarvatn,” segir Eric og bætir við að það sé mikil ásókn í vatn víða á Íslandi. „Aukin uppbygging fiskeldis á landi hefur leitt til stóraukinnar vinnslu fersks og salts grunnvatns á strandsvæðum en einnig hefur ferskvatnstaka vegna jarðhitanýtingar og varmaveitna aukist verulega.“

Smávirkjanir verða algengari

Þá segir Sveinn að aukið reikniafl og framgangur í tölvutækni hafi útvíkkað þjónustuframboðið. „Bæði hefur þetta oft leitt til nýrrar nálgunar að viðfangsefnum en einnig fjölgað tækifærum á nýjum mörkuðum. Þannig hefur til dæmis reiknigeta fyrir hvers konar varma- og straumfræðireikninga stóraukist. Við bjóðum mjög víðtæka möguleika í svokölluðum CFD-reikningum sem geta meðal annars stutt við hönnun mannvirkja og vélbúnaðar.“ Sveinn bætir við að nú séu smávirkjanir að ryðja sér til rúms í auknum mæli, bæði í vatnsafli og jarðvarma. „Það geta verið mjög áhugaverðir kostir og við höfum reynt að aðlaga þá víðtæku þekkingu og reynslu sem skapast hefur af stærri verkefnum þannig að hún nýtist sem best í smávirkjanauppbyggingunni. Þótt viðfangsefnin séu tengd lúta smávirkjanakostir aðeins öðrum lögmálum um undirbúningstíma og rannsóknir. Með aukinni þörf fyrir orkuöflun er mikilvægt að hægt sé að styðja vel við hagkvæma uppbyggingu smávirkjanakosta samhliða löngum undirbúningstíma stærri virkjana.“ Þá segja Eric og Sveinn að útflutningsmöguleikar íslenskrar þekkingar á sviði orkuöflunar og orkunýtingar séu miklir. Þeir telja að Vatnaskil, ásamt öðrum íslenskum aðilum, geti stutt vel við þá uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað víða erlendis á sviði endurnýjanlegrar orku.