Mengun Fjölmargir dauðir fuglar fundust þaktir olíu í Stafnesi á Heimaey í Vestmannaeyjum í maí árið 2020. Þrálát olíumengun olli dauða þeirra.
Mengun Fjölmargir dauðir fuglar fundust þaktir olíu í Stafnesi á Heimaey í Vestmannaeyjum í maí árið 2020. Þrálát olíumengun olli dauða þeirra. — Ljósmynd/Náttúrustofa Suðurlands
Líklega var það olía úr skipsflaki á hafsbotni sem olli því að töluvert af olíublautum fuglum fannst víðs vegar við suðurströnd landsins og í Vestmannaeyjum árin 2020 til 2022, að því er fram kemur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar vegna greiningar á uppruna olíumengunarinnar

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Líklega var það olía úr skipsflaki á hafsbotni sem olli því að töluvert af olíublautum fuglum fannst víðs vegar við suðurströnd landsins og í Vestmannaeyjum árin 2020 til 2022, að því er fram kemur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar vegna greiningar á uppruna olíumengunarinnar.

Uppi voru getgátur um að mengunina mætti rekja til þýska flutningaskipsins Kampen sem sökk undan Dyrhólaey árið 1983. Virðist sú kenning fá nokkurn stuðning í greiningu Hafrannsóknastofnunar. „Það virðist líklegt að uppruni mengunarinnar sé skipsflak á hafsbotni á svæði um 1-12 sjómílur austan eða suðaustan við Vestmannaeyjar. Til þess að greina uppruna með vissu þarf þó að sjást til olíuflekks á yfirborði og rannsaka skipsflök á svæðinu,“ segir í skýrslunni sem birt hefur verið á vef stofnunarinnar.

Greiningin var unnin að beiðni Umhverfisstofnunar og voru notuð tölvulíkön frá Veðurstofunni og Copernicus-gagnaþjónustu ESB til að greina áhrif hafstrauma, vinda og sjávaralda á rek agna á yfirborði.

„Niðurstöður benda til þess að rekið á yfirborði hafs ráðist af hafstraumum þegar veðurfar er rólegt, en vindátt skiptir miklu máli í hvassviðri. Við athugun reks var annars vegar reiknað út rek til baka í tíma frá þekktum fundarstöðum olíublautra fugla og hins vegar rek fram í tíma frá tilteknum uppruna mengunarinnar. Reiknaðir rekferlar frá hafsvæði skammt austan við Vestmannaeyjar eru í áberandi samræmi við athuganir, þar sem olíublautir fuglar fundust í Reynisfjöru og í Vík aðallega eftir suðvestan hvassviðri en í Vestmannaeyjum fundust fuglar frekar í austanáttum og hægviðri,“ segir í skýrslunni.