Við köllum eftir að það verði til vettvangur fyrir hagnýtar rannsóknir sem eru stundaðar með heildarhagsmuni þjóðarinnar í huga.
Við köllum eftir að það verði til vettvangur fyrir hagnýtar rannsóknir sem eru stundaðar með heildarhagsmuni þjóðarinnar í huga. — Ljósmynd/ÍSOR
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á ÍSOR starfar jarðvísindafólk sem rannsakar jörðina og eðli jarðskorpunnar á Íslandi, ekki síst með auðlindirnar í huga. Aðalviðfangsefni okkar hefur verið jarðhitinn en um þessar mundir beinum við sjónum okkar í auknum mæli á hafsbotninn, en…

Svanhvít Ljósbjörg Gígja

svanhvit@mbl.is

Á ÍSOR starfar jarðvísindafólk sem rannsakar jörðina og eðli jarðskorpunnar á Íslandi, ekki síst með auðlindirnar í huga. Aðalviðfangsefni okkar hefur verið jarðhitinn en um þessar mundir beinum við sjónum okkar í auknum mæli á hafsbotninn, en landgrunnið í kringum Ísland og hafsbotn efnahagslögsögunnar er mjög víðfeðmur. Þetta eru mjög verðmæt og ókönnuð svæði,“ segir Steinunn Hauksdóttir, sviðsstjóri könnunar hjá Íslenskum orkurannsóknum eða ÍSOR eins og það nefnist í daglegu tali. „Til dæmis vinnum við með ýmsum aðilum að því að skoða tækifæri til að nýta vindorku á hafi, rannsökum jarðhita á hafsbotni, náttúruvá og ýmislegt fleira. Hafsbotninn hefur lítið verið rannsakaður og kallað er eftir nýjum orkugjöfum. Núna er það vindorkan og þá er því velt upp hvort Ísland búi yfir tækifærum til að nýta vindorku á hafi.“

Uppbygging miðlægrar þekkingar

Aðspurð hversu mikilvægar svona rannsóknir séu segir Steinunn að hagnýtar jarðvísindarannsóknir séu mjög mikils virði því þannig verði til þekking sem er nauðsynleg í ákvarðanatöku. „Það sem hefur verið okkar ær og kýr í gegnum tíðina er jarðhitinn og ekki mörg fyrirtæki eða stofnanir eins og ÍSOR með þessa þverfaglegu jarðvísindalegu þekkingu sem er grunnurinn að jarðhitaþekkingunni. Jarðvísindalegar rannsóknir eru forsenda þess að nýting á til dæmis jarðhita eða öðrum endurnýjanlegum orkuauðlindum verði sjálfbær. Við köllum eftir því að á Íslandi verði til vettvangur fyrir slíkar hagnýtar rannsóknir sem eru stundaðar með heildarhagsmuni þjóðarinnar í huga, en ekki bara einstaka orkufyrirtækja eins og þróunin hefur verið. Síðustu áratugi hefur mjög vantað upp á opinberan stuðning við rannsóknir og því mjög erfitt að vinna að því að byggja upp miðlæga þekkingu sem nýtist öllum,“ segir Steinunn og bætir við að áður hafi orkufyrirtæki unnið saman með ÍSOR sem hafi tengt þekkingaruppbyggingu við opinberar rannsóknir og háskólasamfélagið. „Jarðhitaþekking á Íslandi er á þeim stað sem hún er í dag vegna þessarar samvinnu. Hún er ekki sjálfsögð og til dæmis eru dæmi um að orkufyrirtæki á Íslandi séu að hluta í eigu erlendra aðila. Við gætum misst úr höndunum það tækifæri að vera áfram leiðandi þjóð í jarðhitarannsóknum og -nýtingu í heiminum. Hið opinbera hefur sett sér stefnu um hver framtíð endurnýjanlegra orkuauðlinda verður og þarf að móta rannsóknarverkefni henni til stuðnings. Ef ríkið vill halda áfram að styðja við þessa einstöku þekkingu sem er til á Íslandi þá þarf að kosta einhverju til. Og það mun skila sér margfalt til baka.“

Þurfum að bæta í

Steinunn segir að Ísland hafi enn forskot í reynslu og þekkingu á að nýta hefðbundinn jarðhita og höfum verið ein af fáum þjóðum í Evrópu til að nota hann til húshitunar. „En Evrópa er að vakna núna. Þar eru mikil áform um nýtingu á grunnum jarðhita eða varmadælum þar sem unnin er orka úr mjög lágum hita. Það er mikið sótt til ÍSOR um að vera með í ýmsum rannsóknarverkefnum og samstarfi fyrirtækja því við erum með reynslu og njótum virðingar. En við þurfum að bæta í ef við ætlum að halda stöðu okkar og samkeppnishæfni og ÍSOR er í lykilstöðu til þess að halda áfram uppbyggingu þekkingar á jarðrænum auðlindum, ekki síst orkuauðlindum,“ segir Steinunn og bætir við að margar hitaveitur landsins séu komnar í vandræði því það vanti meira heitt vatn. „Síðan um aldamótin hefur ekkert gerst í opinberum grunnrannsóknum á lághitasvæðum landsins. Búið er að bora á augljósu stöðunum eftir heitu vatni og næstu skref verða meira krefjandi þar sem þörf er á rannsóknum og borunum til að finna meira vatn. Ekki er hægt að ganga að opinberum stuðningi eða grunnrannsóknum vísum, því lítið hefur verið gert í 20 ár. Það kostar tugi milljóna að bora eina lághitaholu og það hafa hitaveitur í einstökum þéttbýlum ekki bolmagn til að gera. En þetta er aðkallandi vandi hjá hitaveitum um allt land í dag og þarna sést svart á hvítu hversu mikilvægt það er að sinna stöðugt rannsóknum og viðhalda þekkingunni.“