Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðan þetta samkomulag var undirritað bólar ekkert á framkvæmdum við dýrustu og flóknustu þætti samgöngusáttmálans, þ.e. borgarlínu og vegstokkum.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þórarinn Hjaltason

Í lok september árið 2019 var undirritaður svokallaður Samgöngusáttmáli um uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Samningurinn var undirritaður með mikilli viðhöfn í Ráðherrabústaðnum. Þeir sem undirrituðu sáttmálann voru forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og bæjarstjórar sveitarfélaganna sex. Var það gert á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum með slíkri viðhöfn að annað eins hefur ekki sést frá því Ísland öðlaðist sjálfstæði frá Dönum 1944. Fram kom á þessum hátíðarfundi að um væri að ræða fjárfestingu upp á 120 milljarða króna (á núv. verðlagi 180 milljarðar). Ríkinu var ætlað að leggja fram 45 milljarða og sveitarfélögin 15 milljarða. Síðan var gert ráð fyrir að sérstök fjármögnun standi straum af 60 milljörðum króna. Hún yrði tryggð við endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum við sölu á eignum ríkisins. Í viðtali í Morgunblaðinu 18.mars sl. við Vilhjálm Árnason, formann samgöngunefndar Alþingis, gerir hann mjög alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð á endurskoðun samgöngusáttmálans.

Framkvæmdaáætlun í uppnámi

Síðan þetta samkomulag var undirritað bólar ekkert á framkvæmdum við dýrustu þætti samgöngusáttmálans, þ.e. borgarlínuna og vegstokka. Um þá þætti hafa verið gerðar ótal skýrslur og greinargerðir og í gangi er stöðug vinna einhverra arkitekta- og verkfræðiskrifstofa við undirbúning framkvæmda, eins og það er kallað.

Núverandi borgarlínuáform verða aldrei að veruleika. Það er flestum ljóst nema e.t.v. meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur. Enn er þó haldið áfram svokölluðum undirbúningi þessa verkefnis og varið til þeirrar vinnu árlega um einum milljarði króna. Á sama tíma hefur fjárhagsstaða A-hluta borgarsjóðs stórversnað, er komin á alvarlegt hættustig.

Á síðustu misserum hefur komið æ betur í ljós að bygging fyrirhugaðra vegstokka er afar tæknilega flókin og erfitt er að leysa umferð á framkvæmdatímanum. Í stað Miklubrautarstokks, þ.e. stokks frá Snorrabraut austur fyrir Kringlumýrarbraut, er verið að skoða möguleika á jarðgöngum frá Snorrabraut austur fyrir Grensásveg. Borgaryfirvöld bera alfarið ábyrgð á því að forsendur fyrir Miklubrautarstokk voru ekki betur ígrundaðar en raun ber vitni.

Auk mikils stofnkostnaðar verður bygging Sæbrautarstokks þeim annmörkum háð að umferð á framkvæmdatíma verður aðeins ein akrein í hvora átt í stað tveggja akreina í dag. Til lengri tíma litið getur Sæbrautarstokkur í þeirri mynd sem fyrirliggjandi frumdrög gera ráð fyrir orðið flöskuháls í þjóðvegakerfi höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega ef horft er til þess að byggt verði á Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi.

Mikilvægi Reykjanesbrautar, Sæbrautar og Sundabrautar

Mislæg gatnamót á Reykjanesbraut við Bústaðaveg hafa ekki átt upp á pallborðið hjá meirihluta borgarstjórnar og hefur undirbúningur þessarar nauðsynlegu framkvæmdar því dregist í mörg ár. Auk þess hafa skipulagsyfirvöld borgarinnar fest sig í þeirri sérvisku að borgarlínan verði að vera á rándýrum sérgötum við hliðina á vegum með mislægum gatnamótum.Til þess að fá beina tengingu milli Mjóddar og fyrirhugaðrar borgarlínustöðvar við Vogabyggð má reikna með að borgaryfirvöld vilji að sérgata fyrir borgarlínuna verði staðsett austan Reykjanesbrautar. Vegna nálægðar við Elliðaárnar kallar slíkt á færslu Reykjanesbrautar til vesturs með umtalsverðum aukakostnaði. Hætt er við að lausn af þessu tagi muni – eins og áform eru um Sæbrautarstokk – takmarka möguleika á fjölgun akreina á Reykjanesbraut í framtíðinni. Leiðin Reykjanesbraut-Sæbraut-Sundabraut verður til fyrirsjáanlegrar framtíðar ein mikilvægasta samgönguæð landsins og mikilvægt að tryggt verði gott og öruggt flæði umferðar um hana. Í því sambandi má ekki útiloka möguleika á uppbyggingu borgarinnar til norðurs.

Af framansögðu er ljóst að full ástæða er til að endurskoða sáttmála höfuðborgarssvæðisins frá grunni. Vonandi bera samgönguyfirvöld gæfu
til að sameinast um einfaldar og hag-
kvæmar lausnir sem má hrinda í framkvæmd með tiltölulega stuttum fyrirvara. Núverandi meirihluti í borgarstjórn er síður en svo hæfur til að leggja grunn að slíkum vinnubrögðum. Óráðsía og óvönduð vinnubrögð á flestum sviðum einkenna stjórnsýslu hans.

Vilhjálmur er fv. borgarstjóri. Þórarinn er samgönguverkfræðingur.