Kári Siggeirsson fæddist 2. febrúar 1989 á Landspítalanum í Reykjavík. Hann lést í Reykjavík 12. mars 2023.

Foreldrar hans eru Björk Inga Arnórsdóttir, f. 1959, og Siggeir Þorsteinsson, f. 1963. Bræður hans eru: 1) Sindri, f. 1986. 2) Atli Steinar, f. 1992. Eiginkona hans er Sólrún Heiðarsdóttir, f. 1992. Börn þeirra eru Viktor Marel Sólrúnar Ólafsson, f. 2011, og Eldlilja Björk Atladóttir, f. 2022. 3) Arnór, f. 1998. Unnusta hans er Silja Björk Pálsdóttir, f. 2000.

Kári ólst upp í Efra-Breiðholti og Háaleitishverfinu. Hann var í Álftamýrarskóla alla sína grunnskólagöngu, utan fjögurra ára þegar fjölskyldan bjó í Noregi. Þar var hann í Trælleborg skole í Tönsberg og Prinsdal skole í Osló. Eftir grunnskóla stundaði hann nám í vélfræði við Tækniskólann og grunndeild málmiðnaðar við Borgarholtsskóla. Kári vann ýmis störf hjá verktökum, í blikksmiðju og í Slippnum.

Öll hans fullorðinsár mörkuðust af baráttu við fíkni- og geðsjúkdóm sem takmörkuðu getu hans til fullrar þátttöku á vinnumarkaðnum.

Útförin fer fram frá Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag, 23. mars 2023, klukkan 13.

Hann Kári minn var annar í röð fjögurra bræðra þar sem oft var mikið fjör og mikið gaman. Fyrstu árin hans bjuggum við í Vesturberginu þar sem hann ólst upp í krakkaskara en þegar hann var fimm ára fluttum við í Safamýrina. Þar eignaðist hann marga af sínum lífstíðarvinum. Kári var vinmargur alla tíð og uppátækjasamur sem barn. Þegar hann er átta ára fluttum við fjölskyldan til Noregs og bjuggum þar í tæp fjögur ár. Þar eignaðist hann fjölda vina bæði í Tönsberg og svo í Osló. Þar byrjuðu uppátækin fyrir alvöru og er mér minnisstætt þegar hann var í laumi búinn að koma upp búi af eyðimerkurrottum í kjallaranum hjá okkur sem áttu að geta lifað í 30 daga án þess að fá vott eða þurrt. Hann gerði skondið myndband á VHS-vél sem hét „Dýralífsmynd Kára“ og var fræðslumynd um orma og önnur skordýr sem bjuggu í garðinum hjá okkur og í nágrenninu. Við heimkomuna til Íslands er Kári orðinn 12 ára og við flytjum aftur í Háaleitishverfið og hittir hann þar aftur sína æskufélaga og unglingsárin taka við. Hann var aldrei mikið fyrir hópíþróttir en stundaði júdó með góðum árangri og var sleipur skákmaður alla tíð. Hann sá heiminn oft frá öðru sjónarhorni en aðrir og var uppspretta góðra og stundum slæmra hugmynda. Hann var mikill dýravinur og hundurinn okkar Lísa og hann áttu sérstakt samband og minntist hann hennar fram á sinn síðasta dag.

Hann vann ýmis störf hjá verktökum og í blikksmiðju. Hann tók einnig nokkrar einingar í vélfræði í Tækniskólanum og Borgarholtsskóla. Hann var náttúrubarn og gekk með vinum sínum á fjöll og fór í útilegur. Kári var mikill húmoristi og gat verið óborganlega skemmtilegur sem eftirherma. Hann var vel gefinn og fróður um ýmis málefni eins og stjórnmál, seinni heimsstyrjöldina, víkingatímabilið, dýralíf, plöntur o.fl. Hann hlustaði mikið á tónlist og voru Black Sabbath, 2Pack og Bubbi meðal hans eftirlætis tónlistarmanna. Hann var mikill aðdáandi uppistandarans Bills Hicks og gat hlustað á hann löngum stundum.

Þó að unglingsárin hafi verið honum góð að mörgu leyti þá vofði skuggi yfir sem átti eftir að marka allt hans líf og fjölskyldunnar. 15-16 ára kemst hann í einhverju fikti í tengsl við fíkniefnadjöfulinn og má segja að síðan þá hafi ekki verið aftur snúið þótt hann hafi átt góða kafla inn á milli. Það hefur verið sagt að enginn skilji fíkn nema sá sem hefur ánetjast henni.

Við fjölskyldan og Kári erum búin að berjast í hartnær 20 ár við þetta ofurefli. Þrátt fyrir endalausa hjálp góðra manna frá Takmarkinu áfangaheimili, AA-samtökunum, geðheilbrigðiskerfinu, SÁÁ, Krýsuvíkursamtökunum og fleirum, þá er þetta hin bitra niðurstaða.

Ég veit ekki og sé ekki hvað við hefðum getað gert öðruvísi.

Ég mun ætíð geyma Kára í huga mér sem yndislegan son sem var úthlutað því hræðilega verkefni að berjast við djöful sem var hans ofjarl mestalla tíð. Sumar orrustur unnust en stríðið tapaðist.

Ég vona að þú sért kominn á betri stað og laus frá þjáningum þínum elsku kallinn minn.

Pabbi.

Ég sit frammi á gangi í Laugarásbíó og bíð eftir Hákoni mínum sem situr í alsælu inni í sal með popp, kók og góðum vini. Gat ekki annað en smitast af lífgleði þeirra beggja þar sem þeir hlupu um af spenningi og varð hugsað til þín, að þú værir einn þeirra á leiðinni í sunnudagsbíó, lífsglaður sjö ára gutti með fallega brosið þitt og stóru augun eins og ég man eftir þér. Við hefðum sótt þig í Safamýrina þar sem þú biðir spenntur, fallega útitekinn og mamma þín þurft að hafa sig alla við til að fá knús og kossa áður en þú rykir út, tilbúinn í hvað sem biði þín. Ég sem kaupi aldrei popp og kók hefði keypt stærsta skammtinn fyrir þig alveg eins ég gerði áðan, poppið og kókið er í þínu boði sem og svo margt sem þú hefur gefið mér og mínum. Dýrmætasta gjöfin er sú að minna okkur á að lífið er í dag. Lífið sem gaf þér endalausa vinkla til að horfa út frá, velta fyrir þér tilgangi, tilurð og hvað biði eftir okkar hinsta dag. Nú ertu kominn með svarið, alltaf einu skrefi á undan, en eitt veit ég samt og þá að þú ert í góðum höndum hjá þeirri sem ég heyrði þig hvísla hinstu kveðju til, að þú kæmir brátt til hennar.

Hjartans kveðjur til ykkar beggja, ykkar

Harpa Hörn.

Það var óveður dag eftir dag í febrúar árið 1989 þegar Kári systursonur minn fæddist, það var varla hægt að komast á milli hverfa. Hann er minnisstæður dagurinn þegar ég kom að sjá litla frænda í Efra-Breiðholti. Einnig þegar pabbi hans kom heim og hafði á orði hvort ég hefði séð veðrið úti, en þá var alveg á mörkunum að ég kæmist í Neðra-Breiðholt áður en allt lokaðist. Þannig var veturinn sá.

Kári var strax ákveðinn, en alltaf svo blíður og góður. Það var stutt milli þeirra Sindra og oft líflegt hjá þeim. Ekki leið á löngu þar til Atli Steinar bættist í hópinn, þar með voru bræðurnir orðnir þrír. Tíminn leið, fjölskyldan átti heima í Neskaupstað. Þar nutu bræðurnir sín og þegar fjölskyldan flutti síðar til Noregs bættist Arnór í hópinn.

Kári hafði ríka réttlætiskennd og vildi allt fyrir alla gera, átti bágt með að þola mismunun manna á milli, til dæmis þá sem gerð var í skólanum í Noregi varðandi ólík trúarbrögð. Varð honum stundum heitt í hamsi er þetta bar á góma. Kári var skarpgreindur, hann þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum.

Hann var sterkur og laginn til verka og oft naut Helgi aðstoðar hans í vinnustofunni sem hann var afar þakklátur fyrir. Kári var vinur okkar og áttum við margar góðar stundir saman.

Þegar unglingsárunum lauk átti hann erfitt með að fóta sig og því miður villtist Kári út á braut sem hann náði ekki tökum á að losa sig af. Mér þótti svo undurvænt um hann systurson minn, sem nú er kominn á nýjar slóðir, og vona að hann sé laus við sína byrði. Minningin um hann lifir. Er það tilviljun að hann hlaut nafnið Kári, sem lýsir veðrinu veturinn sem hann fæddist og síðasta veturinn hans?

Hallgerður (Gerður) frænka.

Elsku Kári.

Tilfinningarnar voru skrýtnar, það helltist yfir mig sorg en einnig léttir fyrir þína hönd þegar ég fékk fréttirnar að þú værir dáinn. Öll erum við að berjast við eitthvað í gegnum lífið en þín barátta var því miður ansi hörð seinustu ár og það tók sinn toll.

En það sem breytist ekki er að í hvert sinn sem ég hugsa til þín birtist þú með þitt einlæga fallega prakkarabros sem einkenndi þig alla tíð.

Ég varð vitni að fallegri stund þar sem fjölskyldan þín sat saman og rifjaði upp sögur og skiptist á minningum og herbergið fylltist áþreifanlega af ást og væntumþykju. En almáttugur hvað þín verður sárt saknað en minningin um hinn ljúfa, klára og brosmilda Kára mun lifa.

Hver veit svo nema amma, sem ætlaði að vera prinsessa í næsta lífi, sé nú þegar búin að slá verndarvæng sínum yfir þig.

Njóttu hvíldarinnar snillingur.

Hildigunnur.