Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir því bosníska í fyrsta leik sínum í undankeppni EM karla í fótbolta í kvöld. Leikið er í hinni huggulegu Zenica á Bilino Polje-vellinum, sem hefur verið mikil gryfja fyrir bosníska liðið

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir því bosníska í fyrsta leik sínum í undankeppni EM karla í fótbolta í kvöld. Leikið er í hinni huggulegu Zenica á Bilino Polje-vellinum, sem hefur verið mikil gryfja fyrir bosníska liðið.

Það er ljóst að Zenica er mikil fótboltaborg. Í henni leikur Celik Zenica, sem er í sömu litum og Víkingur úr Reykjavík. Það þarf ekki að skoða borgina gaumgæfilega til að sjá merki félagsins um veggi hennar.

Er rautt og svart veggjakrot tengt félaginu afar áberandi í borginni og bílstjórinn á leiðinni frá Sarajevo til Zenica talaði um lítið annað en fótbolta á leiðinni, þrátt fyrir að hafa lítil tök á ensku. Spjallaði hann um ríginn á milli Celik Zenika og FK Sarajevo og hve skemmtileg borgin er í kringum fótboltaleiki.

Talaði hann stoltur um leikmenn eins og Eden Dzeko, Miralem Pjanic og Sead Kolasinac. Hann var hins vegar ekki mjög bjartsýnn og spáði íslenskum sigri. Vonum að Benjamin bílstjóri hafi rétt fyrir sér.

Það má búast við mikilli stemningu á leiknum. Bosníumenn eiga stærri völl í höfuðborginni Sarajevo, en gengið í Zenica hefur verið afar gott og stemningin sem þar myndast mögnuð. Það er því ljóst að íslenska liðið á erfiðan leik fyrir höndum.

Upplifunin að koma til Bosníu er mögnuð. Ótrúlega fallegir fjallgarðar og landslag, í bland við fallegar borgir. Þess á milli má svo sjá merki stríðsins, sem lék íbúa landsins grátt frá 1992 til 1995. Bosníumenn eru afar vinalegir heim að sækja.

Móttökurnar sem íslensku leikmennirnir fá þegar á völlinn er komið verða þó sennilega síður en svo vinalegar. Það mun reyna á íslensku leikmennina í Zenica.