Grænir iðngarðar Alls verða 58 hús á misstórum lóðum í Flóahverfi fullbyggðu en það verður byggt upp í áföngum.
Grænir iðngarðar Alls verða 58 hús á misstórum lóðum í Flóahverfi fullbyggðu en það verður byggt upp í áföngum. — Tölvuteikning/Akraneskaupstaður
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Akraneskaupstaður hefur síðustu daga gengið frá samningum við nokkur fyrirtæki um úthlutun lóða í grænum iðngörðum á nýju atvinnusvæði norðan við Akranes, svokölluðu Flóasvæði. Nú hefur 22 lóðum verið úthlutað í fyrstu tveimur áföngunum og einni lóð til viðbótar í matvælahluta hverfisins. Alls eru skipulagðar 58 lóðir í þessu hverfi sem mögulegt er talið að stækka til austurs.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Akraneskaupstaður hefur síðustu daga gengið frá samningum við nokkur fyrirtæki um úthlutun lóða í grænum iðngörðum á nýju atvinnusvæði norðan við Akranes, svokölluðu Flóasvæði. Nú hefur 22 lóðum verið úthlutað í fyrstu tveimur áföngunum og einni lóð til viðbótar í matvælahluta hverfisins. Alls eru skipulagðar 58 lóðir í þessu hverfi sem mögulegt er talið að stækka til austurs.

„Það hafa margir verið í viðræðum um lóðir og ákveðið að ganga frá málum sínum nú. Það eru margar fleiri umsóknir í pípunum,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi. Tvö fyrirtæki eru komin með starfsemi á svæðið og verktakafyrirtæki er að ljúka við iðnaðarhús og eru fyrstu fyrirtækin að flytja inn í það. „Við erum gríðarlega ánægð með það hvernig þetta hefur þróast. Eftir nýja stefnumótum fyrir þetta svæði náðum við fyrst augum heimamanna en nú er það farið að smita út frá sér og fleiri fyrirtæki hyggjast flytja starfsemi sína þangað,“ segir Sævar Freyr.

Ein varmahringrás

Við stefnumótunina var ákveðið að setja upp svokallaða græna iðngarða. Þeir eru samfélag fyrirtækja sem leitast í sameiningu við að hámarka nýtingu auðlinda og takmarka sóun með samnýtingu og endurnýtingu í svokölluðu hringrásarhagkerfi. Ætlast er til þess að þau nýti saman auðlindastrauma og afgangsstrauma hvert frá öðru. Til dæmis er gert ráð fyrir að heita vatnið verði nýtt í einni varmahringrás innan svæðisins sem Veitur sjá um.

Höfuðatriðið í markmiðum Akraneskaupstaðar fyrir græna iðngarða er að vera framúrskarandi fyrirmynd í loftslagsmálum. Samhliða því er lögð áhersla á að geta boðið fyrirtækjum, í heimabyggð, annars staðar af landinu eða jafnvel erlendis frá, upp á aðlaðandi umhverfi og aðstoða þau við umbætur í umhverfismálum til að bæta samkeppnishæfni þeirra. Stefnan er að gera betur en gert er ráð fyrir í alþjóðlegum viðmiðum fyrir græna iðngarða.

Sævar Freyr segir að grænir iðngarðar snúist ekki aðeins um úrbætur í umhverfismálum. Gerðar séu kröfur um að uppfylltar séu allar kröfur um byggingar og vinnuhætti og að starfsemin og starfsfólk verði í sátt við samfélagið og íbúa þess. Þá sé lögð áhersla á góða stjórnarhætti. Eitt dæmið sem snýr að starfsfólki er að gert er ráð fyrir einu sameiginlegu mötuneyti fyrir iðngarðana.

Matsnefnd fer yfir umsóknir um lóðir, út frá hugmyndafræði garðsins, og leggur meðal annars mat á það hvaða lóð hentar starfseminni og leggur tillögu um úthlutun fyrir bæjarráð.

Hugsanlegur Loftslagsgarður

Flóahverfi skiptist í nokkra hluta og áfanga og eru lóðirnar mismunandi að stærð. Í fyrsta áfanga eru 19 lóðir og eru búið að úthluta 17 þeirra. Í næsta áfanga bætast við 13 lóðir og eru 5 þeirra farnar. Í matvælahluta hverfisins verða 8 stórar lóðir og er búið að úthluta þar einni lóð. Lóðir í öðrum áfanga og matvælahluta verða tilbúnar til notkunar á næsta ári. Vinna við gatnagerð og lagnir hefur verið boðin út.

Til hliðar við grænu iðngarðana hefur verið tekið frá svæði fyrir hugsanlegan Loftslagsgarð. Akraneskaupstaður og íslenska fyrirtækið Transition Labs hyggjast kanna grundvöll þess að ráðast í uppbyggingu slíks garðs. Þar gætu ýmist verið fyrirtæki sem vinna beint að föngun og bindingu kolefnis eða nútímaleg græn framleiðslufyrirtæki sem leysa af hólmi það sem í tilkynningu frá Akraneskaupstað er kölluð skítug virðiskeðja og hafa þannig áhrif í loftslagsbaráttunni.

Fyrirtækið sem fengið hefur lóð í matvælahluta grænna iðngarða er dótturfyrirtæki Eðalfangs sem rekur laxavinnslu undir merkjum Eðalfisks í Borgarnesi og framleiðslu á sjávarfangi undir merkjum Norðanfisks á Akranesi. Horft er til möguleika á stækkun, ekki síst laxavinnslunnar með auknu laxeldi í landeldisstöðvum. Verktakafyrirtækið Þróttur á Akranesi og bílaþjónustufyrirtækið Askja hafa einnig nýlega tryggt sér lóðir.