Heiðursverðlaunahafinn Magnús á tónleikum sem haldnir voru til heiðurs John Lennon í Hafnarhúsi árið 2009.
Heiðursverðlaunahafinn Magnús á tónleikum sem haldnir voru til heiðurs John Lennon í Hafnarhúsi árið 2009. — Morgunblaðið/Ómar
„Ég var mjög hissa og svo streymdi um æðar mínar þakklæti,“ segir tónlistarmaðurinn Magnús Jón Kjartansson, sem í gærkvöldi hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2023, þegar hann er beðinn að lýsa viðbrögðum sínum við viðurkenningunni

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Ég var mjög hissa og svo streymdi um æðar mínar þakklæti,“ segir tónlistarmaðurinn Magnús Jón Kjartansson, sem í gærkvöldi hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2023, þegar hann er beðinn að lýsa viðbrögðum sínum við viðurkenningunni.

Hann segist gleðjast yfir þeirri hugsun að með þessum verðlaunum sé tekið „tillit til þeirrar miklu vinnu sem ég hef lagt af hendi í sambandi við félagsmál og réttindamál innan tónlistarbransans“. Þar á hann helst við störf sín fyrir STEF og Félag tónskálda og textahöfunda en hann starfaði í áratugi fyrir félögin tvö.

Spurður hvað annað hafi staðið upp úr á ferlinum segir Magnús að það sé að hafa fengið að starfa í tónlistinni almennt. „Ég hef lifað af tónlistinni stærstan hluta míns vinnandi lífs. Ég byrjaði níu ára í tónlistarskóla og lúðrasveit og hélt áfram þaðan. Ég var svo heppinn að vera á góðum aldri og hafa fengið að taka þátt í uppbyggingu á fyrsta alvöruhljóðverinu. Ég gerði líka fyrstu sólóplötuna sem Íslendingur gerði með að mestu leyti frumsömdu efni.“ Það var platan Clockworking Cosmic Spirits sem út kom árið 1973.

„Svo leiddi eitt af öðru. Maður hefur komið nálægt upptökum og gerð alveg gífurlega mikils af efni, hljómplötum með alls konar listamönnum,“ segir hann.

Heimurinn er að breytast

Magnús gerði tónlistina að ævistarfi. „Það var einhvern veginn ekkert annað sem kom til greina þótt ég hafi verið ítrekað varaður við. Þetta var kannski aldrei talin vinna en svo breyttist heimurinn og er alltaf að breytast.“

Ein breytinganna sem Magnús vill vekja athygli á er aukin aðkoma kvenna að tónlistarbransanum. „Það er skemmtilegt að það skuli vera kvenmaður sem hringir í mig út af þessu og sem skrifar samantekt um verðlaunin í þetta virðulega dagblað og er þá með fyrir framan sig fjölda stúlkna og kvenna sem taka þátt í þessu tónlistarlífi af fullum krafti þessa dagana,“ segir hann í samtali við kvenkyns blaðamanninn. „Ég myndi vilja færa sjónaukann svolítið þangað því þarna er heimurinn sannarlega að breytast einu sinni enn. Og við fögnum því innilega.“

Æviágrip

Magnús Jón Kjartansson

 Fæddur í Keflavík 6. júlí 1951. Kom fram á unglingsárunum með Echo, Nesmönnum, Hljómum og Óðmönnum.

 Helstu hljómsveitir: Júdas, Trúbrot, Brunaliðið, Haukar, Brimkló, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar, Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, Sléttuúlfarnir og Axel O og Co.

 Sólóplatan Clockworking Cosmic Spirits árið 1973.

 Stofnaði Júdasar útgáfuna ásamt fleirum sem varð seinna að Hljómplötuútgáfunni.

 Einn afkastamesti hljóðvers tónlistarmaður landsins, hefur stjórnað upptökum og útsett og samið tónlist fyrir eigin hljómsveitir og aðra flytjendur.

 Hefur stjórnað kórum, samið þekkt lög, auglýsingastef og tónlist fyrir sjónvarpsþætti og kvikmyndir.

 Formaður Félags tónskálda og textahöfunda í 14 ár og framkvæmdastjóri félagsins í 10 ár. Formaður STEFs á sama tíma. Stjórnarmaður í Samtóni og Útón og fleiri félögum.

 Gerður að heiðursfélaga FTT árið 2011.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir