Helgi R. skrifar mér og segir, að það virðist vera í tísku þessa dagana að gera úlfalda úr mýflugu. T.d. varðandi óperuna okkar finnist sér sumir helst til hörundsárir. Þessi árátta er að verða landlæg

Helgi R. skrifar mér og segir, að það virðist vera í tísku þessa dagana að gera úlfalda úr mýflugu. T.d. varðandi óperuna okkar finnist sér sumir helst til hörundsárir. Þessi árátta er að verða landlæg.

Madame Butterfly

E.t.v. allt of langt gengu

og örlitla samúð því fengu.

Í tísku' er að blöskra,

á torgunum öskra

og hneykslast á öllu eða engu.

Þessi er af öðrum toga.

Gæska

Aldrei staðföst né ströng

er stundaði síðkvöldin löng.

Afköstin hjá

henni voru' á

við umferð um Hvalfjarðargöng.

Pétur Stefánsson yrkir á Boðnarmiði:

Íslendingar afar seint

upp úr bóli rísa.

Þetta er nú alveg hreint

ágæt morgunvísa.

Hér segist Pétur hafa verið duglegur að eyða fé undanfarna daga:

Á auraleysi er ekkert hlé,

eykst við skuldastafla.

Sælt finnst mér að sóa fé,

sýnu verra að afla.

Ólafur Stefánsson yrkir og kallar „Opinberunarbókin, – stutta útgáfan“:

Um miðnæturstund sá ég mána í skýjum,

það merlaði hrím við svörð.

Og hugur mín leitaði'að himni nýjum,

himni nýjum, – og jörð.

Hér yrkir hann um „Vor í vændum“:

Við hálfopinn glugga með hönd undir kinn,

hugsi, – en enn þó á sporinu,

í leiðslu og vongleði lyktina finn,

sem leggur af ókomnu vorinu.

Tryggvi Jónsson kveður:

Laxeldið mér líkar vel

líkt og krónu norska.

Landsmálanna lukku tel

laxa, ýsu og þorska.

Sigurður Breiðfjörð kvað:

Móðurjörð, hvar maður fæðist,

mun hún eigi flestum kær

þar sem sem ljósið lífi glæðist

og lítil sköpun þroska nær?

Gömul vísa:

Farðu að sofa frændi minn

í fríðum kofa inni.

Láttu dofa og leiðindin

læsast ofan í kistilinn.